131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[17:00]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst mjög einkennilegt að hv. þingmaður horfi ekki til lengri tíma. Verið er að hækka orkuverð, það kemur skýrt fram í umsögnum, og ef þetta er samkeppnismál, eins og virðist koma fram hjá hv. þingmanni, hefði einfaldlega mátt lækka skattbyrðina á þau fyrirtæki sem eru í samkeppni við opinberu fyrirtækin. En hér er verið að hækka skatta og við verðum ítrekað vör við það þessa dagana að verið er að hækka skatta, það stendur til að hækka skatta á dísilolíu á næstu dögum. Ég tel að það hefði verið miklu skynsamlegra að bíða með þessa skattahækkun til að átta sig betur á hvað umrædd kerfisbreyting á raforkumarkaðnum hefur mikla hækkun í för með sér áður en menn fara að hækka skatta í ofanálag. Ég tel að það sé skynsamlegt en ekki að hækka skatta beint ofan í kerfisbreytingu (Forseti hringir.) sem mun hækka og hefur hækkað gjöld á neytendur.