131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[17:07]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er svo sem ekki miklu við þetta að bæta en það er alveg ljóst að ég og hv. þm. Jóhann Ársælsson höfum verið nokkuð sammála að þessu leyti um þær breytingar sem við höfum verið að gera á raforkuumhverfinu. Það er jafnframt alveg ljóst að þessi fyrirtæki munu ekki borga skatta á næstu árum. Allir eru sammála um það. Hvers vegna göngum við ekki þessa leið til enda? Það var líka alveg vitað að þessi breyting væri óhjákvæmileg í ljósi breytinga á raforkulögunum. Svo greinir okkur, mig og hv. þingmann, greinilega á um hvenær það eigi að gera en ég sé því ekkert til fyrirstöðu að það verði gengið í það strax, enda styð ég það frumvarp sem hér liggur fyrir þinginu.