131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[17:13]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um ýmsar breytingar sem verða í kjölfarið á breytingum á skattskyldu orkufyrirtækja. Þó svo að við í Frjálslynda flokknum séum fylgjandi þessum breytingum, ef skattskyldan verður að lögum, þýðir það ekki að við styðjum skattskyldu orkufyrirtækja. Ég gerði mér nokkrar vonir um það fyrr í umræðunni, eftir ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, að hér yrði breyting á, að Framsóknarflokkurinn mundi e.t.v. falla frá því að skattleggja orkufyrirtækin.

Það kom fram hjá hv. þingmanni að vegna þess að þetta muni einungis leiða til hækkunar einhvern tíma í framtíðinni en ekki á næstu árum þá sé þetta ekki eitthvað til að hafa áhyggjur af. En nú hafa ýmsir bent á hér í umræðunni að þetta muni án efa hafa áhrif strax til hækkunar á neytendur. Það er því aldrei að vita nema framsóknarmenn falli frá þessu frumvarpi, að hækka orkuna og hætta við að skattleggja orkufyrirtækin. Það væri fróðlegt ef hv. þm. Birkir Jón Jónsson segði okkur frá því á eftir í umræðunni að ef það yrði raunin að þetta leiddi strax til hækkunar, hvort hann yrði þá andsnúinn frumvarpinu um skattskylduna. Mér finnst vera einhverjar líkur til þess þó að ég telji þær ekki miklar, vegna þess að skattskyldan og allar þessar breytingar á orkufyrirtækjunum er hugarfóstur framsóknarmanna. Það er hugarfóstur hæstv. iðnaðarráðherra að koma á þessum breytingum sem hafa því miður leitt til talsverðrar hækkunar. Ég hef nefnt það fyrr í umræðunni að hækkanirnar hafa numið tugum prósentna. Eldri maður á Skagaströnd fékk reikninga upp á 160% hækkun, maður á níræðisaldri sem skilur ekkert í reikningum sem koma frá ríkisfyrirtæki upp á 16 eða 18 blaðsíður.

Mér finnst tími til kominn að framsóknarmenn slaki aðeins á í þessum breytingum og hlusti á rödd skynseminnar, hlusti á það sem við í Frjálslynda flokknum höfum sagt, að það er rétt að doka við, enda höfum við lagt fram frumvarp þess efnis að fresta skattskyldunni til þess að sjá hvað þessar breytingar sem búið er að fara í valda mikilli hækkun á neytendur.

Það kom hér fram í umræðunni að hv. þingmaður hafði miklar áhyggjur af hugtökunum vinstri og hægri og að Frjálslyndi flokkurinn skilgreindi sig hægra megin við vinstri, og af því að flokkurinn skilgreindi sig þannig þá væri hann algerlega fylgjandi frumvarpi framsóknarmanna, óskynsamlegu frumvarpi.

Ég held að ég verði að upplýsa hv. þingmann um að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru á mjög skrýtinni vegferð vegna þess að það má sjá á flokkum hvað þeir eru langt til hægri á því hvað þeir hafa mikinn hluta af útgjöldum, hvað þeir vilja hafa að hið opinbera snúist í miklu af umsvifum þjóðfélagsins. Það verður að segjast, því miður, að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa aukið ríkisútgjöld gríðarlega sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Þess vegna orkar tvímælis t.d. að kalla Sjálfstæðisflokkinn hægri flokk þar sem hann hefur aukið ríkisútgjöld gríðarlega.

Það sem við höfum gagnrýnt og gagnrýnum einmitt varðandi þetta frumvarp um skattskyldu orkufyrirtækja sem við ræðum núna, er að verið er að leggja skattana á þá sem síst skyldi. Þar skilur kannski á milli Frjálslynda flokksins og Sjálfstæðisflokksins að Sjálfstæðisflokkurinn hefur í auknum mæli lagt byrðar á smælingjana og aflétt byrðum af þeim sem hafa það betra. Það sjáum við svo skýrt einmitt í þessu frumvarpi, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, að staðreyndin er sú að skattbyrðin mun eingöngu, ef t.d. horft er á raforkumarkaðinn, leggjast á almenna notendur, minni fyrirtæki í landinu og almenna neytendur, á meðan stórnotendur og stóriðjan hafa samið um það fyrir fram að þeir muni ekki greiða skatta og hafa fast orkuverð. Öll hækkunin mun því lenda á þeim sem síst skyldi.

Það er nú staðreyndin í málinu að hlutur almennra notenda og minni fyrirtækja er alltaf að verða minni og minni í raforkukerfinu. Hann verður í kringum 10–15%, þegar allar áætlanir sem liggja fyrir, af öllum raforkumarkaðnum. Afgangurinn verður hjá stóriðjunni, þ.e. 85–90%. Það er gengið frá því að skattahækkanirnar sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru að boða nú munu allar lenda á almennum neytendum í landinu.

Okkur í Frjálslynda flokknum finnst þetta vera mjög öfugsnúið og viljum að menn doki við, átti sig á því hvað fyrirhugaðar breytingar valda mikilli hækkun áður en þeir fara að leggja á nýjar álögur. Mér finnst það mjög mikilvægt sérstaklega í ljósi þess að ef við skoðum aðrar breytingar sem verið er að gera, t.d. í skattamálum, sést að verið er að auka byrðarnar hlutfallslega á þá sem hafa lægri launin og aflétta þeim af þeim sem hafa hærri launin. Það er alveg sama upp á teningnum í þessu máli. Hér er verið að auka álögur á almenna notendur. En stórfyrirtækin hafa þegar samið sig fram hjá þessu.

Við í Frjálslynda flokknum höfum ekki einungis bent á að það beri að huga að því hvernig við öflum tekna heldur höfum við einnig bent Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum á að þeir hafi farið offari í ýmsum útgjöldum. Sem dæmi má nefna að í tíð Framsóknarflokksins hefur utanríkisþjónustan blásið út gríðarlega mikið. Mér finnst að menn eigi að velta fyrir sér áður en þeir fara í svona gríðarlega mikil útgjöld hvort þetta sé rétt. Er rétt að auka útgjöld til utanríkisþjónustunnar á örfáum árum um 2.300 milljónir árlega? Frá árinu 1998 til 2005 hefur ríkisstjórnin varið 2.300 milljónum meira árlega. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson ætti að huga að þessu. Þetta eru miklar og háar upphæðir. Að velta þessu á almenna notendur í raforkukerfinu, hækka skatta og auka skattbyrðina á þeim sem hafa lægstu launin finnst mér ekki vera rétt og þar skilur á milli. Ég vona að hv. þingmaður átti sig á því að þó svo að við skilgreinum okkur hægra megin við miðju viljum við ekki fara í svona skattlagningu. Við viljum miklu frekar horfa til þess hvernig við minnkum þessi ríkisumsvif. (Gripið fram í: Hvernig þá?)

Ég var að benda á það, hv. þingmaður, að t.d. utanríkisþjónustan hefur aukist um 2.300 milljónir á föstu verðlagi. Síðan hef ég bent hér ítrekað á ýmsa þætti í umræðunni á síðustu dögum, t.d. þegar Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að stofna nýjar ríkisstofnanir eins og Ferðamálastofu og auka eftirlit á ýmsum sviðum. Ég nefni sem dæmi mikið dekurverkefni Framsóknarflokksins á sviði orkumála, þ.e. að færa mikið eftirlit t.d. til Orkustofnunar. Ég tel það ekki rétt að vera að auka eftirlitsbáknið í Reykjavík meira en þörf er á. Í frumvarpi til vatnalaga kemur t.d. fram að þar eigi að taka við tilkynningum um leyfisskyldar jafnt sem óleyfisskyldar mögulegar framkvæmdir við vötn og eitt og annað. Áður en menn fara í svona breytingar eiga þeir að huga að því hvað þær kosta.

Það gilda lög í landinu sem hæstv. utanríkisráðherra hafði forgöngu um að samþykkja, lög um opinberar eftirlitsreglur. Þessi lög kveða á um það að áður en farið er í nýtt eftirlit eigi að huga að nauðsyn þess. Ég hef séð það, því miður, að þessi lög eru þverbrotin hér í lagasetningunni á þingi og ég mun fara yfir það í fleiri ræðum að þarna er einmitt leið, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, til þess að spara í ríkisútgjöldum. Það þýðir ekki eingöngu að hækka skattana til þess að fara í einhver dekurverkefni. Ef menn leita fleiri leiða má t.d. benda á að verið er að fjölga sendiherrum. Þetta kostar peninga. Þetta kostar mjög mikla peninga. Ég tel miklu nær að ríkið einbeiti sér að öðrum verkefnum en að vera að þenja út eitt og annað. Það er umhugsunarvert að í stað þess að hæstv. utanríkisráðherra framfylgi þessu barni sínu, lögum um opinberar eftirlitsreglur, þá var sýnd mynd í ríkissjónvarpinu á dögunum, Opinberun Hannesar. Ég tel miklu nær að stjórnmálamenn einbeiti sér frekar að því að framfylgja reglum sínum og hugarfóstrum í stað þess að festa bara á filmu afleiðingar kerfis sem þeir hafa búið til sjálfir.

Það verður mjög fróðlegt þegar við förum í umræðu um vatnalögin að skoða þessi mál, hvernig menn ætla að skrá allar framkvæmdir og hvernig hæstv. iðnaðarráðherra hefur hugsað sér að framfylgja þessum lögum.

Margt er mjög sérstakt í þessum raforkumálum. Ef maður sýnir fyllstu sanngirni þá tel ég að stjórnarflokkarnir eigi nú þegar þeir senda neytendum um allt land hærri reikning að íhuga að reyna að útskýra fyrir fólki hvers vegna þessar hækkanir eru og tala hreint út. Ég vil þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir nokkuð góða ræðu því hann var einlægur í þessu hækkunartali sínu. Honum fannst rétt að hækka raforkuna vegna ójafnrar samkeppni raforkubænda við Landsvirkjun.

En það má benda framsóknarmönnum á að fær er önnur leið en að hækka á almenna neytendur út af nokkrum raforkubændum. Það má kannski líta á þetta á hinn veginn. Það má líta til þess hvort ekki megi lækka skattana á raforkubændurna. Mér finnst að framsóknarmenn eigi að huga að því að í stað þess að horfa alltaf til skattahækkana þá megi jafnvel fara hina leiðina og lækka skatta á raforkubændur. Ef það er úrslitaatriðið hjá framsóknarmönnum að þetta snúist um raforkubændur og þess vegna þurfi að hækka raforkuna um allt land þá tel ég að þeir ættu að staldra við og hlýða á skynsaman málflutning okkar í Frjálslynda flokknum og skoða hvort ekki sé eðlilegt að fresta gildistökunni. Það liggur ekki svo mikið á. Fyrst að hv. þingmaður upplýsti okkur um að þetta muni ekki færa ríkissjóði neinar tekjur akkúrat núna og þetta skipti þess vegna engu máli, hvers vegna ekki þá að fresta skattahækkuninni (Gripið fram í.) ef þetta skiptir engu máli? Það væri áhugavert ef framsóknarmenn upplýstu okkur um það. Ef þetta skiptir engu máli fyrir ríkissjóð hvers vegna má þá ekki bara fresta þessu og skoða það hreint út sagt hverjar afleiðingarnar af breyttu umhverfi í raforkumálum verði á raforkureikning landsmanna?

Ég nefndi þennan ágæta herramann á Skagaströnd sem fékk 160% hækkun á sínu raforkuverði og hann áttar sig ekkert á því. Ég hef nú komið með þessa reikninga á borð hv. iðnaðarnefndar og fengið síðan símtöl m.a. frá Snæfellsnesi þar sem menn eru að tala um 20–25% hækkun. Mér finnst í raun að Framsóknarflokkurinn ætti að leggja meiri áherslu á að útskýra fyrir fólki hvers vegna þurfti að hækka og hve hækkunin er mikil vegna þess að þegar þeir koma í þennan ræðustól þá segja þeir að þetta sé ekki svo mikil hækkun. Hver er hækkunin? Það þarf að koma betur fram hvað verið er að skattpína fólkið mikið. Mér finnst að það þurfi að koma fram.

Við höfum heyrt þetta hérna í annarri umræðu, í þessari villandi umræðu um dísilolíuna. Þar var því haldið fram að hagstæðara yrði að keyra dísilbíla. En nú eru áhöld um hvort það sé hagstæðara vegna þess að skattahækkunarárátta Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins á almenning er svo mikil. En síðan þegar kemur að þeim sem betur hafa, svo sem þeim sem njóta hæstu launanna og stóriðjunnar, þá má ekki taka neina skatta. Þá eru þeim allar bjargir bannaðar.

Þessi útgjaldaaukning ríkissjóðs setur þá auðvitað í vanda. Ég vonast til þess að Framsóknarflokkurinn hugi að því, því að á flokksþingi sínu hafði hann ákveðna samþykkt einmitt um að þessar breytingar á raforkumarkaðnum hefðu ekki afdrifaríkar afleiðingar. Ég vona að hv. þingmaður leiðrétti mig ef það er ekki ein af samþykktum flokksins. Mér finnst að menn eigi að virða þetta. Það gengur ekki að hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, komi í þennan ræðustól og tali um einhverjar hundrað kr. hækkanir, svo eru það ekki þúsund kr. hækkanir heldur tugþúsund kr. hækkanir. Það gengur ekki að koma svona fram. Eins gengur það ekki hjá sjálfstæðismönnum að gefa það í skyn að olían, dísilolían, sé ekkert að hækka. Síðan hækkar hún og verður miklum mun dýrari en bensínið. Það skilur enginn neitt í þessu.

Ég vonast til að neytendur sem fara nú og fylla bíla sína af dísilolíu eftir miklar verðhækkanir Sjálfstæðisflokksins átti sig á því hver er að hækka hjá þeim. Það er auðvitað Sjálfstæðisflokkurinn, hæstv. fjármálaráðherra, Geir Haarde. Um leið og verið er að dæla er í rauninni verið að dæla í ríkissjóð. (BJJ: Allir vondir.) Allir vondir, segir hv. þm. Birkir Jón Jónsson. Það sem ég er að útskýra og kom fram í svari er að ójöfnuður er að aukast. (Gripið fram í.) Það kom hérna fram og var meira að segja reiknað út af hæstv. fjármálaráðherra, það var reiknaður út sérstakur stuðull. Þetta eru því miður staðreyndir.

Það sem er alvarlegt, og ég vona að hv. þingmaður átti sig á því, að þegar ég óskaði eftir því að hæstv. fjármálaráðherra reiknaði út hver ójöfnuðurinn yrði þegar flokkarnir, stjórnarflokkarnir, væru búnir að ná fram breytingum sínum á sköttum, þá bara voru allar reiknivélar stopp í ráðuneytinu. Það er svolítið sérstakt og það er eins og menn viti í raun og veru af þessu. Hægt er að reikna hagvöxt áratugi fram í tímann, en ef beðið er um að reikna ójöfnuð eitt eða tvö ár frammí tímann, þá eru allar reiknivélar stopp í fjármálaráðuneytinu. Það er einmitt hluti af þessu máli, að verið er að hækka orkuna á almenna neytendur og minni fyrirtæki á meðan stóriðjan mun ekki greiða þessa skattahækkun sem Framsóknarflokkurinn er svo stoltur af, eins og heyra mátti í ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, það er mergurinn málsins.

Það sem við í Frjálslynda flokknum leggjum mikla áherslu á er að menn reyni nú að einangra dæmið þannig að við áttum okkur á því að þær hækkanir sem verða núna verði ekki vegna skattbreytinga, heldur verði þær vegna breytinga sem Framsóknarflokkurinn hefur beitt sér af alefli fyrir í breytingum á raforkumarkaði, en vera ekki að bæta skattpíningu ofan á þessar breytingar sem valda svona mikilli hækkun á töxtum hjá fólki víða um land.

Eftir að hafa hlýtt á ræðu hv. þingmanns geri ég mér vissar vonir um að menn ætli að falla frá þessari hækkun, vegna þess að boðað var í umræðunni að ef hækkunin verður einhvern tímann í framtíðinni á fyrirtæki og almenning eins og fram kemur í umsögnum, eins og hann túlkar umsagnirnar, þá er þetta í lagi, en ef þetta muni strax leiða til hækkunar, þá sé hv. þingmaður andvígur og Framsóknarflokkurinn andvígur þessu frumvarpi. Þess vegna hef ég vissar vonir um að Framsóknarflokkurinn muni falla frá frumvarpinu. Ég vonast til að stjórnarflokkarnir taki þessar ábendingar mínar með velvilja, hvernig eigi að stemma stigu við ríkisútgjöldum, og stöðva þessa þenslu og þá vitleysu að vera að sækja um í öryggisráðið og þenja út um 2.300 milljónir árleg útgjöld utanríkisráðuneytisins, þetta er vitleysa, fólki finnst það, fólk er að tala um þetta. Og ég vonast til að stjórnarflokkarnir hugsi um það áður en þeir fara að setja upp nýjar ríkisstofnanir hver eigi að greiða þetta.

Frú forseti. Ég hef lokið máli mínu.