131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[17:09]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekkert feiminn að koma hér upp og svara hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni því að ég get skilið að Samfylkingin skuli vera í dálitlum vanda í þessu máli vegna þess að hún hefur stutt allar þær breytingar sem við höfum verið að gera á raforkumarkaði hér á landi. Nú er allt í einu viðsnúningur á og fyrir því fæ ég ekki viðhlítandi rök. Þegar hv. þingmaður kvartar undan því að ég komi hér upp og hjóli í allt og alla, eins og hann orðaði það, hlýtur það að segja sína sögu að málstaðurinn er veikur, menn eru ekki samkvæmir sjálfum sér, menn eru ekki samkvæmir þeim gjörðum sem þeir hafa staðið að, nú síðast rétt fyrir áramótin.

Ég vil að lokum spyrja hv. þingmann að því hvort hann sé þá í hjarta sínu sammála því að fyrirtæki í eigu ríkisins og sveitarfélaga verði undanþegin skatti á meðan einkaaðilar á þessum markaði séu skattskyldir. Er sanngirni í því?