131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[17:02]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mjög sérkennilegt að hlusta á málflutning Frjálslynda flokksins í þessu máli, flokks sem gefur sig út fyrir að vera hægra megin í íslenskri pólitík, eins og heyra má hjá ákveðnum þingmönnum þess flokks um starfsemi Íbúðalánasjóðs, Ríkisútvarpsins og fleiri þátta. Nú kemur allt í einu hv. þingmaður flokksins hér upp, Sigurjón Þórðarson, og talar á móti þeim breytingum sem við erum að fara að gera á raforkumarkaðnum. Þessum flokki, sem á að vera hægra megin í íslenskri pólitík, er þá ekkert umhugað um raforkubændur í landinu. Honum er ekki umhugað um það umhverfi sem við ætlum að búa íslenskum raforkubændum. Eiga ríki og sveitarfélög að vera stikkfrí hvað varðar skattskyldu í rekstri sínum en eiga svo einkaaðilarnir, sem hv. þingmaður segir sinn flokk standa fyrir, að borga skatt? Hvers lags málflutningur er þetta? Hvílíkt stefnuleysi.