131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[20:01]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á ýmsum lögum á orkusviði sem tengist í raun öðru máli um skattlagningu orkufyrirtækjanna. Frumvarpið er að mörgu leyti nokkuð athyglisvert, sérstaklega í ljósi þess að ríkisstjórnin ætlar með málið í gegnum þingið tiltölulega stuttu eftir að sett hafa verið ný raforkulög í landinu. Við höfum meira að segja nýlega breytt þeim raforkulögum og okkur var sagt hér í þinginu af hæstv. iðnaðarráðherra og fleiri stjórnarliðum að breytingarnar á raforkulögunum, til þess að koma á því sem kallað hefur verið virk samkeppni hér á landi á raforkusviði, yrðu ekki tilefni til neinnar sérstakrar hækkunar á raforkuverði.

Síðan hefur það einmitt komið í ljós sem fylgifiskur raforkulaganna að orkuverð hefur víða breyst verulega og bitnar sérstaklega illa á köldum svæðum landsins þar sem menn þurfa að kynda hús sín með raforku. Sagt var héðan úr þessum ræðustól að lagabreytingarnar mundu ekki kalla fram nein sérstök hækkunartilvik á orkureikningum fólks eða að hámarki 1–3%, vegna þess að það væru engin tilefni til þess að hækka raforku af þeirra völdum. Þess vegna kom það auðvitað mörgum á óvart þegar niðurstaðan varð sú að fólk er að fá orkureikninga sem eru 25% og upp í 40% hærri en þeir voru áður, einkum á þeim svæðum þar sem ekki eru hitaveitur og fólk þarf að kynda hús sín með raforku. Þetta kom ríkisstjórninni í opna skjöldu að nokkru leyti og var reynt að bregðast við þessu með auknum niðurgreiðslum, en það hefur engan veginn dugað til sem sést á orkureikningum fólks. Sú tilfærsla sem orðið hefur bitnar því miður harkalega á neytendum og hún bitnar á þjóðinni misjafnlega eftir landsvæðum og misjafnlega milli dreifbýlis og þéttbýlis. Dregin hefur verið sérstök lína milli dreifbýlis og þéttbýlis miðað við 200 íbúa og í byggðarlögum með undir 200 íbúa er orkuverðið hærra en á þéttbýlli svæðunum.

Það einkennilega við málið er að hjá íbúum sem horfa hver á annan yfir tiltölulega mjóan botn á firði, eins og innst í Ísafirði, í Ísafjarðarkaupstað, breyttist orkureikningurinn hjá öðrum íbúanum sem er sunnan við botn fjarðarins vegna þess að hann hafði tengst annarri dreifingarstöð, en hinn sem er hinum megin við fjörðinn telst í þéttbýli og greiðir allt annað orkuverð. Þetta er eitthvert furðulegasta dæmi sem ég hef heyrt um. Ég þarf eiginlega, til að vera alveg viss, að gera mér ferð á þessi heimili þegar ég kem til Ísafjarðar og spyrjast fyrir um hvort þetta sé svona hjá þessum nágrönnum sem kílómetri skilur að, reyndar sjór þegar flóð er en fjara þegar fjarað er út. Þá er hægt að ganga þvert yfir á milli bæjanna án þess að nota veginn. Ég þarf að spyrjast fyrir um hvort þetta sé virkilega ein af hinum einkennilegu uppákomum sem fylgt hafa breytingum á raforkulögunum.

Það er ekki nema von, hæstv. forseti, að fólkið í landinu uni illa slíkri lagasetningu og slíkri lagabreytingu. Ég hef jafnvel heyrt um að fólk sé að spá í að fá vini og ættingja til að skrá sig í ákveðna heimilissveit, í ákveðnu kauptúni, til að koma tölunni þar upp í 201. Hvað skyldi gerast þá? Þá telst svæðið orðið til þéttbýlis, ef hægt er að koma því svo fyrir.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst afleiðingin af raforkulögunum alveg stórfurðuleg og furðuleg dæmi sem maður heyrir þar um og þarf að sannreyna áður en maður getur fullyrt það nákvæmlega að svona sé í pottinn búið. En þetta held ég að sé sannleikanum samkvæmt.

Nú ræðum við hins vegar frumvarp um breyting á ýmsum lögum á orkusviði, sem er í raun fylgifrumvarp annars frumvarps um skattskyldu orkufyrirtækja. Breytingarnar sem eiga að verða á lögunum eru upptaldar í frumvarpinu, þær eru:

Breyting á orkulögum, nr. 58/1967, með síðari breytingum.

Breyting á lögum nr. 10/2001, um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja, með síðari breytingum.

Breyting á lögum nr. 159/2002, um stofnun hlutafélags um Norðurorku, með síðari breytingum.

Breyting á lögum nr. 40/2001, um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða, með síðari breytingum.

Breyting á lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, með síðari breytingum.

Breyting á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, með síðari breytingum.

Breyting á lögum nr. 60/1981, um raforkuver, með síðari breytingum.

Við fjöllum því um lög um öll orkufyrirtæki landsins sem hafa á annað borð sérlög um starfsemi sína.

Formaður iðnaðarnefndar greindi frá því í umræðu fyrr í dag að það væri ekkert hættulegt að fara þannig í málin eins og hér er lagt upp með, að innleiða skattskyldu orkufyrirtækjanna. Rökin fyrir því voru þau, og held ég að ég fari nokkurn veginn rétt með, kannski ekki orðrétt, en rökin voru þau að mörg þeirra orkufyrirtækja sem ég hef nefnt og vitnað til væru í það miklum framkvæmdum og væru það skuldsett, væru með það mikinn óuppgerðan kostnað og tap og fjárfestingar að engar líkur væru á því að fyrirtækin færu að borga skatt á næstu árum. Ég held jafnvel að það hafi verið nefnt að það væri ekki fyrr en eftir 2010 sem mörg fyrirtækjanna færu að borga tekjuskatt.

Ég er ekki viss um, virðulegur forseti, að þetta séu réttar upplýsingar eða haldbærar. Mér er nær að halda að fyrirtæki eins og Landsvirkjun, sem er í geysilegum framkvæmdum, muni ekki fara að greiða skatta samkvæmt frumvarpinu á næstu árum. En ég gæti vel trúað því að önnur fyrirtæki færu að gera það mun fyrr en 2010. Ég velti t.d. fyrir mér Orkubúi Vestfjarða sem hefur ekki staðið í neinum sérstökum stórframkvæmdum á undanförnum árum, þó að lagfærð hafi verið stífla við virkjun norður í Steingrímsfirði og vissulega verið unnið að viðhaldi o.s.frv. er ekki hægt að segja að menn hafi staðið þar í mikilli öflun nýrrar raforku með tilheyrandi stíflumannvirkjum og virkjunum.

Ég hygg því að sú lagabreyting sem hér er verið að tala um, um skattskyldu orkufyrirtækja, muni, eins og lögin um raforkulögin sem við kláruðum fyrir áramót, koma mjög misjafnlega niður á íbúum landsins. Með nákvæmlega sama hætti og raforkulögin komu mjög misjafnlega niður á heimilum landsins miðað við hvar þau voru staðsett á landinu og hvort þau voru að nota raforku til húshitunar eða höfðu til þess aðra orkugjafa.

Reyndar er ætlast til þess í frumvarpinu um skattskyldu orkufyrirtækja að skattlagningin nái einnig til orkufyrirtækja að því er varðar heitt vatn. Hér er því verið að búa til nýjan tekjustofn fyrir ríkið.

Ég velti því satt að segja fyrir mér, virðulegur forseti, hvernig hugsunin í skattstefnu ríkisstjórnarinnar er. Ég er alveg steinhættur að botna í því hvernig þetta á að virka, fæ ekkert samhengi í þetta lengur.

Hér á haustdögum var boðuð skattalækkunarstefna, hún var keyrð í gegn, sem sneri að því að lækka tekjuskatt um eitt prósentustig flatt á allar tekjur, sem auðvitað kom þannig út að þeir fengu mestu skattalækkun í krónutölu sem hæstar höfðu tekjurnar en þeir minnst sem lægstar höfðu tekjurnar. Fyrir þessu voru færð ákveðin rök af hendi stjórnarliða sem við keyptum ekki í stjórnarandstöðunni og töldum mikið óráð að fara svona í skattamálin vegna þess að verið væri að auka hlutfallslega skattbyrðina á láglaunafólkinu, það fengi miklu minni lagfæringar en ef við hefðum t.d. hækkað persónuafsláttinn og reynt að hækka skattleysismörkin þannig. Þeir sem lægri hafa tekjurnar hefðu fengið sömu krónutölulækkun með þeirri aðferð eins og þeir sem hærri hafa tekjurnar. Nei, því var hafnað og þessi leið farin.

Síðan ræðum við frumvarpið og tengd frumvörp um breytingar á ýmsum lögum á orkusviði sem er afleiðing af því að fara á að skattleggja orkufyrirtækin. Hvar skyldi sú skattlagning lenda? Hún lendir ekki sem uppbót í tómum vösum fólks, það er alveg ljóst.

Það gæti endað með því að fólk sem hefur litlar tekjur neyddist til að sækja um félagslega aðstoð vegna þess að þegar tekist hefur að skattleggja orkufyrirtækin til viðbótar við þá kröfu sem var í raforkulögunum að fyrirtækin ættu að skila arði, stighækkandi arði á nokkrum árum, þá mun það koma þannig út að hækkunin sem fyrirtækin setja á raforkuverðið eða hitaorkuna þar sem eru orkuveitur með heitt vatn, sú skattlagning, fer ekkert eftir tekjum. Hún verður miðað við þá notkun sem fólk þarf að nota til að kynda hús sín. Það er auðvitað svo, virðulegur forseti, að sá sem hefur lágu tekjurnar þarf að kynda húsið sitt alveg jafnt og sá sem hefur háu tekjurnar. Þar af leiðandi verður þessi skattlagning með þeim hætti, sem er alveg öfugt við það sem ríkisstjórnin gerði þegar hún kom með flötu skattprósentuna, að nú skulu allir af því að verið er að hækka álögurnar borga jafnt, lágtekjumaðurinn sem kyndir 150 fermetra húsið sitt og hátekjumaðurinn sem kyndir 150 fermetra húsið sitt. Þeir þurfa að nota svipaða orku til að halda húsum sínum heitum séu þeir á sama svæði.

Það er alveg kristaltært, virðulegur forseti, að það kemur miklu meira við pyngjuna hjá lágtekjumanninum að kynda húsið sitt þegar búið er að hækka orkutaxtana til þess að ná inn þeirri arðsemi og tekjum sem gert er ráð fyrir í raforkulögunum með því að bæta skattlagningunni við. Það liggja fyrir yfirlýsingar frá orkufyrirtækjunum um að þau muni hækka taxta sína. Þau eiga ekkert annað svar við þessari skattlagningu.

Við stöndum uppi með það að vera að búa til álögur sem koma í krónutölu jafnþungt niður á lágtekjumanninum og hátekjumanninum. Ef taxtinn fyrir að kynda 150 fermetra hús á mánuði hækkar um 5 þús. kr., þarf sá sem hefur 100 þús. kr. tekjur að borga hækkun sem er þá 5% af tekjum hans, brúttó, til viðbótar við annan orkukostnað, en sá sem hefur hins vegar helmingi meiri tekjur, 200 þús. kr., borgar ekki nema 2,5% í viðbót og þannig auðvitað koll af kolli eftir því sem við förum upp eftir launastiganum og 0,5% hækkun hjá þeim sem hefur milljón á mánuði. Svona er þetta, virðulegur forseti, og það segir sig sjálft að það munar meira um 5 þús. kr. hjá hundrað þúsund króna manninum en hjá tvö hundruð þúsund króna manninum, svo við höldum nú ekki áfram lengra upp.

Með þessum frumvörpum erum við að búa til álagningu sem tekur ekki neitt mið af greiðslugetu fólks eða tekjum þess. Við erum bara að búa til álagningu sem mun leggjast á orkugjaldið hvort sem orkan er í formi raforku eða heits vatns. Þessi skattastefna er látin leggjast af fullum þunga á láglaunamanninn, þ.e. jafnt á alla sama hvaða tekjur menn hafa. En þegar verið var að lækka skattana var séð til þess að hátekjumaðurinn fékk miklu meira, tugum prósenta meira í krónutölu en sá sem lægstar hafði tekjurnar. Þetta er staðreynd þessa máls.

Virðulegi forseti. Ég er því nokkuð hugsandi og hissa á hvers konar ringulreið gildir í þessari stefnu ríkisstjórnarinnar, nema við verðum að líta svo á í stjórnarandstöðunni að þetta sé allt viljandi gert, að það sé alveg sérstakt markmið núverandi ríkisstjórnar að auka álögur á lágtekjufólk í landinu og efla greiðslugetu og afkomu þeirra sem hærri hafa tekjurnar. Skyldi það vera?

Ég átta mig alls ekki á þeirri miklu ákefð sem er í því að koma þessu máli fram ef maður á að taka mark á orðum hv. formanns iðnaðarnefndar um að orkufyrirtækin, flest hver, séu það skuldsett og séu í það miklum framkvæmdum að þau muni hvort sem er ekki borga skatta. Ég held reyndar að það sé ekki rétt. Sum orkufyrirtækin munu byrja að borga skatta og þau munu láta allan kostnað sem á þau fellur, hvort sem það er vegna skatta eða vegna þess að þau þurfa að sýna sérstakan arð og skila honum til ríkisins sem arðgreiðslu, koma fram í orkuverðinu. Það er nefnilega svo að orkufyrirtækin hafa bara tekjur sínar af því sem þau selja, úr orkunni, hvort sem það er raforka eða heitt vatn. Þaðan taka þau tekjurnar og þar myndast tekjugrunnurinn að langmestu leyti. Þó að vissulega muni kannski vera hægt að hagræða einhvers staðar í orkugeiranum munu tekjurnar alltaf koma af sölu raforku og hita. Það er staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Þess vegna verð ég, hæstv. forseti, að lýsa mig algjörlega andvígan því sem hér er verið að gera.

Við fluttum um það breytingartillögu í Frjálslynda flokknum að ef ríkisstjórnin ætlaði að keyra þetta mál fram, þá gæfu menn sér a.m.k. tíma og frestuðu virkni laganna fram yfir 2012. Það hefði ekki átt að vera hundrað í hættunni með það úr því að formaður iðnaðarnefndar lýsti því yfir áðan að lögin mundu hvort sem er ekki hafa neina skattavirkni fyrr en eftir 2010. Það hefði verið hægur vandinn að fresta virkni laganna fram yfir 2012 og taka upp þá tillögu sem við lögðum til, að skipa nefnd á árinu 2009 sem færi yfir hvaða áhrif skattlagningin hefði á orkuverð í landinu, að menn reyndu að meta það áður en virkni laganna kæmi til framkvæmda. (Gripið fram í: Hvar er formaður iðnaðarnefndar?) Formaður iðnaðarnefndar er ekki staddur hér, ég veit ekkert hvar hann er. Ég sé hins vegar formann þingflokks framsóknarmanna og býð hann velkominn. Hann hefur hlustað vandlega, ég hef tekið eftir því, og gáði meira að segja í vasa sína áðan þegar ég var að tala um að þetta væru greiðslur sem kæmu úr vösum venjulegs fólks. (JBjarn: Hann var að leita að stefnu Framsóknarflokksins.) Nú, var hann að því, hv. þingmaður? Ég áttaði mig ekki á að hann væri að leita að henni, ég hélt að hann væri að gá að fjárhag sínum.

Þetta er hinn kaldi veruleiki sem við stöndum frammi fyrir. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég átta mig ekki á því ofurkappi sem menn leggja á það að koma þessum lögum öllum fram sem tengjast orkuverði og orkulagabreytingunni jafnvel þó að formaður iðnaðarnefndar lýsi því yfir að sennilega muni lögin ekki hafa neina virkni vegna þess að fyrirtækin séu svo skuldsett. Þetta minnir mann næstum á það sem maður gæti ímyndað sér að menn þyrftu að að flýta sér og leggja jafnmikið kapp á og það er ef þeir væru að missa refi sína út úr búum og þyrftu að hlaupa á eftir þeim á fullri ferð til þess að bjarga verðmætum. Það á auðvitað ekki við í þessu máli, hæstv. forseti.

Hvers vegna menn fara svona í þetta mál fæ ég varla skilið. Mig undrar það að við skulum vera að ræða hér viðbótarlagasetningu sem getur haft viðbótaráhrif til þess að hækka orkuverð í landinu og getur haft þau áhrif að við aukum enn þá meira á slaka stöðu þess fólks sem býr á köldustu svæðum landsins og þarf mesta orkunotkunina. Ég hélt að engin þörf væri á því, hæstv. forseti, að reyna frekar á það að skipta þjóðinni í tvo hópa, þá sem búa á heitum svæðum og njóta heita vatnsins og hafa þar af leiðandi hingað til verið með mun lægri orkukostnað af kyndingu íbúða sinna og húsa, og svo hinn hluta landsmanna sem býr á köldum svæðum og þarf að nota nánast eingöngu raforku til að halda húsum sínum heitum. Þetta þýðir einfaldlega að þarna mun bilið enn vaxa og enn aukast kostnaður þeirra sem búa á köldu svæðunum, því það er jú vitað að orkuverð hitaveitnanna, margra hverra, er miklu lægra við kyndingu á húsum en raforkuverðið víða út um land þar sem ekki er kostur á annarri orku.

Ég spyr mig líka að því, hæstv. forseti, hvers vegna þetta var svona mikið kappsmál eins og kom fram í ræðu formanns iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, að þessi lög og tengd lög sem við erum að ræða hér væru bráðnauðsynleg til þess að jafna stöðu þeirra fyrirtækja sem framleiða raforku, jafna stöðu milli þeirra sem eiga einkarafstöðvar og selja inn á landsnetið og annarra stærri fyrirtækja, vegna þess að eins og staðan er í dag borguðu fyrirtækin sem þau lög ná til, og ég taldi upp í þessari ræðu minni, ekki skatta en einkarafveitur borguðu skatta ef þau hefðu þannig afkomu. Það gerist sennilega ekki einn, tveir og þrír, vegna þess að þeir raforkubændur sem hafa verið að koma á fót virkjunum til þess að selja inn á dreifinet orkuveitnanna í landinu, hafa margir verið að fjárfesta mikið og byggja sínar virkjanir og eru vafalaust skuldsettir til einhverra ára þó að ég geri mér vissulega vonir um að innan fárra ára fari þessar virkjanir að mala eigendum sínum gull.

Ef það er svo, sem ég held, að þær virkjanir sem menn eru að setja á fót, einstaklingar eða hlutafélög sem einstaklingar eiga, muni hvort sem er ekki borga skatta á næstu árum vegna fjárfestinga sinna, þá hefði mönnum náttúrlega verið í lófa lagið að koma á jafnrétti milli aðila, meðan verið væri að skoða málin betur og íhuga þau betur en mér finnst vera gert hér með því að keyra lögin í gegn, með því að bæta inn lagagrein sem segði að a.m.k. næstu fimm árin borguðu virkjanir einstaklinga ekki tekjuskatt og þar með hefði mönnum gefist ráðrúm til að skoða þessi mál, fara vandlega yfir þau og reyna að átta sig á hvaða afleiðingar fylgdu þessari skattlagningu á orkufyrirtækin.

Eins og ég sagði áðan óttast ég mjög að þetta komi misjafnlega niður á landsmönnum, það komi verr niður á hinum köldu svæðum landsins en þar sem orkan er ódýrari, þetta muni bætast við orkutaxtana eins og orkufyrirtækin hafa reyndar lýst varðandi frumvarpið um skattskyldu orkufyrirtækja. Ég þykist vita það að formaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, hafi kynnt sér umsagnir orkufyrirtækjanna varðandi skattskyldufrumvarpið. Þar er því einfaldlega lýst að fyrirtækin muni innan skamms þurfa að setja þessar álögur út í orkuverðið. Ég hefði haldið að við gætum tekið eitthvert mark á því sem í slíkum umsögnum er.

Ef hitt er rétt sem hv. þm. Birkir J. Jónsson sagði áðan, að fyrirtækin væru mörg svo skuldsett og hefðu verið í það miklum fjárfestingum að þau mundu hvort sem er ekki borga tekjuskatt á næstu árum, sé ég ekki heldur hvað okkur liggur svona rosalega mikið á. Af hverju gefum við okkur ekki aðeins tíma til að skoða þessi mál og velta því fyrir okkur: Hafa þau þær afleiðingar að orkuverð hækkar til fólksins til viðbótar við það sem kom með raforkulögunum? Er ekki rétt að við komumst út úr þeim vanda sem vissulega varð til við raforkulögin og kemur misjafnlega niður í dreifbýli og þéttbýli o.s.frv., og tökum okkur einhver ár til að skoða það og alla vega lenda því máli, annaðhvort með auknum niðurgreiðslum eða öðrum lagfæringum sem ásættanlegar gætu talist áður en við förum þá leið sem hér er lögð til?

Þetta vildi ég sagt hafa um málið og ætla ekki að orðlengja þetta mikið meira en tel að öllu jöfnu að málin sem við ræðum og tengjast skattskyldu orkufyrirtækja muni hækka orkuverð í landinu. Það er hlutur sem ég er ekki tilbúinn í, allra síst í ljósi þess sem fylgdi með sem afleiðing af raforkulögunum.

Ég hef orðað það svo, hæstv. forseti, þegar menn eru með þennan flýti í lagabálkunum að snúa raforkunni, orkulögunum og svo núna skattlagningu orkufyrirtækjanna, hvort menn sjáist ekki fyrir. Hvað liggur svona á? Ég hef ekki fengið neinar sérstakar skýringar á því. Enn síður finnst mér hafa komið gildar skýringar eftir að hv. þm. Birkir J. Jónsson sagði okkur í dag að það mundi hvort sem er ekki verða um neinar greiðslur að ræða vegna þess að fyrirtækin væru hvort sem er svo skuldsett og með taprekstur að það yrðu ekki neinar sérstakar skattgreiðslur og þar af leiðandi væri ekkert sem menn mundu setja út í verðlagið.

Þá vil ég enda ræðu mína á því að spyrja enn og aftur hv. formann iðnaðarnefndar: Af hverju liggur svona á að koma frumvarpinu í gegn ef það er satt og rétt sem sagt var í þessum sal í dag að það yrði hvort sem er ekki um neinar skattgreiðslur að ræða vegna skuldsetningar fyrirtækjanna? Ég dreg reyndar í efa að það sé alveg hárrétt því ég held að fyrirtækin séu misjafnlega skuldsett. En ef það er rétt, hv. þingmaður, (Gripið fram í: Ávarpa forseta.) þarft þú að gefa skýringar á því hvað liggur svona á. (Gripið fram í.)