131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[20:35]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breyting á ýmsum lögum á orkusviði. Ræðumönnum hefur verið mjög tíðrætt um þá pólitísku stefnubreytingu sem verið er að taka gagnvart orkumálum í landinu. Allt til þess að farið var í markaðsvæðingu og einkavæðingu á raforkukerfinu hefur verið litið á rafmagn og hitaveitu sem hluta af almannaþjónustu í landinu. (Gripið fram í.) Nei, það er alveg hárrétt að framsóknarmenn hafa þarna snúist um sjálfa sig og ég kem að því seinna hversu dapurt það er að upplifa hvernig forusta Framsóknarflokksins hefur snúist gegn grundvallarhugsjónum sínum sem flokkurinn hefur byggt á í áratugi og fer að styttast í heila öld, en nú síðustu árin er verið að ganga gegn þeim hugsjónum sem flokkurinn var upphaflega byggður á, þ.e. á samvinnuhugsjóninni, á því að byggja upp sterka og öfluga almannaþjónustu sem skóp nánast grundvöll fyrir atvinnulíf og gott mannlíf í landinu. Samvinnuhugsjónin, félagshyggjan hefur gert þjóðina svo öfluga, svo efnahagslega stönduga sem raun ber vitni. En forustumönnum Framsóknarflokksins þótti nóg komið og fóru út í markaðsvæðingu og einkavæðingu almannaþjónustunnar og nú tölum við um rafmagnið og hitaveituna.

Sá liður sem nú er tekinn fyrir er skattlagning almannaþjónustunnar, nú skal hún verða skattskyld. Að mati forustumanna Framsóknarflokksins, ekki kjósenda Framsóknarflokksins, a.m.k. ekki þeirra sem studdu hann við síðustu alþingiskosningar, þeir kjósendur voru ekki að kjósa forustu Framsóknarflokksins til þess að ganga svo gegn almannahagsmunum eins og markaðsvæðingu raforkukerfisins, það er alveg víst.

Frú forseti. Þó að það komi ekki beint málinu við er fróðlegt að sjá að í síðustu skoðanakönnun, án þess að ég sé endilega að gera mikið úr skoðanakönnunum, virtist koma í ljós að ráðherrar Framsóknarflokksins, sérstaklega þeir sem bera hvað harðast fram einkavæðingarstefnu flokksins, njóta æ minna fylgis og æ minni stuðnings, ekki bara þjóðarinnar allrar heldur (Gripið fram í.) einnig innan síns eigin flokks. Án þess að ég ætli að fara að gera það að sérstöku umtalsefni gæti það samt verið vísbending um að forustumenn Framsóknarflokksins, þeir sem leiða einkavæðingarstefnu Framsóknarflokksins, njóti ekki til þess stuðnings kjósenda.

Er skemmst að minnast þess, frú forseti, í þessu sambandi líka, til að benda ungum og vonandi vaxandi þingmönnum Framsóknarflokksins á að t.d. í einkavæðingu á öðru almannaþjónustufyrirtæki, Símanum, þar sem teknar hafa verið nokkrar skoðanakannanir síðan 2002 og sumar mjög víðtækar sem hafa sýnt að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar er andvígur einkavæðingarstefnu Framsóknarflokksins í Landssímamálinu, milli 70% og 80% af þjóðinni eru andvíg einkavæðingarstefnu Framsóknarflokksins. Nú síðast bæði í könnun Gallups og könnun Félagsvísindastofnunar, sem gerðar voru í mars virtust nærri fjórir af hverjum fjórum framsóknarmönnum vera andvígir einkavæðingarstefnu Framsóknarflokksins. (Gripið fram í.) Já, þannig að innan skekkjumarka eru það einungis forustumenn flokksins sem eru að leiða einkavæðingarstefnuna því að um 80% af þeim sem spurðir voru eru andvígir þessu. Fyrir unga þingmenn Framsóknarflokksins hlýtur þetta því að vera eitthvað til að skoða, á hvaða vegferð flokkurinn er.

Við ræðum raforkumálin. Ég held að það séu fá dæmi eins hrapallegs ferils í einkavæðingu almannaþjónustunnar og við höfum upplifað í gegnum rafmagnið. Þegar þetta var keyrt í gegn á síðasta þingi, markaðsvæðing á raforkukerfinu, var þetta dásamað. Þetta skyldi leiða til lækkunar á raforkuverði, þetta skyldi leiða til aukins afhendingaröryggis, þetta skyldi leiða til alls þess góða sem ekki hafði enn gerst. Ég minnist mjög hástemmdra yfirlýsinga frá hæstv. einkavæðingarráðherra og markaðsvæðingarráðherra og byggðamálaráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra, sem hefur það hlutverk að fara fyrir einkavæðingarvagni Framsóknarflokksins. Þá var þetta það besta af öllu sem hægt var að gera.

Nú, þegar við upplifum fyrsta smjörþefinn af því sem er að gerast í einkavæðingarfasanum, sem kom til framkvæmda um síðustu áramót, þá … (Gripið fram í.) Jú, smjörþefur getur verið ágætur en stundum getur hann líka verið súr. En um síðustu áramót þegar fyrst var að koma til framkvæmda þessi einkavæðingardraumur Framsóknarflokksins mátti sjá fyrirsagnir eins og þessa: „Raforkuverð á landsbyggðinni áhyggjuefni.“ Hér er vitnað í Þorvald Jóhannsson, framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Síðan er í grein hans rakin hækkun á rafhitun o.fl.

Hér er líka önnur grein frá þeim tíma þegar stefna Framsóknarflokksins í orkumálum var að koma til framkvæmda. Hér stendur: „Hvenær er lækkun hækkun og hvenær er hækkun lækkun.“ Hér er sjálfsagt verið að vitna í orðaskýringar hæstv. iðnaðarráðherra sem vissi aldrei nákvæmlega hvenær hún var að tala um hækkun og hvenær hún var að tala um lækkun.

Í Morgunblaðinu þann 9. janúar fjallar Kristófer Már Kristinsson um áhrif einkavæðingarstefnu Framsóknarflokksins í raforkumálum. Meira að segja einn af öflugustu forustumönnum Framsóknarflokksins, Alfreð Þorsteinsson, getur þess í viðtali að Orkuveita Reykjavíkur sjái sér skylt að fylgja kröfu um að hækka orkuverð vegna ákvarðana Framsóknarflokksins.

Ég er með fleiri greinar og yfirlýsingar hringinn í kringum landið þar sem fólk ber sig mjög illa undan þessum áhrifum og hvernig stefna Framsóknarflokksins er að koma fram. Nýverið hafði ég samband við sveitarstjórann á Skagaströnd, sem er á svæði þar sem ekki er hitaveita, og hann sagði að hækkun á raforkuverði hjá almennum notendum þar, þótt búið væri að taka tillit til lækkunar vegna endurgreiðslu vegna húshitunar, mundi vera 10%–25%. Hjá mörgum bændum, m.a. þeim sem voru með marktaxta, afltaxta sem sagt var upp og hurfu, er líka um að ræða gríðarlega mikla hækkun í mörgum tilvikum. Þetta er sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir þegar stefna Framsóknarflokksins í raforkumálum birtist í raun.

Hæstv. iðnaðarráðherra, sem hefur helst svarað fyrir þessi mál af hálfu Framsóknarflokksins af því að ráðherrann hefur verið sá sem dregið hefur einkavæðingarvagninn, hefur sagt að þetta sé tóm vitleysa og þetta sé allt misskilningur. Upptakan á markaðsvæðingunni eigi ekki að leiða til neinnar hækkunar, samkeppnin og hin nýju rekstrarform eigi að skila þessu margfalt til baka þannig að hækkanirnar séu fullkomlega ástæðulausar.

Frú forseti. Ég get rakið fleiri dæmi um hvernig hin nýja einkavæðingarstefna í orkumálum virkar. Ég hefði viljað heyra frá formanni iðnaðarnefndar sem lýsti því yfir í umræðu í vetur, þegar þessi mál voru til umræðu í lok janúar og byrjun febrúar, að hann ætlaði að taka þessi mál mjög föstum tökum í nefndinni og fara þar í gegnum hvaða forsendur væru fyrir hækkununum, sem margir voru þá að lenda í og gátu ekki fengið svör við, og ætlaði líka að fara í gegnum það hvernig við því yrði brugðist.

Ég hygg að t.d. íbúar á stöðum eins og Skagaströnd, sem ég nefndi áðan, séu orðnir býsna langeygir eftir því til hvaða ráða iðnaðarnefnd með formann sinn í broddi fylkingar ætlar að grípa til að koma í veg fyrir að rafmagn hækki á þeim stöðum sem ég m.a. nefndi vítt og breitt um landið, og skýringar á því hvers vegna rafmagnið hækkar enn. Ég held að það væri mjög mikilvægt áður en þingið fer í sumarhlé að það sé skýrt fyrir fólki, því að þeir reikningar sem hafa verið að berast hafa bæði verið illskiljanlega uppsettir og það eina sem þeir hafa sýnt og fólk tekur eftir er niðurstöðutalan á reikningunum sem sýnir gríðarlega hækkun á rafmagni þvert ofan í gefin fyrirheit. Enda var það alveg ótrúlegur málflutningur þegar því var haldið fram að rafmagnið þyrfti ekkert að hækka, t.d. þegar stofnað var til nýs milliliðar sem skýrður var Landsnet, sem góðu heilli var þó sett þannig í lög, a.m.k. fyrst um sinn, að yrði algerlega í opinberri eigu. Það var ekki ætlun hæstv. iðnaðarráðherra í upphafi. Ætlun iðnaðarráðherrans var að þetta yrði markaðsvætt fyrirtæki. Það var svo af hálfu Alþingis sem það tókst að beygja þá stefnu út í það, a.m.k. fyrst um sinn, að þetta skyldi vera fyrirtæki í opinberri eigu. Ráðherrann hélt því þó fullum fetum fram, og gerir sjálfsagt enn, að það að stofna heilt fyrirtæki, millilið í raforkumálum eins og Landsnet, leiddi ekki til neins aukins kostnaðar. Trúverðugleikinn í málflutningnum hefur því verið alveg með ólíkindum.

Ég held að við hljótum líka að krefjast þess í umræðunni, frú forseti, að gerð verði grein fyrir því áður en þing fer í sumarleyfi hvernig tekið verður á rafmagnsmálunum og þeim hækkunum sem nú dynja yfir. Ég er með viðtal í höndunum sem tekið var við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson í Bæjarins besta 25. janúar sl. sem ber yfirskriftina „Þingmenn verða að vinda sér í að leysa það vandamál sem upp er komið“. Hvers var þá verið að vísa til? Það var verið að vísa til hinna gríðarlegu rafmagnshækkana sem fólk upplifði á fyrstu mánuðum ársins eftir að hin nýja skipan raforkumála kom til framkvæmda. Í viðtalinu rekur þingmaðurinn það hvernig hann upplifir breytingarnar og segir að þetta hafi alls ekki verið eins og gert hafi verið ráð fyrir.

Ég leyfi mér að vitna í orð hv. þingmanns í Bæjarins besta 25. janúar sl., þar sem segir, með leyfi forseta:

„Eins og fram hefur komið í fréttum kynnti Orkubú Vestfjarða nýja gjaldskrá sína í síðustu viku og hækkar raforkukostnaður heimila í dreifbýli um allt að 40–50% eða um 60–70 þús. kr. á heimili. Einar segir að málið hafi verið rætt í stjórnarflokkunum undanfarna daga og það sé óhjákvæmilegt að við því vandamáli sem upp er komið verði brugðist.“

Ég get ekki séð að búið sé að bregðast við því að fullu. Rætt hefur verið um að koma að nokkru til móts við hækkanir við húshitun en þó er það fjarri miðað við það sem er.

Síðan segir áfram í þessu ágæta viðtali við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, sem hefur réttilega þungar áhyggjur af því sem er að gerast, með leyfi forseta:

„Undanfarin ár höfum við náð ágætum árangri við lækkun húshitunarkostnaðar sem m.a. hefur leitt til þess að þetta mál, sem var mál málanna á stjórnmálafundum þegar ég var að hefja minn pólitíska feril á árunum upp úr 1990, hefur varla verið til umræðu á liðnum árum. Nú gerist það hins vegar að þessum árangri er á einni nóttu stefnt upp í loft og við það verður ekki unað.“

Er það nema von að þingmanninum blöskri að baráttumál félagshyggjumanna — því að það eru félagshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum líka — undanfarna áratugi, eins og það að jafna húshitunarkostnað, gufi upp á einni nóttu með samþykkt þessara nýju raforkulaga, áratuga barátta sem hv. þingmaður rekur.

Áfram segir í viðtalinu við hv. þingmann, sem stendur flest enn óhaggað, ríkisstjórnin hefur ekki breytt svo miklu þar um:

„Það var ekkert sem gaf okkur sem stóðum utan iðnaðarnefndar tilefni til að ætla að þetta yrði niðurstaða málsins og ég veit að svo var einnig um þá er sátu í iðnaðarnefnd. Það er hins vegar svo að verið er að gera gjörbreytingar á raforkukerfinu og hverfa frá möguleikunum á því að jafna orkukostnað innan kerfisins. Afleiðingarnar eru ljósar. Því verða stjórnmálamenn að bregðast við og ég bendi á að til eru 900 millj. á fjárlögum sem ætlaðar eru til jöfnunar á raforkukostnaði til húshitunar. Dugi sú upphæð ekki verður einfaldlega að bæta við hana þannig að tryggt verði að þessi ósköp dynji ekki yfir.“

Þetta segir hv. þm. Einar K. Guðfinnsson og hefur eðlilega þungar áhyggjur af því sem þarna er að gerast.

Að mínu viti er ekki enn búið að taka á þessu máli sem formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins gerir þarna að svo alvarlegu umtalsefni. Það er ekki búið að taka á því að fullu, fjarri því, alla vega miðað við þær fréttir sem við fáum vítt og breitt af landinu.

Auðvitað hefur rafmagn í sumum tilvikum lækkað á fyrirtækjum í þéttbýli á svæði Rariks sem voru með óhóflega hátt raforkuverð. En það getur ekki verið að ætlunin hafi verið að kerfið leiddi til þess að rafmagn stórhækkaði á öðrum aðilum.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson lýkur viðtalinu þannig, með leyfi forseta:

„Það sjá allir að þetta getur ekki gengið. Við getum ekki unað því að verðhækkanir upp á kannski 45% nái fram að ganga. Það eru aðilar sem eru að fá verðlækkanir, sérstaklega atvinnufyrirtækin.“ — Eins og ég nefndi — „Það er auðvitað ávinningur sem ekki má gleyma, en það breytir því ekki að lækkun húshitunarkostnaðar er gamalt baráttumál okkar margra og við getum ekki látið ávinning af margra ára vinnu okkar í þeim efnum þurrkast út á einni nóttu út af einhverjum skipulagsbreytingum sem dúkka upp vegna Brussel-tilskipana.“

Hann vitnar til Brussel-tilskipunarinnar um að hér skuli vera tekinn upp samkeppnismarkaður á rafmagni, hér uppi á þessu eylendi, á þessari eyju, Íslandi, sem er náttúrlega fáránlegt. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs bentum á það á sínum tíma og höfum ítrekað bent á það að óvíst er að við hefðum þurft að taka upp þá Evróputilskipun ef við hefðum gáð að okkur í tíma. En stefna Framsóknarflokksins hefur verið sú að ganga hvað harðast í að framfylgja öllum tilskipunum Evrópusambandsins eins og nokkur kostur er og ganga auk þess og draga einkavæðingarvagninn eins hratt og þeir hafa getað. Er það furða þó að hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni blöskri í þessu ágæta viðtali sem var við hann í Bæjarins besta 25. janúar sl.?

Málið sem formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins varpar þarna upp er enn þá óleyst. Það er ekki enn búið að gefa þeim íbúum landsins sem fá miklu hærri rafmagnsreikninga nú en áður svör um hvernig tekið verður á málum þeirra.

Frú forseti. Þessi vandamál eru komin upp bara vegna fyrsta stigs markaðsvæðingarinnar og lýsa sér með þessum hætti sem ég hér hef rakið. Þau vandamál hafa enn ekki verið leyst, nema þá að það sé bara ætlunin sem mann uggir að fólk taki á sig þessar hækkanir, að þetta sé fórnarkostnaðurinn sem verður að taka fyrir einkavæðingu raforkugeirans sem Framsókn beitir sér svo öfluglega fyrir og til þess að greiða niður orkuverð til stóriðjunnar.

Nú er bara keyrt áfram. Nú stöndum við hér frammi fyrir lögum, breytingum á ýmsum lögum á orkusviði sem verið er að setja samhliða því að verið er að gera orkufyrirtækjum, raforkufyrirtækjum, hitaveitum, skylt að borga skatta, borga tekjuskatta af starfsemi sinni.

Ég hlustaði á viðtal í morgun — mig minnir að það hafi verið í morgun — við mann frá Samtökum iðnaðarins og hann einmitt tók undir þau orð okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að skattar á almannaþjónustufyrirtæki verða ekki endanlega greiddir nema af neytendum. Enginn annar kemur til með að greiða þessa skatta sem lagðir eru á fyrirtækin, enginn annar en neytendur. Því gefur augaleið að hér er enn verið að efna til hækkunar á orkuverði áður en menn eru einu sinni búnir að sjá fyrir endann á því sem var.

Frú forseti. Orkumálastjóri Kaliforníu heimsótti okkur árið 2003. Ég hef áður vitnað í hann. Þá var einmitt frægt að einkavædda raforkukerfið í Kaliforníu hrundi og ríkið varð að leysa það aftur til sín. Hver var ástæðan fyrir því að það hrundi? Jú, í kjölfar einkavæðingarinnar höfðu þeir sem eignuðust það mergsogið það, tekið út úr því fjármagn, höfðu ekki haldið því við. Það gekk í ákveðinn tíma. En það gat ekki gengið endalaust þannig að raforkukerfið hrundi og ríkið varð að leysa aftur til sín þetta einkavædda raforkukerfi. Í viðtali við þennan ágæta mann á Stöð 2 30. ágúst árið 2003 í upphafi einkavæðingar raforkukerfisins hér segir, með leyfi forseta:

„Orkumálastjóri Kaliforníu ræður Íslendingum eindregið frá því að einkavæða orkuiðnað sinn. Hann segir að rafmagnsleysið í Bandaríkjunum á dögunum hafi verið einkafyrirtækjum að kenna.

Hann hefur verið ráðgjafi tveggja bandaríkjaforseta í orkumálum og veitir nú forstöðu sérstakri orkunefnd sem er að bæta úr orkuskorti sem lengi hefur hrjáð Kaliforníu. Freeman hefur ákveðnar skoðanir á hvar orkumálum sé best komið. David Freeman varar Íslendinga eindregið við því að láta Evrópusambandið reka sig út í að einkavæða raforkuna eða orkumál yfirleitt. Hann segir að það sé það sem hafi valdið mestri bölvun í Bandaríkjunum.“

Svo er orðrétt vitnað til Davids Freemans orkumálastjóra í þessu viðtali, með leyfi forseta:

„Það olli okkur vandræðum að heittrúaðir boðberar frjáls markaðshagkerfis og afnáms sérleyfa komu þeirri vitlausu hugmynd inn hjá okkur að sala á raforku gæti farið fram í einkageiranum. Það gekk ekki. Það olli fólki hugarangri þegar í ljós kom að fjárfestingar í dreifikerfum raforku höfðu verið vanræktar. Við vitum öll að dreifikerfi raforku er viðkvæmt en ef rafmagnið fer þá er hægt að koma því aftur á næsta dag. Ég hef á tilfinningunni að núverandi rafkerfi Íslendinga sé mjög gott.“ — Þetta var áður en einkavæðingarferlið fór af stað hér, frú forseti — „Af hverju ættuð þið að einkavæða það? Verð á raforku er mjög hagstætt hér á landi og orkuvinnslan er mjög umhverfisvæn. Það er mér ráðgáta hvers vegna fólk vill laga það sem er ekki bilað.“

Þetta sagði David Freeman orkumálastjóri Kaliforníu í upphafi einkavæðingarferils Framsóknarflokksins á raforkukerfinu hér.

Síðan segir í viðtalinu, með leyfi forseta:

„Freeman hefur ekki sérstakar áhyggjur af því að hryðjuverkamenn ráðist á rafveitukerfið í Bandaríkjunum.“

Hann er spurður að því hvort hryðjuverkamenn geti ekki ráðist á rafveitukerfið í Bandaríkjunum og hvort mikil hætta á því sé yfirvofandi. Þá sagði David Freeman orkumálastjóri Kaliforníu, orðrétt, með leyfi forseta, í þessu viðtali:

„Hryðjuverk eru alþjóðlegt vandamál. Nýlegt rafmagnsleysi var ekki af völdum hryðjuverkamanna. Það þurfti ekki hryðjuverkamenn til að finna út hvernig ætti að loka fyrir rafmagnið til 50 milljóna manna. Við vorum einfær um það með vanrækslu og trassaskap fólks á hinum frjálsa markaði sem trúði því að markaðurinn leysi allan vanda. Stjórnvöld eiga að bera ábyrgðina á rafmagninu.“

Þannig lauk orkumálastjóri Kaliforníu viðtali sínu í ágúst árið 2003 eftir sára reynslu af einkavæðingu raforkukerfisins í Kaliforníu. Þá veltir maður eftirfarandi fyrir sér: Úr því einkavæðing raforkukerfisins í Kaliforníu gekk svona illa hvað mælir þá með einkavæðingu raforkukerfisins á Íslandi, eyríkinu Íslandi? Enda, eins og kemur fram í þessu viðtali, átti hann ekki orð yfir þær fyrirætlanir Íslendinga að einkavæða, markaðsvæða raforkukerfið hér. En því miður lét forusta Framsóknarflokksins sem stýrði einkavæðingu raforkunnar sér ekki segjast. Hún var eins og kerruklár sem er búið að setja á hlífar beggja megin við augun þannig að ekkert sést nema örlítil rás beint fram. Það var hennar vegur í markaðsvæðingu raforkukerfisins og þann kerrugang hélt hún sig við. Nú erum við að uppskera. En þetta er bara byrjunin. Við sem fylgdumst með og tókum þátt í þessari umræðu skildum að hér átti það að fylgja eftir að gera aukna arðsemiskröfu til fyrirtækjanna. Það átti að krefja þau um að setja aukna arðsemiskröfu út í verðlagið. Hún átti að fara stighækkandi, byrja lágt en síðan mátti hækka. Ég minnist þess að í umræðunni í svokallaðri nítján manna nefnd sem ég sat í fyrir hönd þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs kom fram hjá markaðshyggjumönnunum sem leiddu þessa umræðu af hálfu iðnaðarráðuneytisins og Orkustofnunar að stefna ætti að því að ná svona 12–15% arðsemiskröfu inn í raforkugeirann innan ákveðins tíma og þegar því væri náð væri hægt að fara að tala um að einkavæða og selja fyrirtækin og að þessu skyldi stefnt. En það var ekki aðeins að menn skyldu taka arðsemiskröfuna heldur átti líka að fara í hagræðinguna innan frá og hverjar voru hagræðingarhugmyndirnar? Jú, þær voru að lengja afskriftartímann á mannvirkjunum og sem þýðir að það átti að skera niður viðhaldið og ná þannig meiri peningum út úr fyrirtækjunum. Þetta átti líka markvisst að gera. Við erum bara rétt í byrjuninni. En það alvarlegasta er kannski að fyrirtækin þurftu ekki, það var ekki hægt að leggja þá kvöð á orkufyrirtækin, framleiðslufyrirtækin að sitja með eða vera með orkubirgðir, varabirgðir. Það var ekki hægt að gera það í þessum lögum þegar komið var út í svona samkeppnisumhverfi. Núna eru Landsvirkjun og orkufyrirtækin skyldug til þess að skaffa landsmönnum orku og verða þess vegna að birgja sig upp, eiga raforkubirgðir, orkubirgðir í uppistöðulónum eða á annan hátt til þess að geta mætt breytilegri stöðu í orkunotkun. En með markaðsvæðingu rafmagnsins er þessi krafa tekin af þeim. Aðeins Orkuveita Reykjavíkur hefur sett það í stefnumið sín að einn megintilgangur reksturs Orkuveitu Reykjavíkur sé að skaffa notendum sínum örugga og ódýra orku. Í stefnumörkun og skilmálum Orkuveitu Reykjavíkur er það sett að það sé meginhlutverk Orkuveitu Reykjavíkur að sjá neytendum sínum fyrir öruggri, nægri og ódýrri orku. Þetta ákvæði fékkst ekki sett í raforkulögin hvað varðaði önnur fyrirtæki. En þetta var gert hjá Orkuveita Reykjavíkur og það var ekki hvað síst fyrir tilverknað fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í orkustefnunefnd Reykjavíkur að þetta kom inn og þegar menn sáu þetta svart á hvítu þótti sjálfsagt að þetta væri sett þar inn.

Frú forseti. Ég nefni þetta vegna þess að við erum rétt að byrja á þessu ferli sem við stöndum frammi fyrir í kjölfar ákvörðunar um að markaðsvæða raforkukerfið. Nú þegar stöndum við frammi fyrir þeim vanda að raforkuverð hefur snarhækkað til stórs hóps neytenda og þeim orðum og þeirri kröfu sem m.a. hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins setti fram, og ég hef hér vitnað til, um að þingmenn verði að vinda sér í að leysa þetta vandamál sem upp er komið, er enn þá ósvarað. Ég bíð eftir því að hv. þm. Birkir J. Jónsson, formaður iðnaðarnefndar, skýri frá því hvernig á þessum málum verði tekið og hvort þetta sé það sem íbúum á Skagaströnd eða annars staðar úti á landi sem eru nú með í höndunum himinháa orkureikninga, verður gert að standa undir. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: ... missir svo marks þegar ...) Hv. þm. hefur áhyggjur af því og ég veit að hv. þingmanni líður illa undir því að hlusta á þetta enda er þetta líka þvert á stefnu Framsóknarflokksins gamla sem ég kynntist í æsku og sem byggði á félagshyggju (Gripið fram í.) og samhjálp. En nú er allt annað upp á teningnum.

Nú komum við að þessum skattamálum. Næsta skrefið er að leggja á skatta, að þessi almannaþjónusta verði að greiða skatta. Hv. þm. Birkir J. Jónsson lýsti hinni nýju stefnu, nýfrjálshyggjunni í Framsóknarflokknum, ágætlega í ræðu sinni fyrr í dag þegar hann sagði að þetta væri svo mikilvægt núna og nauðsynlegt til þess að jafna samkeppnina, þ.e. að leggja skatt á orkufyrirtækin, að láta landsmenn, almenna notendur greiða skatt af ... (Gripið fram í: Fyrirtækin ...) Fyrirtækin greiða skattinn. En eins og ég sagði áðan þá verða það neytendur sem borga hann því fyrirtækin hafa ekki aðra peninga en þá sem koma frá neytendum. Ekki held ég að það sé öðruvísi, frú forseti. Ekki spretta þessir peningar á trjánum.

Maður veltir fyrir sér samkeppnisstöðunni sem hv. þingmaður er að tala um. Þetta er jú almannaþjónusta og kostnaðurinn lendir á neytendum. Varðandi stóriðjuna, sem Framsóknarflokkurinn hefur rekið sem sitt eina og aðalbaráttumál síðustu árin, stóriðja og aftur stóriðja, þá er búið að ganga frá raforku- og orkusamningum til næstu 20, 25, 30 ára. Ekki verður verði á raforku til hennar breytt. Það fer nú að nálgast kannski 70% af raforkuframleiðslunni og jafnvel meira sem bundið er í stóriðju, sem ekki borgar þessa hækkun sem verður af skattheimtunni. Hver er það þá sem borgar? Jú, það eru einmitt bændur, íbúar á stöðum eins og Skagaströnd, íbúar vítt og breitt um landið, sem taka á sig þessa skatta. Það eru þeir sem þessi skattur er lagður á, ekki stóriðjan sem er eins og heilög kýr hjá Framsóknarflokknum.

Má ég þá spyrja, frú forseti, hvort hv. þingmaður og formaður iðnaðarnefndar hafi velt því fyrir sér hvernig er háttað fjármögnun þeirra almannaþjónustufyrirtækja sem verið er að leggja skatt á. Bíddu við, er Landsvirkjun ekki með ríkisábyrgð á öllum sínum skuldbindingum? Er ekki Rarik í eigu ríkisins og þar af leiðandi fullkomlega á ríkisábyrgð? Er ekki Orkubú Vestfjarða á ríkisábyrgð o.s.frv.? Eru ekki þær hitaveitur og orkuveitur í eigu sveitarfélaga með ábyrgð eigenda sinna? Jú, þannig er þessi staða fyrir, sem hv. þingmaður hefur áhyggjur af og kallar mismunun. Þetta eru nefnilega almannaþjónustufyrirtæki sem hafa verið byggð upp. Í rauninni ætla menn að leggja skatt á ríkisábyrgðina, ekki satt?

Hv. þingmaður hafði þungar áhyggjur af stöðu raforkubænda sem stofna til lítilla virkjana hjá sér, sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs styðjum mjög eindregið, uppbyggingu vistvænna, sjálfbærra smávirkjana. Við teljum einmitt að koma eigi til móts við þær samkeppnislega og það sé hægt að gera með öðrum hætti. Ég minni á að við beittum okkur mjög fyrir því að staða þeirra yrði jöfnuð hvað varðar innmötunargjaldið, sem sett var inn á Landsnetið, þar sem fyrir lá að gera ætti þeim nánast ómögulegt að selja inn á Landsnetið með því að krefja smávirkjanir um svo há gjöld. Ég veit ekki betur en það hafi verið þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem börðust hvað harðast fyrir því að komið yrði til móts við þá. Þeir hafa bent á að þeir séu líka að keppa við ríkisábyrgðir hjá öðrum raforkufyrirtækjum.

Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson minntist á það í ágætri ræðu sinni áðan, þar sem hann var að fjalla um þetta mál, að það hefði mátt undanþiggja þessar virkjanir einstaklinga og bænda tekjuskatti um ákveðinn tíma, mönnum væri í lófa lagið að gera það. Það þyrfti ekki að samþykkja hér lög um að gjörbreyta skattaumhverfi almannaþjónustufyrirtækja til að leiðrétta þann mun.

Maður veltir því fyrir sér í þessu samhengi, frú forseti, að það hefur komið fram að stórfyrirtæki eins og Landsvirkjun mun ekki greiða tekjuskatt á næstu árum vegna þess að hún hefur ráðist í svo óhagkvæmar virkjanir sem gætu sligað hana ef ekki kæmu til ríkisábyrgðirnar, gríðarlegur ríkisstuðningur sem skiptir milljörðum króna. Það þarf til að gera Landsvirkjun þetta kleift. Ríkið styrkir Landsvirkjun um milljarða króna. Ef það hefði ekki komið til hefði hún t.d. alls ekki getað farið í þessa fáránlegu framkvæmd, Kárahnjúkavirkjun. Upphaflega var rætt um að stofnað yrði sjálfstætt fyrirtæki um Kárahnjúkavirkjun og hún ætti þá að bera sig á eigin forsendum því að rafmagnið ætti hvort eð er fara til eins fyrirtækis. En svo þegar kom í ljós að það yrði aldrei hægt og mundi aldrei bera sig þá þurfti bæði að halda í ríkisábyrgðina, því að annars hefði hún bara verið óframkvæmanleg, og gera alla notendur í landinu ábyrga og greiða niður þá fáránlegu fjárfestingu.

Nú á til viðbótar að fara að leggja tekjuskatt á fyrirtæki sem munu á næstu árum ekki skila neinum hagnaði. En þau munu skila sínu tapi. Mig langar til að spyrja hv. formann iðnaðarnefndar, af því að ég er ekki alveg inni í því hvernig þetta reiknast út: Hvenær byrjar þetta tap að telja? Frá hvaða ári getur Landsvirkjun skráð eða farið að færa skattskylt tap? Hversu mikið er það miðað við núverandi rekstrarstöðu fyrirtækisins, hversu mikið er árlegt skattskylt tap Landsvirkjunar? Ég hefði viljað fá upplýsingar um það. Þetta skiptir gríðarlegu máli. Þessi lög, komi þau til framkvæmda, ná núna fyrst og fremst til lítilla veitna í eigu sveitarfélaga, lítilla veitna, staðbundinna veitna. Það þykir sérstök ástæða til að láta þær borga nokkur hundruð milljónir króna til ríkisins af starfsemi sinni. Skatturinn mun ekki ná til þessara stóru fyrirtækja sem fá að safna upp tapi. Og þegar einhver annar aðili … (Gripið fram í.) Já, og ekki síst þessi stóru og óhagkvæmu fyrirtæki.

Ég vil fá svar við því, frú forseti: Frá hvaða tíma verður stóru fyrirtækjunum heimilt að færa skattskylt tap og hversu mikið miðað við rekstur, t.d. Landsvirkjunar í dag, miðað við ársreikning síðasta árs? Hversu há er sú upphæð sem Landsvirkjun getur fært sem skattskylt tap og hversu lengi má safna skattskyldu tapi upp? Við þekkjum dæmi um að þegar fyrirtæki er selt þá situr kaupandinn gjarnan uppi með heilmikinn skattskyldan hagnað og getur þá nýtt tapið fyrirtækisins sér til skattfrádráttar. Þess vegna skiptir miklu máli í þessari umræðu, og kannski er verið að gera þetta vegna þess, að gefa fyrirtækjunum færi á að safna tapinu. Hraðinn sem settur er í að keyra þetta mál áfram getur ekki bara verið til þess að ná peningum af nokkrum þeirra sveitarfélaga sem hafa rekið hitaveitur og rafveitur með örlitlum hagnaði, örfáum hitaveitum sem eru þannig reknar. Það getur varla verið markmiðið. Ég leyfi mér að spyrja hv. formann iðnaðarnefndar: Er það bara markmiðið að ná í þau fyrirtæki, ná í skattana frá þeim? Miðað við stöðuna árið 2003 þá eru það Húsavík, Norðurorka, Orkuveita Reykjavíkur, Hitaveita Suðurnesja og slíkar hitaveitur sem eiga að borga. Það er verið að elta þau. Þetta skiptir miklu máli.

Hv. þingmaður minntist á að þetta væri til að jafna samkeppnisstöðuna. Hann opnaði þar sýn á áframhaldandi stefnu Framsóknarflokksins í einkavæðingarmálum. Er ekki hægt að segja það nákvæmlega sama um sjúkrahúsin? Sjúkrahúsin hafa að mati Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs verið einn af hornsteinum almannaþjónustunnar. En við vitum líka að það eru til sjálfstætt starfandi læknar, læknar sem hafa tekið sig saman um einkarekstur á ákveðnum þáttum í heilbrigðiskerfinu og hafa sjálfsagt af því hagnað. Það er þá bara eðlilegt, samkvæmt stefnu Framsóknarflokksins, að sjúkrahúsin fari að greiða tekjuskatt, verði skattskyld samkvæmt nákvæmlega sömu röksemd og hv. þingmaður beitti hér gagnvart almannaþjónustunni í raforkumálum. Ég leyfi mér því að spyrja hv. þingmann: Hvenær ætla framsóknarmenn að leggja það til? Verður það á þessu þingi eða því næsta, að sjúkrahúsin verði gerð skattskyld til þess að jafna samkeppnisstöðuna á heilbrigðissviði? Það hlýtur að vera næsta skrefið ef Framsóknarflokkurinn fylgir áfram einkavæðingarstefnu sinni.

Frú forseti. Hvorki í umræðunni né í nefndaráliti frá meiri hlutanum hafa fengist haldbærar skýringar á því hvers vegna eigi að keyra þetta fram. Við vitum af einkavæðingaráráttu Framsóknarflokksins og að þetta er til þess að fullnægja henni en allar þessar aðgerðir í raforkumálum nú á síðustu missirum hafa leitt til þess að víða hefur rafmagnið hækkað og nú á að gera hagnaðinn skattskyldan. (Gripið fram í.) Já, hv. þingmaður er órólegur yfir þessu enda á hann kannski engin rök. Ég bíð spenntur eftir því að heyra svör hv. þingmanns, formanns iðnaðarnefndar, við því sem ég hef hér spurt um.

Ég spyr hvernig og hvenær verði brugðist við þeim gríðarlegu hækkunum sem dunið hafa á stórum hópi landsmanna, hækkunum á rafmagnsverði í kjölfar markaðsvæðingar raforkukerfisins. Því hefur ekki verið svarað. Ég vil fá svör við því hvenær og hvernig verði brugðist við því. Ég sé, frú forseti, að þingmaðurinn dæsir enda býst ég við að flokkur hans hafi lítinn áhuga á því að leysa þar úr.

Síðan ítreka ég spurningar mínar, sem ég hef borið fram, um nánari skýringu á hvers vegna er verið að keyra þetta í gegn. Hvenær mega menn fara að færa rekstrartap og hversu lengi má safna upp skattskyldu rekstrartapi, hve mörg ár líða áður en það fyrnist? Hversu háar upphæðir væri hér um að ræða, t.d. hjá fyrirtækinu Landsvirkjun, miðað við rekstrarafkomu þess fyrirtækis á síðasta ári? Mér finnst þetta skipta miklu máli í því umhverfi sem hérna er verið að búa til. Er verið að búa hér til lög fyrir almannaþjónustufyrirtæki til að safna upp rekstrartapi sem hægt verður að selja öðrum fyrirtækjum sem sitja uppi með hagnað og geta sléttað hann út með rekstrartapinu á móti?

Frú forseti. Ég vík nú að fleiri atriðum í málinu sem er hér til umræðu, um breytingar á lögum varðandi skattskyldu orkufyrirtækja. Ég spyr og ítreka þá spurningu: Hvers vegna á að ráðast fyrst og fremst á örfáar veitur sveitarfélaganna? Er þetta liður í áframhaldandi einkavæðingu almannaþjónustunnar? Hvar verða mörkin dregin næst?

Ég hef áður vitnað til orkumálastjóra Kaliforníu sem varar mjög afdráttarlaust við markaðsvæðingu raforkukerfisins. Hann lýsti henni sem mesta skaðræðisvaldi sem yfir Kaliforníu hefði dunið. Ég ætla að ljúka ræðu minni með því að vitna aftur í orð Davids Freemans orkumálastjóra, það sem hann segir í viðtali við Stöð 2 30. ágúst 2003:

„Af hverju ættuð þið að einkavæða orkukerfið? Verð á raforku er mjög hagstætt hér á landi og orkuvinnslan er mjög umhverfisvæn. Það er mér ráðgáta hvers vegna fólk vill laga það sem ekki er bilað.“

Síðan vitnar hann til þess þegar rafmagnið fór af Kaliforníu og stjórnvöld þurftu að leysa til sín aftur hið markaðsvædda og einkavædda raforkukerfi. Hann segir um það, með leyfi forseta:

„Það þurfti ekki hryðjuverkamenn til að finna út hvernig ætti að loka fyrir rafmagnið til 50 milljóna manna. Við vorum einfær um það með vanrækslu og trassaskap fólks á hinum frjálsa markaði sem trúði því að markaðurinn leysti allan vanda. Stjórnvöld eiga að bera ábyrgðina á rafmagninu.“ Þetta voru lokaorð orkumálastjóra Kaliforníu sem mælti þau eftir að hafa reynt það sem hér um ræðir. En þennan veg skal forusta Framsóknarflokksins arka, þjóðinni til óheilla, frú forseti.