131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[18:22]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var athyglisverð ræða að mörgu leyti í ljósi þess að ég komst að því sem mér bjó í grun áður en ég fór í andsvar við hv. þingmann, að báðir þessir flokkar vilja standa vörð um velferðarkerfið. Samt sem áður hafa hv. þingmenn Vinstri grænna verið á móti 500–700 manna vinnustað á Austurlandi, fjölgun starfa sem mun skila sér í gríðarlega auknum tekjum fyrir þjóðarbúið. Hvernig ætlum við að verja fjármununum sem koma m.a. af framkvæmdunum við stækkun á álverinu á Grundartanga? Við ætlum að verja þeim til nýsköpunar. Við ætlum að stórauka framlög til nýsköpunarmála á næstu árum hér á landi. Við ætlum að stórauka framlög til menntamála hér á landi.

Það er mjög ódýr pólitík að standa í ræðustól Alþingis og tala um að við eigum að auka framlög til þessara málaflokka, til heilbrigðismála, til félagsmála, til menntamála, til nýsköpunar; við verðum að eiga fyrir þessu, enda höfum við rekið ríkissjóð á umliðnum tíu árum með verulegum hagnaði. Við höfum minnkað skuldastöðu ríkissjóðs sem hlutfall af þjóðarframleiðslu um helming, úr 34% ofan í 17%. Þetta kemur ekki af sjálfu sér. Ég held að hv. þingmaður verði að viðurkenna það. Þessir tveir flokkar vilja standa vörð um velferðarkerfið. Leiðir þessara tveggja flokka að því markmiði eru gjörólíkar.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson vill fara leið ríkisbúskapsins, að ríkið standi vörð og reki ákveðna þjónustu í samfélaginu, jafnvel raforkuna og allt þetta, sem ég get að mörgu leyti tekið undir, en hann var t.d. algjörlega á móti því að við mundum einkavæða bankana eins og raunin varð á sem hefur verið að skila þjóðarbúinu tugum milljarða króna á undanförnum árum.