131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[17:03]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég trúi því ekki að hv. þingmaður átti sig ekki á að auðvitað hefur þetta bein áhrif strax. Halda menn að það hafi ekki áhrif á arðgreiðslur, t.d. frá Orkuveitu Reykjavíkur, þegar búið er að ákveða að borga þurfi 18% skatt af öllu sem um er að ræða? Halda menn virkilega að ekki sé tekið tillit til þess hver hinn raunverulegi grundvöllur er undir fyrirtæki þegar verið er að ákveða arðgreiðslur frá því?

Mér fannst hv. þingmaður svolítið óheppinn þegar hann nefndi Múlavirkjun sem er í byggingu og hefur ekki selt neitt rafmagn enn þá, að vísu er búið að gera samning um að selja það, en það er ekki hætt við því að það fyrirtæki fari að borga tekjuskatt á næstunni. Hér er um að ræða tekjuskatt en ekki eignarskatt, ég býst við að hv. þingmaður hafi mismælt sig áðan þegar hann talaði um eignarskatt. (BJJ: Já.) Það er ekki þannig að það séu margar raðir af einkafyrirtækjum í gangi þarna sem þurfa að fara að borga skatt. Það er ekki svo.

Ég tel að svara eigi þeirri spurningu: (Forseti hringir.) Hvers vegna liggur mönnum svona á að heimta skatt af sveitarfélögum sem eiga fyrirtæki?