131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[21:32]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með þessari umræðu, sem hefur staðið síðdegis og fram undir kvöld, um skattlagningu orkufyrirtækja. Þetta frumvarp sem við ræðum nú, um breytingar á ýmsum lögum á orkusviði, er hluti af pakka sem er markaðsvæðing orkugeirans, orkufyrirtækjanna, skattlagning þeirra og svo breytingar á ýmsum lögum sem af því leiða, samanber það að orkufyrirtækin hafa verið undanþegin slíkum greiðslum. Þetta svið hefur verið undanþegið skatti og satt best taldi ég að um það ríkti algjör samstaða. Ég minnist þess varla að hafa heyrt á það minnst fyrr en nú á síðustu mánuðum eða missirum að eitthvað væri að því fyrirkomulagi að þessi almannaþjónusta væri undanþegin skattgreiðslum, þannig að menn væru ekki að skattleggja sjálfa sig ef svo má að orði komast.

Nú eru breyttir tímar. Að mörgu leyti var sérstaklega athyglisvert í umræðunni í dag að fylgjast með framlagi formanns iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, þegar hann kom í ræðum og andsvörum ákaflega glaðbeittur, brattur mundu menn segja svona á venjulegri íslensku og hnarreistur mætti jafnvel segja svo ekki sé nú sagt sperrtur. En öll þessi orð komu mér í hug þegar ég fylgdist með hv. þingmanni skeiða í ræðustólinn aftur og aftur og halda ræður eða fara í andsvör við aðra ræðumenn. Það skein af hv. þingmanni gleðin og ánægjan með það sem Framsóknarflokkurinn beitir sér fyrir í þessum efnum og það er gott. Það er gott þegar mönnum líður vel og þeir eru sáttir við það sem þeir eru að gera. Það er auðvitað til fyrirmyndar að menn komi hreint til dyranna og sýni fölskvalausar tilfinningar af því tagi sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson gerði í dag. Það er líka gott fyrir kjósendurna því að þá átta þeir sig á því hvað er á ferðinni.

Gleði Framsóknarflokksins yfir því að markaðsvæða og undirbúa að einkavæða þetta svið almannaþjónustu á Íslandi hefur satt að segja verið ákaflega athyglisverð. Við munum að hæstv. iðnaðarráðherra, frú Valgerður Sverrisdóttir, hefur aftur og aftur komið geislandi af gleði í ræðustólinn og lýst því yfir hversu mikið fagnaðarefni henni væri að beita sér fyrir þessu. Síðan vill auðvitað hv. þm. Birkir Jón Jónsson ekki vera minni spámaður. Hann fylgir foringja sínum, hæstv. iðnaðarráðherra, og er ljómandi af ánægju yfir því að leggja sitt lóð á vogarskálarnar, að leggja sína vinnu fram í þessu skyni í þessum leiðangri.

Það er hins vegar allt annað mál hvort þetta á eftir að reynast það mikið þjóðráð sem hv. þingmenn telja. Það er allt annað mál hvort þjóðin mun upplifa þetta með sama hætti og mér býður í grun að svo verði ekki. Það er allt annað mál hvort þetta standist það að vera sett undir mæliker og horft á það í ljósi reynslunnar, hvort sem hún er héðan fengin eða annars staðar frá. Ég hygg að í raun standist þetta mál ekki á einn eða neinn hátt þegar betur er að gáð, nema á þann einan að þetta þjónar markaðsnýfrjálshyggjukreddunni. Þetta er að sjálfsögðu liður í því að umbreyta samfélögunum í anda nýfrjálshyggjunnar þannig að færa til landamærin milli þess sem er hugsað og rekið á félagslegum forsendum og hins sem er í einkageiranum, fyrir fjármagnið, fjármagnseigendurna, til að hagnast á því, til að taka sér arð út úr starfseminni. Það eru þessi landamæri sem hafa verið að færast til.

Stærstu átök stjórnmálanna í heiminum í dag og undanfarin 15–25 ár hafa staðið um nákvæmlega þetta, að fjármagnsöflin, drifin áfram af stórfyrirtækjunum og áhættufjármagninu, hinu hreyfanlega gráa áhættufjármagni heimsins sem vill mikinn gróða hratt, hafa drifið þá pólitík að færa landamærin til að útvíkka þau svið sem markaðurinn hafi til að athafna sig á og taka til sín gróða af. Þetta er angi af þeim slagsmálum.

Ísland fetar með þessu í fótspor ríkja sem hafa sum hver, önnur ekki, farið inn á þessa braut á undanförnum árum. Það er komin reynsla af því hvernig það hefur tekist og hún er vægast sagt blendin. Það er mjög athyglisvert að svo sterkt er þetta trúboð, svo öflug eru þau öfl sem á bak við standa og ýta þessu áfram, að reynslan skiptir engu máli. Ef það er þannig að reynslan er slæm, t.d. af einkavæðingu raforkukerfanna bæði austan hafs og vestan, hvað segja frjálshyggjumennirnir þá? Þá er veruleikinn skakkur en kenningin er rétt. Það er bara veruleikinn sem er skakkur. Það er samt rétt að gera þetta þó að það takist illa og gefi slæma raun, þótt menn verði meira og minna rafmagnslausir og þótt afhendingaröryggið minnki. Þótt verðið hækki þá er þetta samt rétt. Það er vegna þess að það stendur ekki til að efast um kennisetninguna. Hún er heilög. Það er þá bara veruleikinn sem ekki hegðar sér rétt í samræmi við hana. Svo langt getur menn borið í þessum efnum.

Hér er í raun um klassískt svið að ræða sem gefur gott tækifæri til að hugleiða þessi efni, þ.e. framleiðsla, dreifing og sala eða afhending á raforku, til ljósa og húshitunar og almennra nota í samfélaginu, þótt við tökum bara þann þátt og látum stóriðjupakkann liggja á milli hluta í bili. Þetta eru í fyrsta lagi daglegar þarfir sem við öll megum illa án vera í nútímasamfélagi. Það stöðvast nánast allt á nútímaheimili eða í nútímafyrirtæki ef ekkert rafmagn fæst. Það er ekki þægileg staða sem kemur upp um hávetur ef rafmagnið til að halda húsinu heitu eða a.m.k. lýsa það upp kemur ekki. Hvernig er svo sambúð kaupendanna við afhendingaraðilana í þessu tilviki? Jú, hún er þannig að það liggur yfirleitt bara ein raflína inn í húsið, rétt eins og það liggur ein vatnsleiðsla og einn símaþráður. Í hvaða stöðu er þá kaupandinn gagnvart þessum eina aðila sem á lögnina inn í húsið hans, ef í harðbakkann slær og ef búið er að afhenda þetta allt saman einkaaðilum í markaðsvæddu, fullkomlega markaðsvæddu kerfi? Hann reynist ekki vera í merkilegri stöðu til að semja. Hann verður að kyngja því sem að honum er rétt og borga það sem upp er sett. Það er reynslan, að þar sem menn hafa farið offari og einkavætt veituþjónustu eða almannaþjónustu af þessu tagi hefur reynslan orðið mjög blendin og víða mjög slæm. Í fyrsta lagi má einfaldlega sjá það af þeim mælikvarða að menn neyðast yfirleitt til þess að taka á sig miklar hækkanir á verði. Þegar frá líður koma aðrir hlutir til sögunnar eins og græðgin, sem oft er fylgifiskur þessara breytinga hjá þeim sem hafa nýlega keypt til sín úr opinberri eigu veitufyrirtæki af þessu tagi. Þeim liggur svo á að ná hagnaði, ná fjárfestingu sinni til baka og rúmlega það, að þeir sjást yfirleitt ekki fyrir og stytta sér leið í sambandi við það að halda innviðunum við, að endurnýja og fjárfesta til þess að ná fullnægjandi öryggi í kerfinu.

Frægast er nú sennilega dæmið frá Skandinavíu, þegar mönnum lá svo mikið á að græða eftir að búið var að markaðsvæða raforkumarkaðinn þar, er menn gáfu sér ekki tíma til að fylla uppistöðulónin. Mönnum lá svo mikið á að selja rafmagn suður til Evrópu til að græða peninga að þeir máttu ekki vera að því að vorleysingar og sumarregnið fyllti uppistöðulónin. Þeir lögðu upp með þau hálftóm þegar kom fram á vetur. Afleiðingin varð auðvitað orkuskortur og gríðarlegar hækkanir þegar kuldaköst komu um hávetur. Þannig tvöfaldaðist, þrefaldaðist eða fjórfaldaðist allt í einu raforkuverð í Skandinavíu á lausamarkaðnum vegna orkuskorts, af því menn voru á sama tíma bundnir af samningum um að afhenda orku suður á bóginn.

Rafmagnsleysið á austurströnd Bandaríkjanna, hörmungarnar í Kaliforníu, rafmagnsleysið á Kaupmannahafnarsvæðinu, þetta þekkja menn frá nýliðnum missirum og hinar óhemjulegu verðhækkanir á Norðurlöndum. Þannig mætti áfram telja. Eru menn eitthvað að velta þessu fyrir sér hér? Hafa stjórnarliðar komið með einhver málefnaleg rök og farið yfir það hvernig menn ætluðu að reyna að læra af þessum mistökum og koma í veg fyrir að þau endurtækju sig? Nei, það er ekki einu sinni rætt. Það þarf ekki að rökstyðja þetta. Þetta er bara ,,af því bara“. Þetta bara á að gerast.

Ég verð að segja eins og er, að mér finnst þetta á köflum hafa verið einhver aumlegasti málflutningur sem ég hef lengi heyrt. Menn hafi ekki einu sinni borið það við að eiga um þetta sæmilega rökfastar og málefnalegar umræður. Hver eru rökin fyrir því að gera t.d. það sem nú á að leggja ofan á markaðsvæðinguna frá því fyrir áramótin, þ.e. að bæta því við að að skattleggja orkugeirann? Hvað er orkugeirinn hér? Hann er að uppistöðu nánast algerlega opinber fyrirtæki, fyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga. Í raun ákveður ríkið að fara að borga sjálfu sér skatt. Þar verður að vísu einhver tilfærsla frá sveitarfélögum til ríkis, að svo miklu leyti sem þessi skattur verður einhvern tímann greiddur. En það er nánast hlálegt þegar menn, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson gerði, færa það fram sem meginröksemdir fyrir þessu að það sé svo ósanngjarnt að einkaaðilar verði að borga skatt en ekki hið opinbera. Bíddu, er það eitthvert vandamál? Er ekki hægt að fara í hina áttina eins og bent hefur verið á? Jú, það hélt ég nú. Auk þess væri hægt að fara margar millileiðir í þessum efnum. Það væri t.d. hægt að hugsa sér að hafa skatta á samkeppnisþáttunum en undanskilja áfram hitt. Hér eru margar leiðir færar hér. En ríkisstjórnin velur þá einföldustu, þá hráustu, þá ódýrustu, að skella þessu öllu saman undir skatt.

Ætli það sé ekki nóg sem orðið er í raforkuverðshækkunum nú þegar út af þessu brölti og eru þó ekki öll kurl komin til grafar. Það liggur algjörlega ljóst fyrir að raforkuverðið í landinu á eftir að hækka verulega að raungildi á næstu árum vegna hækkaðrar arðsemiskröfu sem er innbyggð í kerfið. Menn eru bara komnir hálfa leið núna og þykir þó nóg um. Að vísu er farið í alls konar skógarferðir og leiðangra til þess að reyna að drepa því á dreif að rafmagnsverðið hafi hækkað með breytingunum um síðustu áramót. En ég held að almenningur verði ekki blekktur í þeim efnum, rafmagnsreikningarnir tala sínu máli. Ég hef ekki enn þá séð einn einasta reikning þar sem einhver umtalsverð lækkun er á ferðinni. Ég sá á einum stað að menn töldu sig vera að fá kannski 5% lækkun. En ég hef séð marga seðla þar sem hækkunin er fleiri tugir prósenta, og á þeim endanum sem er hvað tilfinnanlegastur, hjá t.d. þeim sem kynda upp húsnæði á köldum svæðum í landinu, gamalt fólk sem situr eftir í stórum húsum langt yfir þeim viðmiðunarmörkum sem færð hafa verið niður til þess að hafa svolítið af þessu fólki í sambandi við endurgreiðslur á raforkuverði.

Það er auðvitað undarlegt að sjá mann eins og hv. þm. Birki J. Jónsson koma hér og bera sig svona vel. Ég tala ekki um ef hann er veikur ofan í kaupið, að hann skuli hafa orku í að koma hér svona glaðbeittur og hnarreistur og vera svona ánægður með þetta allt saman. Ég hélt að það væri meira bein í nefinu á framsóknarmönnum, þá á ég við fyrrum framsóknarmenn og stuðningsmenn úti um landið, að þeir hefðu látið sína menn hafa það og látið sína menn heyra það. Mér var a.m.k. sagt að það hefðu þeir gert í Eyjafjarðarsveit, það hefðu einhverjir framsóknarmenn verið að þvælast þar, og þeir hefðu fengið að heyra að það væri ekki almenn ánægja þar á bæ með raforkureikningana sem frú Valgerður, hæstv. iðnaðarráðherra, væri að senda inn um lúgurnar þessa dagana.

En Framsókn er svona ofboðslega ánægð með þetta, hún er svona hrifin af þessu, hún er svona stolt af þessu, að taka þessa almannaþjónustu, sem svo hefur verið skilgreind alveg fram undir síðustu ár, og færa hana yfir í einkagróðaviðskiptaumhverfið, gera þetta sem sagt að bisness. Í staðinn fyrir þjónustu kemur bisness. Markmiðið verður ekki fyrst og fremst að veita þjónustuna, ekki að njóta arðsins af því að almennir notendur, almenningur og iðnaður t.d., fái þjónustuna á góðu verði, hafi aðgang að henni. Nei. Það er arðurinn til eigendanna, til fjármagnsins sem er bundið í fjárfestingunni sem nú skiptir sköpum.

Er þetta ekki flokkurinn sem sagði einhvern tíma: Fólk í fyrirrúmi? Er það ekki rétt munað. (Gripið fram í.) Já. Það þarf greinilega að fara að hugsa þetta eitthvað upp á nýtt. Er það ekki „fjármagn í fyrirrúmi“ sem ræður og væri réttnefni þegar hlutirnir eru svona hugsaðir? Að þetta sé orðinn gróðavegur þar sem fyrsta boðorð er að skila eigendunum arði. Ég hefði haldið það.

Svo er sagt að þetta sé gert til samræmis. Ég þykist hafa heyrt það rétt í dag að formaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkir J. Jónsson, talaði sérstaklega um samræmisrökin. Það væri ósanngjarnt að einkaaðilar þyrftu kannski að borga þennan skatt ef opinber orkufyrirtæki gerðu það ekki. Þannig er auðvitað hægt að feta sig áfram þessa slóð. Ef menn ákveða fyrst hvert þeir ætla að fara er enginn vandi auðvitað að búa sér til slík rök. Maður tekur eitt skref og segir svo: Heyrðu, það kallar á það næsta. Heyrðu, við ákváðum að markaðsvæða þetta og þá verðum við auðvitað líka að setja þetta undir skatt.

Við skulum velta fyrir okkur hversu langt menn ætla að fara með þá röksemdafærslu. Það er ákaflega fróðlegt að velta því fyrir sér. Er það þá þannig að á einhverju því sviði sem hefur verið skilgreint sem þjónusta og þar sem veitendurnir eru opinberir aðilar, að um leið og einhver einkarekstur hefur þar göngu sína komi samræmisrökin. Heyrðu, þetta er svo ósanngjarnt. Nú verðum við að setja þetta út yfir hina opinberu þjónustuveitendur líka.

Við getum notað þau rök til þess að segja: Heyrðu, við verðum að taka upp skatta í heilbrigðiskerfinu. Það er kominn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Það eru hér sjálfstætt starfandi sérfræðingar, það eru hérna litlar skurðstofur úti í bæ. Þetta er rekið sem einkahlutafélög. Þau eru lögaðilar og skattaðilar. Bíddu, þetta er ósanngjarnt. Landspítalinn verður að fara að borga skatt.

Hvar ætla menn að stöðva sig af? Hafa framsóknarmenn hugsað þetta alveg til enda? Eru þeir alveg vissir um að þetta sé rétta leiðin og ætla þeir að fara alla leið? Það er alveg ótrúlegt að heyra málflutning af því tagi sem ég hlustaði á í dag úr munni hv. þm. Birkis J. Jónssonar, vegna þess að þetta var hreinn, ómengaður, tær frjálshyggjuboðskapur, þetta var hrein, ómenguð, tær hægri röksemdafærsla. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður er þeirrar skoðunar í hjarta sínu, en hann hefur alla vega sótt rökin þangað, það er á hreinu. Kannski er það bara þannig að að sumu leyti. — Ég held reyndar að Framsóknarflokkurinn sé orðinn mesti markaðshyggjuflokkurinn á Íslandi, ég held það. Þá er það bara allt í fína lagi. En það er eins gott að það liggi fyrir og það er eins gott að sá flokkur komist ekki upp með neitt múður og eitthvert tal um fólk í fyrirrúmi ef hann er í raun orðinn helsti hagsmunagæsluaðili og helsti baráttumaður fyrir hreinum, ómenguðum nýfrjálshyggjumarkaði í landinu. Þannig verðum við auðvitað að lesa í hlutina þegar við sjáum að þetta er sá flokkur sem drífur núna áfram einkavæðinguna og er svona glaðbeittur og sáttur við að leggja hvert sviðið á fætur öðru undir.

Hvað er næst á dagskrá, hvað er nú í farvatninu? Það er einkavæðing fjarskiptanna í landinu, almannaþjónustu sem lýtur lögmálum náttúrulegrar einokunar, markaðsráðandi risi sem á grunnnet fjarskiptanna í landinu, Síminn. Er ekki Framsókn alveg jafnhamingjusöm og glöð yfir því að markaðsvæða þetta og setja þær aðstæður í hendur á einkaaðilum að geta skammtað sér alveg óheyrilegan gróða ef mönnum sýnist svo í ljósi þeirrar nánast einokunaraðstöðu sem Síminn auðvitað hefur og kemur til með að hafa um mörg ókomin ár, hvernig sem þróunin verður á fjarskiptamarkaði?

Það er gott að línur séu skýrar í pólitíkinni, um það erum við sammála, ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson. (Gripið fram í.) Það er gott að línur séu skýrar í pólitíkinni (Gripið fram í: Við erum sammála um miklu meira en það …) Þess vegna er fínt að Framsóknarflokkurinn hætti að villa á sér heimildir, það er fínt að Framsóknarflokkurinn komi út úr skápnum, (Gripið fram í.) það er fínt að það liggi fyrir að Framsóknarflokkurinn er orðinn mesti hægri flokkur á Íslandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það er bara þannig. (Gripið fram í.)

Fyrr í umræðunni var vitnað um það að hægri stjórnmálamaður frá Kaliforníu, það voru hér á ferð þingmenn og þar á meðal repúblikani frá Kaliforníu, var langt til vinstri miðað við Framsókn þegar kom að umræðum um einkavæðingu í orkumálum. Hann og orkumálastjóri Kaliforníu báðu Íslendinga þess lengstra orða að fara ekki út í sama fen og þeir hefðu lent í með orkumálin og gæta að sér. (Gripið fram í: Hvað með Samfylkinguna?) Samfylkingin er mjög að þroskast í þessum efnum og komast til réttrar áttar, (Gripið fram í.) það er auðheyrt þó ekki væri nema af frammíköllum sem hér eru.

Frú forseti. Ég ætla aðeins að víkja að efnisáhrifum frumvarpsins eftir því sem þau verða. Eitt sem hefur verið svolítið kostulegt í umræðunni er að hv. málsvari stjórnarflokkanna hér, sérstaklega Framsóknarflokksins, formaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkir J. Jónsson, endurtók speki, sem vissulega er rétt að kom fram í umfjöllun iðnaðarnefndar, að það væri með öllu óvíst að stóru orkufyrirtækin, sem auðvitað eru 99% af því sem við tölum um, kæmu til með að borga neina skatta næstu sjö til jafnvel tíu árin. Það er af augljósum ástæðum, ástæðum sem allir sjá. Þau fyrirtæki eru að ráðast í gríðarlegar fjárfestingar um þessar mundir, a.m.k. stóru risarnir þrír. Við vitum líka, þó að um það séu kannski eitthvað deildar meiningar, að arðsemi þeirra fjárfestinga er ákaflega tvísýn. Sérstaklega á það auðvitað við um aumingja Landsvirkjun og Kárahnjúkana.

Þá kemur upp athyglisverður flötur í málinu, sem reyndar hv. þm. Jón Bjarnason nefndi líka: Hver verða raunveruleg áhrif af lagasetningunni nú ef fyrirtækin verða hvort sem er ekki með afkomu næstu árin sem þýða ekki neinar skattgreiðslur? Verða þau kannski fyrst og fremst að safna upp tapi? Gæti það farið svo ef Landsvirkjun býr við gríðarlegt bókhaldslegt tap næstu tvö, þrjú, fjögur, fimm, sex árin — sem mér segir því miður hugur um að kunni að verða — að þá geri hún ekki annað en að safna upp gríðarlega miklu tapi? (Gripið fram í.) Hún hefur nógar afskriftir þó að afkoman væri í sæmilegu lagi. En ef það bætast við neikvæðir fjármagnsliðir í stórum stíl á næstu missirum vegna gengisbreytinga, svo ég tali ekki um, frú forseti, ef álverið lækkaði líka færi að harðna á dalnum.

En þó að ekkert gerist nema líklegar gengisbreytingar er alveg ljóst að útkoman getur orðið gríðarlegt bókhaldslegt tap hjá Landsvirkjun. Verða þá kannski áhrifin af þessu fyrst og fremst þau að mynda innstæður til frádráttar frá mögulegum skattgreiðslum í framtíðinni hjá þessum fyrirtækjum, þegar eða ef afkoma þeirra batnar síðan og þau fara að skila hagnaði? Hverjir eru þá að taka byrðarnar á sig? Það eru skattgreiðendur, því að tímasetningin skiptir auðvitað máli hér. Ef það er alveg fyrirsjáanlegt að fram undan er langt taptímabil hjá stóru orkufyrirtækjunum vegna afskrifta, ég tala ekki um ef við bætist óhagstæð þróun ytri skilyrða eins og þeirra að fjármagnsliðir verði neikvæðir á næstu árum, þá myndast innstæður sem skattgreiðendur í landinu fá á sínar herðar, því að þá skila sér ekki til samneyslunnar þær skattgreiðslur af fyrirtækjunum sem ella hefðu átt að gera þegar þau fara að hafa afkomu.

Er kannski tilgangurinn sá? Getur verið að einhverjir séu jafnvel að hugsa um að Landsvirkjun verði söluvara, hún verði fremur solvent og söluvara árið 2010, ef hún á þá uppsafnaða 15 milljarða eða eitthvað, segjum x, í frádráttarbært tap frá skattgreiðslum? Nú man ég ekki nákvæmlega hvernig fyrningarreglurnar á þessu eru í augnablikinu í lögum um tekju- og eignarskatt, en það er fljótlegt að fletta því upp. Þær hafa verið rýmkaðar á undanförnum árum, a.m.k. hvað tímamörk og því um líkt varðar, þó að skilyrðin hafi verið þrengd sem upphaflega giltu um að menn máttu valsa um með uppsafnað tap á milli fyrirtækja óháð því í hvaða atvinnurekstri þau voru. Tekið var á því smátt og smátt og frægast var auðvitað þegar tekið var á því rétt eftir að framsóknarmenn seldu tap Tímans yfir í annað fyrirtæki rétt fyrir áramótin áður en þetta breyttist. Það væri fróðlegt fyrir hv. þm. Birki J. Jónsson að kynna sér þá sögu til dæmis, af því að hann er svo ánægður með flokkinn sinn og telur hann alltaf hafa hreinan skjöld.

Verði áhrifin einhver verða þau auðvitað í þá átt að tilfærsla verður á tekjum frá sveitarfélögum til ríkis vegna eignasamsetningar fyrirtækjanna og hún er ekki líkleg til að breytast í verulegum mæli á allra næstu árum, það er bara veruleikinn. Það er ósköp einfaldlega þannig að fæst fyrirtækjanna eru þannig stödd að það væri engin minnsta glóra í því að reyna að fara að breyta eignasamsetningu þeirra eða selja þau. Auðvitað getur ríkið verslað við sveitarfélögin um hlut þeirra í Landsvirkjun ef svo bæri undir, en ég hef enga trú á því að Landsvirkjun verði t.d. einkavædd næstu sjö til tíu árin eins og búið er að búa í haginn í því fyrirtæki nú um stundir.

Það langalvarlegasta í sambandi við skattlagninguna og gerir það að verkum að ég hef þurft að klípa mig í handlegginn til að taka þetta alvarlega er auðvitað sú staða sem blasir við hverjum heilvita manni, að einu greiðendurnir, einu þolendurnir í þessu tilviki sem geta orðið eru hinir almennu viðskiptavinir raforkufyrirtækjanna, þ.e. almenni markaðurinn sem stefnir í að verða ekki nema um 20% mælt í orkukaupum í fyrirsjáanlegri framtíð, jafnvel minna. Þetta liggur náttúrlega í því að fyrirtækin eru búin að gera samninga um orkusölu til stóriðju á frægum útsöluverðum, það er hlegið að því úti um alla Evrópu. Norðmenn ætla ekki að ná sér niður þegar þeir heyra hvert verðið til stóriðju á Íslandi er í dag. Það er rétt um þriðjungur af verðinu í Noregi og þar liggur verðið fyrir. Það dytti náttúrlega engum manni í hug á norska Stórþinginu að láta bjóða sér að þau spil væru ekki uppi á borðum. Það er vitað að viðmiðunarverð í slíkum samningum í Noregi í dag og endurnýjun slíkra samninga er yfir 30 aurar norskir á kwst. Það dettur engum minna í hug. Við erum því að tala um u.þ.b. þriðjunginn af því sem viðgengst í Evrópu og innan við helming af því sem er í Bandaríkjunum í þessum verðum. Og þetta er fast, þessu verður ekki hnikað næstu 15, 20, 25 árin, alveg upp undir 30 ár held ég að lengsti samningurinn sem sé í gildi sé núna. Kannski eru í honum endurskoðunarákvæði eftir eitthvað styttri tíma, en ramminn er sem sagt sá að búið er að semja 25 og allt upp í 40 ár fram í tímann um útsöluprísana miðað við heimsmarkaðsverð á áli og það eru engar skattgreiðslur reiknaðar inn í það dæmi, engar. Glænýir samningar á Hellisheiðinni og í Svartsengi taka ekki mið af og reikna ekki með neinum skattgreiðslum.

Hver er þá niðurstaðan? Að svo miklu leyti sem skattana kemur til með að þurfa að greiða á komandi árum lendir það á herðum almenna notendamarkaðarins af því að stóriðjan er undanskilin. Þetta er bara veruleikinn, þeim staðreyndum verður ekki hnikað. Ég bið hv. þm. Birki J. Jónsson að koma og reyna það. Veri hann velkominn. Nei, ætli það megi ekki taka mark á t.d. umsögnum Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja en bæði fyrirtækin hamra sérstaklega á þessu.

Orkuveita Reykjavíkur segir, með leyfi forseta:

„Orkuveita Reykjavíkur er með samninga um orkusölu til stóriðju sem gilda í 20 ár. Samningar þessir hafa verið gerðir fyrir hvatningu ríkisins og engir fyrirvarar af þess hálfu um að gera þurfi ráð fyrir skattlagningu til framtíðar.“

Ríkið er að hvetja fyrirtækin til að fara út í þessi viðskipti og setur enga fyrirvara af sinni hálfu um að fyrirtækin megi búast við breyttu umhverfi. Svo koma menn bara og segja: Ja, samræmisins vegna þarf að setja þetta undir skatt. Það eru rökin, dugar. Það á reyndar að ganga býsna langt í þessum efnum eins og kunnugt er því að það á að leggja skattskylduna á orkufyrirtæki í víðri merkingu, þ.e. þetta á að taka bæði til afhendingar á raforku og heitu vatni.

Það er hlálegt að skoða þetta í samhengi. Ég heyrði hæstv. forsætisráðherra í sjónvarpsfréttum þar sem haft var eftir honum á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins í dag. Þar var forsætisráðherra að tala um eftirlegukindur í skattamálum eins og stimpilgjald. Missti hv. þm. Birkir J. Jónsson af leiðtoga sínum í dag þar sem hann var að tala um eftirlegukindurnar í skattkerfinu sem ætti eftir að hreinsa út, eins og stimpilgjald? Hvað segir í athugasemdum við frumvarpið sem hv. þingmaður er svona ánægður með?

Þar segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu felst að undanþága framangreindra fyrirtækja frá greiðslu opinberra gjalda til ríkis og sveitarfélaga fellur niður, þ.m.t. greiðsla stimpilgjalds.“

Auðvitað verður að hafa það með. Auðvitað eiga orkufyrirtækin að fara að greiða stimpilgjaldið, skárra væri það, nema hvað? Stimpilgjaldið, þennan fína skatt sem hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson var að tala um í dag. Ekki er því alltaf mikið samræmi í hlutunum, satt best að segja.

Það er tiltölulega auðvelt að sýna fram á þetta, að því miður eru vegna þeirra innbyggðu skekkja — ég vil kalla það meinsemda — sem eru í orkubúskap okkar Íslendinga, sem væri tilefni til að fara í rækilegar rannsóknir á, eru auðvitað alveg háskalegar veilur innbyggðar í kerfið. Hætturnar sem uppbyggingunni eru samfara, eins og því miður var lagt upp með þetta og menn hafa haldið áfram, eru alltaf að aukast vegna þess að þetta er í einum potti. Það á jafnvel að reyna að súrra þetta enn rækilegar saman og koma þessu enn rækilegar á herðar almennings með áformunum sem nú eru fram undan um að sameina Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða í Landsvirkjun. Það er náttúrlega rosalegasta smiðshöggið sem Framsókn ætlar að reka á málið.

Hvað er þar á ferðum? Jú, það er það á ferðum að það á að krækja sér í eigið fé Rariks og Orkubús Vestfjarða og aðganginn að almenna markaðnum sem á bak við fyrirtækin liggur til þess að draga það inn í púllíuna, til þess að hafa það undir líka til að bera herkostnaðinn af lágu verðunum til stóriðjunnar. Þá fyrst er þetta orðið almennilega fullkomnað þegar hægt er að leggja notendamarkaðinn allan eins og hann leggur sig undir í þessu samhengi. Þá verður almenningur fyrst kominn rækilega með þetta á herðarnar og þar með taldir Vestfirðingar, sem nutu þess fram undir síðustu missiri að vera með um 10% lægra raforkuverð en önnur svæði landsins eða Rarik-svæðin, vegna þess að þeir voru nokkuð sjálfstæðir í þessum málum. Þeir þurftu ekki að niðurgreiða ofan í aðra aðila. Og ekki stærri markaður en Vestfirðir með þeim rekstrarkostnaði sem því hlýtur að vera samfara að dreifa orku á slíku svæði og ekki nema með um 40–50% eigin framleiðslu voru samt að ná þessum árangri. Það segir sína sögu.

Fyrirtækið er prýðilega rekið og hefði í fyllingu tímans skilað eigendum sínum vaxandi arði ef menn hefðu ekki verið þeir aumingjar að láta taka það upp í skuldir sveitarfélaganna til að halda þeim á floti og fleyta þeim áfram nokkur ár í viðbót, illa stöddum sveitarfélögum á Vestfjörðum vegna vanda sem spratt af allt öðrum ástæðum, vegna byrða út af félagslegu húsnæði og öðru slíku. Yfirgengileg ráðstöfun. Hvers eiga raforkunotendur á Vestfjörðum að gjalda að þurfa nú að fá á sínar herðar byrðarnar af þessu líka? Hækkanirnar vegna markaðsvæðingar, hækkanir á komandi árum vegna hærri arðsemiskröfu og hækkanir ofan á allt saman vegna þess að nú á að fara að skattleggja orkugeirann. Það er ljóta útreiðin og þetta verður fullkomnað ef Framsókn fær vilja sínum framgengt þegar sameining fyrirtækjanna Landsvirkjunar, Rariks og Orkubús Vestfjarða verður að veruleika. Ég vil enn þá fá að segja „ef“, frú forseti. Ég á eftir að sjá kappana, þingmenn Norðvesturkjördæmis leggjast svo endanlega flata og biðjast afsökunar á tilveru sinni, þá sem tilheyra stjórnarliðinu, að þeir láti það í viðbót við allt annað yfir sig ganga.

Frú forseti. Það fyrirtæki sem mestu máli skiptir í þessu er fyrirtækið Landsvirkjun. Ég er með alveg glænýja ársskýrslu þess fyrirtækis í höndunum, ákaflega fallegt rit. Ég verð að vísu að játa að það er með talsvert öðrum blæ en undanfarin ár vegna þess að a.m.k. síðasta ár og ég held ein tvö, þrjú síðustu ár hefur ársskýrsla Landsvirkjunar verið eins og kynningarrit frá Þjóðminjasafninu. Þá var Landsvirkjun svo mikið í mun að sýna gæsku sína, gjafmildi og velvilja í garð menningar og mannlífs í landinu, þar á meðal stuðning sinn við Þjóðminjasafnið, að þetta var miklu líkara einhverju kynningarrit frá Þjóðminjasafninu en ársreikningi frá Landsvirkjun. Nú er þetta hins vegar skreytt ákaflega fallegum og skemmtilegum vatnslitateikningum sem gefa þessu glaðvært yfirbragð og það er vel.

Það er ástæða til að staldra aðeins við og velta vöngum yfir stöðu þessa risafyrirtækis okkar í orkumálum ef við erum að spá í það hvaða horfur eru í þessum efnum hvað varðar afkomu á komandi árum og hvaða áhrif þetta er líklegt til að hafa. Ekki er gögn um það að sækja í frumvarpið eða fylgiskjöl með því eða nefndarálit meiri hlutans. Nei, frú forseti, því er ekki að heilsa.

Þvert á mótir segir í umsögn Fjárlaga- og hagsýslustofnunar um málið, með leyfi forseta:

„Frumvarpið snýr að tekjuhlið ríkissjóðs en afar erfitt er að áætla hvaða tekjum þessi skattlagning muni skila.“ — Þetta er nokkuð vel að orði komist — „Reikningsskil orkufyrirtækja hafa á ýmsan hátt verið á annan veg en tíðkast í skattskilum almennra fyrirtækja, sérstaklega varðandi eignamat og fyrningar. Samræmd gögn um skattalegt uppgjör fyrir orkufyrirtækin liggja því ekki fyrir. Auk þess gerir frumvarpið ráð fyrir að fram fari skattalegt endurmat á mannvirkjum og öðrum eignum sem mun hafa veruleg áhrif á skattalega niðurstöðu þessara fyrirtækja. “

Þó segir:

„Varla er hægt að reikna með verulegum tekjuskatti frá fyrirtækjum í þessum geira í næstu framtíð ef tekið er mið af afkomu þeirra um langt árabil. Skuldsett orkufyrirtæki sem leggja í mikinn tilkostnað við fjárfestingar á komandi árum samhliða hægfara vexti í tekjustreymi munu væntanlega ekki greiða tekjuskatt um hríð heldur mynda yfirfæranlegt rekstrartap.“

Ja-há. Það er þá sem sagt rétt. Spáin er í raun upp á það að einu áhrifin af þessu þegar kemur að stóru aðilunum fyrst um sinn verði að mynda yfirfæranlegt rekstrartap. Eru þá refirnir skornir til þess? Er þetta kannski þegar allt kemur til alls ekki búhnykkur fyrir ríkissjóð? Er þetta björgunarleiðangur, er það kannski veruleikinn? Það er kannski þörf á. Hvernig ætli málin standi hjá Landsvirkjun með fjárfestingarnar við Kárahnjúka? Hvað ætli milljarðarnir séu margir sem hafa bæst við vegna þeirra aðstæðna sem þar hafa komið upp, vegna þess hversu hroðvirknislega menn stóðu að undirbúningi og hönnun mannvirkja, vegna þess að menn gerðu ekkert með aðvaranir og varnaðarorð um jarðfræðilegar aðstæður í stíflubotninum og fleira í þeim dúr? Víst er að þar eru milljarðar á ferðum.

Það er reyndar fleira, frú forseti, sem gefur manni tilefni til þess að staldra við og velta fyrir sér stöðu fyrirtækisins. Það er skaði að hæstv. iðnaðarráðherra, frú Valgerður Sverrisdóttir, eða hæstv. fjármálaráðherra, sem mætti gjarnan vera við umræðuna, séu ekki einhvers staðar nærri. Ég velti því fyrir mér: Hafa hæstv. ráðherrar rýnt í ársreikninga Landsvirkjunar? Hafa þingmenn gert það? Hafa menn lesið það sem þar kemur fram ef menn vanda sig og reyna að skilja það sem þar er verið að segja? Jú, jú, það er myndarlegur bókhaldslegur hagnaður á árinu, hann er drjúgur, upp á 7 milljarða. En hvað gerist þegar rekstrarhliðin er skoðuð? Handbært fé frá rekstri minnkar um milljarð milli ára. Það er á niðurleið. Bíddu, það geta varla verið góðar fréttir. Það er skammgóður vermir að skila jákvæðum fjármagnsliðum þegar hinar eiginlegu mælieiningar sem segja til um hvað er að koma út úr rekstrinum eru allar í hina áttina. Hvernig verður útkoman miðað við þetta ef fjármagnsliðirnir snúast við? Það er það sem ræður fyrst og fremst hinni bókhaldslegu niðurstöðu hjá fyrirtækinu eins og við sjáum á því að þó að rekstrarhagnaður sé svipaður milli ára hjá samstæðunni 2004 og 2003 upp á 3,5 milljarða er hagnaðurinn eitt árið 1,5 milljarðar en á áttunda milljarð hið næsta, af því að fjármagnsliðir stökkva upp úr 1,2 milljörðum upp í 6,7 milljarða.

En það eru aðrir og enn alvarlegri hlutir, frú forseti, sem ég staldra við þegar ég fletti þessum ársreikningum og ég fer að spyrja mig að því: Bíddu, er eitthvað mikið að, er eitthvað verulega mikið að í þessu fyrirtæki? Hafa menn skoðað bls. 19 í ársreikningum Landsvirkjunar? Hafa menn skoðað það sem þar er sagt um útkomuna á afleiðusamningum fyrirtækisins? Það er ástæða til að gera það. Þetta eru opinber gögn sem liggja fyrir á prenti þannig að það er ekki úr vegi að ræða það í þessu samhengi.

Ég verð að segja alveg eins og er að maður er steini lostinn, trúir varla sínum eigin augum þegar maður les þetta. Þar er nú rætt um að Landsvirkjun, eins og önnur móðins og flott fyrirtæki, geri afleiðusamninga. Það er mikil íþrótt, sérstaklega hjá nýlega útskrifuðum viðskiptafræðingum, svokölluð áhættustýring og afleiðusamningar. Þessir afleiðusamningar eru gerðir vegna þeirra áhættuþátta í rekstri Landsvirkjunar sem eru fyrirferðarmestir. Hverjir eru þeir? Þeir eru vaxtakostnaður eða vaxtabreytingar, það eru gengisbreytingar eða gengisáhætta og það eru breytingar á álverði.

Það kemur í ljós að Landsvirkjun er með afleiðusamninga, er með áhættustýringu og reynir að verja sig, eða þannig er það a.m.k. fram sett á yfirborðinu, gagnvart öllum þessum áhættuþáttum, og það sem reyndar meira er, það er ekki bara í því skyni að draga úr áhættunni sem þessar aðferðir eru notaðar. Það er sem sagt unnið með afleiður hjá fyrirtækinu Landsvirkjun, annars vegar vegna áhættustýringarinnar, þetta sem ég fór yfir áðan, og hins vegar í svokölluðum markaðsviðskiptum sem stunduð eru í hagnaðarskyni, segir hér á bls. 29 í útskýringum við tölulið 17 í ársreikningum Landsvirkjunar.

Hvað er verið að segja þarna? Landsvirkjun er farin að stunda hrein markaðsviðskipti, brask, til þess að reyna að græða á þeim, til hliðar við rekstur fyrirtækisins, til hliðar við það að reyna að verja sig vegna eigin áhættuþátta fyrir áföllum. Það er ekki hægt að lesa annað út úr þessu. Ég spyr: Hvar stendur það í lögum um þetta opinbera fyrirtæki að það eigi að stunda slíka starfsemi? Eru þeir farnir að keppa við fjárfestingarsjóði eða aðra slíka sem eru að leika sér í þessum efnum? Það má spyrja að því. Og hver er þá útkoman?

Það kemur í ljós að þessir samningar sem fyrirtækið hefur gert og er þó dálítið erfitt að lesa saman annars vegar skýringarnar í ársreikningnum sjálfum og hins vegar í einstökum töluliðum, að neikvætt gangvirði þessara afleiðusamninga er í fyrsta lagi neikvætt upp á 2,5 milljarða kr. í árslok 2004 hvað varðar sölutekjur fyrirtækisins. Það þýðir væntanlega á mannamáli að afleiðusamningarnir sem áttu að verja fyrirtækið fyrir miklum sveiflum í álverði hafa kostað fyrirtækið 2,5 milljarða í tekjutapi. Landsvirkjun hefði fengið 2,5 milljörðum meira í tekjur ef þessir samningar hefðu ekki verið fyrir hendi, ef þeim hefði bara verið sleppt. Þannig les ég út úr þessu. En það er ekki bara að menn hafi tapað á þessu því að gangvirði annarra afleiðusamninga í árslok 2004 er líka neikvætt um 340 millj. kr. og þar af námu vaxtaskiptasamningarnir 295 millj. kr. í tap og gjaldmiðlaskiptasamningar og framvirkir samningar um kaup og sölu á gjaldeyri voru neikvæðir um 45 milljónir. Ef maður tekur þessar tölur saman hefur Landsvirkjun tapað þarna 2.840 milljónum, eins og þetta stendur í árslok 2004, á þessum æfingum. Það munar um minna. Það eru engir smáaurar. Einhvern tíma verður það að borgast með einum eða öðrum hætti. Það lendir á einhverjum að lokum.

Þegar farið er í útskýringar við einstaka töluliði hér aftar segir um afleiðuviðskipti að hagnaður eða tap af afleiðusamningnum sé fært í rekstrarreikning. Afleiðusamningar sem notaðir eru til að verja framtíðarviðskipti eru færðir í ársreikninginn á sama tímabili og viðskiptin sem varin eru. Síðan að yfirlit um þessa opnu afleiðusamninga og gangvirði þeirra sé að finna í skýringum nr. 17.

Förum þá í skýringar nr. 17 undir liðnum áhættustýring. Þar kemur fram að Landsvirkjun er að baksa með þetta hvort tveggja, áhættustýringu vegna viðskipta sinna og hins vegar svokölluð markaðsviðskipti. Útkoman er sem sagt sú, þegar þetta er allt saman skoðað, og vitna ég þá beint í útskýringarnar í tölulið 17 á bls. 29 og 30, að í fyrsta lagi segir hér um gjaldmiðlaskiptasamninga að þeir hafi verið gerðir vegna langtímaskulda og sé gangvirðið neikvætt um 287 millj. kr. en bókfærð hrein skuld vegna sömu samninga 278 milljónir. Það munar ekki miklu hvor talan er tekin.

Í öðru lagi segir að vaxtaskiptasamningar hafi verið gerðir og að þeir séu einkum hugsaðir til þess að hverfa frá breytilegum vöxtum í fasta vexti. Hvernig er útkoman þar? Gangvirði þessara samninga er neikvætt um 295 millj. kr. í lok ársins 2004.

Síðan hafa verið gerðir framvirkir samningar um kaup og sölu á gjaldeyri og þar er gangvirðið neikvætt um 36 millj. kr. Og loks, samningar um álverð til þess að verja sölutekjur hafa verið gerðir og er óinnleyst gangvirði þeirra neikvætt um 2.500 millj. kr., 40 milljónir bandaríkjadala í árslok 2004.

Ef maður leggur þessar tölur saman, sem ég skal að vísu taka fram að ég veit ekki hvort er heimilt að gera eins og þær eru settar upp hér samkvæmt orðanna hljóðan í þessum útskýringum en það er erfitt að ráða annað, þá er þessi tala ekki 2.840 milljónir heldur 3.118 milljónir sem þetta stendur neikvætt nú um áramótin í bókhaldi Landsvirkjunar.

Þá fer maður að velta fyrir sér hvað sé á ferðinni. Hverjir báru ábyrgð á þessum gerningum? Hvað er verið að gera inni í þessu fyrirtæki? Ég fer að velta því fyrir mér oftar og oftar eftir því sem fleira og fleira af þessu tagi kemur fram, hvort sem það varðar frammistöðu Landsvirkjunar og sérfræðinga hennar varðandi undirbúning og hönnun mannvirkjanna við Kárahnjúka eða þessar æfingar sem birtast okkur úr rekstri fyrirtækisins í ársreikningunum. Er eitthvað mikið að á þessum bæ? Er eitthvað mjög mikið að?

Nú minnist ég þess ekki að hafa heyrt einhverja stjórnendur, hvorki háttsetta né millisetta stjórnendur, láta af störfum þarna vegna axarskafta eða reginmistaka í starfi. Maður hefði nú látið það hvarfla að sér að einhver hefði orðið að axla svolitla ábyrgð ef útkoman er virkilega sú að upphæð einhvers staðar á stærðargráðunni 2,85 til 3,1 milljarður kr. hefði tapast í þessum æfingum, og algjörlega sýnd veiði en ekki gefin að nokkuð af því náist til baka. Það er auðvitað hægt að hugsa sér það að einhvern tíma skili samningarnir einhverju til baka þegar þróunin snýst við sem þeir áttu að glíma við, en það er lítið í hendi með það. Tímasetning og innihald þessara samninga hefur greinilega ekki verið mjög heppilegt í ljósi þess hvernig þróunin hefur verið.

Það er eins og mig minni að fyrirtækið Landsvirkjun hafi stundum fyrr verið seinheppið í æfingum sínum af þessu tagi. Einhvern tíma man ég eftir því að það kom alveg árabil þar sem Landsvirkjun tókst einhvern veginn alltaf að færa langtímaskuldir sínar á milli gjaldmiðla þannig að hún tapaði á þeim, veðjaði stanslaust á rangan hest í þeim efnum. Gott ef stjórnarformaðurinn var þó ekki jafnframt bankastjóri Seðlabankans á þeim árum. Það var rokkað á milli dollara og punda og svissneskra franka og japanskra jena og það var einhvern veginn eins og mönnum tækist alltaf að tapa á þróuninni. Það er mikið lánleysi ef þetta ætlar að fylgja fyrirtækinu um aldur og ævi og ad infinitum. (Gripið fram í.) Nei, við skulum svo sannarlega vona ekki því það er mikið í húfi, vegna þess að á bak við þetta eru engir nema raforkunotendurnir og skattgreiðendurnir í landinu. Þetta er nefnilega ekki þannig að stjórnendur Landsvirkjunar eða hæstv. iðnaðarráðherra séu að hætta sínu eigin fé í þessu dæmi. Þetta eru fjármunirnir okkar. Það er þjóðin sem skattgreiðendur og það er þjóðin sem eigendur að fyrirtækinu, allur almenningur og íbúar Reykjavíkurborgar og Akureyrar sérstaklega, og það er þjóðin sem raforkunotendur sem eru með alla áhættuna á sínum herðum. Þess vegna kemur það okkur öllum við hvernig þarna er staðið að máli. Það eru sömu aðilar sem verða þolendur gagnvart þeim breytingum sem hér er verið að innleiða.

Frú forseti. Ég sá ástæðu til að fara aðeins yfir þessa hluti og það væri auðvitað ástæða til að gera það betur. Það væri full ástæða til að skoða t.d. stöðu hinna stóru orkufyrirtækjanna með sambærilegum hætti og reyna að velta fyrir sér framtíð þeirra, a.m.k. hljótum við að láta það eftir okkur að fara ofan í saumana á því sem beinlínis er ríkisins í þessum efnum. Ríkið ætti náttúrlega að reyna að átta sig á hvaða gagn það er að gera sér með breytingum af þessu tagi áður en lengra er haldið og hvaða skynsemi og vit og glóra er í því að setja þessa skattskyldu inn einmitt núna, hvaða þörf er á því, hvaða skynsemi er í því og hvaða áhrif og afleiðingar hefur það. Þessu er öllu ósvarað.

Þó er það þannig ef maður leggst í að rýna í hlutina að þá byrjar að skýrast ákveðin mynd. Ég held að sú mynd sé að fyrst og fremst er líklegt að þetta komi til með að skapa fyrirtækjunum, og þá sérstaklega Landsvirkjun, möguleika til þess á tapárunum sem fram undan eru að byrja að safna saman því tapi og eiga það upp í mögulegar skattgreiðslur eða sem gulrót ef kæmi til einkavæðingar fyrirtækisins eftir fimm til tíu ár. Auðvitað er það atriði sem væntanlegir kaupendur kíkja á, hvort fyrirtækið á uppsafnað og geymt, gríðarlegt skattalegt frádráttarbært tap þannig að það geti orðið með myljandi gróða í nokkur ár án þess að borga þurfi af því eina einustu krónu í ríkissjóð. Það er að sjálfsögðu hlutur sem skiptir máli.

Þessar aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar njóta takmarkaðrar hylli meðal þjóðarinnar, það hefur margkomið fram. Hæstv. ríkisstjórn er hér, eins og í reyndar mörgum fleiri tilvikum á undanförnum missirum, í raun og veru að keyra sína leið. Það hefur einhvern veginn smátt og smátt þróast þannig að forkólfarnir í ríkisstjórninni eru alveg hættir að hafa af því miklar áhyggjur hvort þeir séu að ganga gegn þjóðarviljanum. Það er aukaatriði að því er virðist í þeirra máli. Maður veit ekki hvort það er vegna þess að þeir reikna ekki með að verða mjög mikið lengur í embætti og það muni ekki koma að miklum skuldadögum hjá þeim en það gerir það væntanlega hjá flokkum þeirra. Það er margt sem bendir til þess að þeir reikningar verði býsna þungir þegar þar að kemur. Skoðanakannanir sýna a.m.k. ekki neina bullandi, myljandi ánægju með frammistöðu framsóknarráðherranna um þessar mundir.

Hvernig var þetta með Íraksstríðið? Voru ekki 80–85% þjóðarinnar, endurtekið í skoðanakönnunum, algjörlega andvíg stefnu ríkisstjórnarinnar eða formanna stjórnarflokkanna? Jú, mig minnir það. Hvernig er þetta með Símann? Hafa skoðanakannanir ekki endurtekið sýnt að 60–70% þjóðarinnar eru andvíg einkavæðingunni á þeim forsendum sem ríkisstjórnin leggur upp með hana? Hvernig var það í fjölmiðlamálinu? 80% þjóðarinnar voru á móti ríkisstjórninni þar eða a.m.k. 70% Og hvernig ætli það sé í þessum málum? Ætli sé almenn ánægja og hrifning með einkavæðingarbröltið sem hefur leitt til stórhækkunar á raforkuverði og nú á að bæta skattlagningu ofan á það? Nei, ég mundi giska á að það væri svipað, að það væru kannski 20% þjóðarinnar sem bara af trúarástæðum fylgdu stjórnarherrunum í þessu. Ég þori að veðja miklu, að það er a.m.k. örugglega meiri hluti þjóðarinnar andvígur þessu. Það finnur maður hvar sem maður fer að menn eru búnir að fá meira en nóg af þessu.

Framganga ríkisstjórnarinnar og hrokinn í þessum efnum er aldeilis með hreinum ólíkindum. Svo þegar þessi mál eru rædd og menn standa frammi fyrir óvinsældum gerða sinna þá er það allt misskilningur, þá hefur þjóðin ævinlega misskilið það. Hún hefur misskilið þetta svona hrottalega. Nei, það er samt Framsókn sem hefur rétt fyrir sér. Allt hitt er misskilningur.

Þetta er eins þegar hæstv. iðnaðarráðherra er spurður út í vatnalögin og hina hörðu andstöðu, ekki bara okkar í stjórnarandstöðunni heldur flestallra umsagnaraðila um málið. Hvað segir hæstv. iðnaðarráðherra? Misskilningur. Allir hafa misskilið málið. Stjórnarandstaðan, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun, Bændasamtökin, veiðiréttarhafar o.s.frv. Allir saman misskilið þetta. Eini aðilinn sem hefur skilið þetta rétt er Framsókn. Þetta er alltaf svona. Þannig eru rökin og málflutningurinn.

Þetta er örugglega allt saman allsherjarmisskilningur með skattlagningu orkufyrirtækjanna, er það ekki? Hv. þm. Birkir Jón Jónsson var í fullu fjöri í dag við að útmála hve stórkostlegt þetta væri og þeir sem ekki styddu málið væru á móti atvinnulífinu. Það kom í dag, var það ekki, að þetta væri mikil blessun fyrir atvinnulífið? Það er náttúrlega gamalkunnugur frasi hjá Framsókn að ef menn styðji ekki hvaðeina sem þeir vilja og hve umdeilt sem það er þá séu hinir sömu á móti framförum. Til dæmis eru allir þeir sem ekki skrifa upp á kvótakerfi Framsóknarflokksins í sjávarútvegi vondir menn. Þeir eru á móti sjávarútveginum og á móti landsbyggðinni. Þannig setur Framsókn þetta upp. Ef þjóðin er eitthvað að nöldra þá hefur hún misskilið þetta.

Ég ætla að vona að þjóðin haldi áfram að misskilja þetta, sérstaklega í næstu kosningum. Þá ætla ég að vona að þjóðin misskilji þetta alveg í botn hvað Framsókn snertir og láta hana finna til tevatnsins, hún á ekkert annað skilið.

Ég tel, frú forseti, að þetta stappi nærri því að geta kallast skemmdarverk, skemmdarverk á innviðum íslensks samfélags, að fara út í markaðsvæðingu, og jafnvel að hluta til í framhaldinu í einkavæðingu, og skattlagningu á þeirri almannaþjónustu sem hér á að innleiða. Á sama hátt hika ég ekki við að kalla það skemmdarverk að einkavæða Símann. Það er auðvitað ekki annað en skemmdarverk, að selja undan okkur það sem við höfum haft og getað nýtt til að byggja hlutina upp, jafna aðstöðumun og tryggja landsmönnum öllum tiltekna þjónustu af tilteknum gæðum, með ágætum árangri.

Auðvitað mætti árangurinn vera betri. Hann gæti verið betri, sérstaklega í raforkukerfinu. Ef ekki hefði verið hin óhagkvæma og dýra sambúð almenna notendamarkaðarins við stóriðjuna þá væri augljóst mál og borðleggjandi að rafmagnsverð til almennra notenda á Íslandi gæti verið til mikilla muna lægra en það er í dag. Það sér hver heilvita maður. Það er augljóst. En því miður hafa menn haldið áfram og hlaðið nýjum og nýjum og skuldum á fyrirtækin sem menn halda svo áfram að bogna undan og sér ekki fyrir endann á því. (Gripið fram í.) Það sér ekkert fyrir endann á því, því miður.

Raforkuverð er því miður allt of hátt til almennra notenda á Íslandi. Það er t.d. merkilega dýrt og óhagstætt fyrir almennan iðnað, smærri notendur í iðnaði, að kaupa rafmagn á Íslandi. Það er eiginlega fráleitt að það skuli vera miklu ódýrara að framleiða gufu með svartolíu eða elda á gasi en að kaupa rafmagn á Íslandi, þar sem allar aðstæður eru til þess að raforkuverð sé það langlægsta í heiminum. Það ætti auðvitað að vera það. Finnst hv. þm. Birki Jóni Jónssyni bara allt í góðu lagi með að gera þurfi sérstakar ráðstafanir og nota niðurgreiðslur frá ríkinu til að ná raforkuverði til garðyrkju í landinu niður í það sem það er í samkeppnislöndunum? Það er veruleikinn. Þegar þetta var skoðað af nefnd fyrir um tveimur árum, sem sérstaklega átti að fara ofan í að skoða starfsskilyrði garðyrkjunnar og bera saman við samkeppnislöndin, þá var útkoman sú að það þurfti verulegar niðurgreiðslur eða afslætti til að ná rafmagnsverðinu niður í það sem það var í Hollandi, bara til lýsingar í gróðurhúsum, dælingar eða hvað sem það nú var. Þetta er veruleikinn.

Auðvitað er þetta alveg absúrd. Það hefur nánast ekkert land í heiminum eins góðar aðstæður til að vera með virkilega hagstætt raforkuverð, sérstaklega til almennra notenda, eins og Ísland, vegna hinna geysilegu möguleika sem við höfum til að framleiða rafmagn fyrir okkur sjálf með fjölbreytilegum smærri og meðalstórum virkjunum, sem geta verið mjög hagkvæmar. Þetta vita náttúrlega bændur.

Hvernig stendur á því að það er svona myljandi hagstætt fyrir bændur að ráðast í þá fjárfestingu að reisa litla heimavirkjun þótt samkvæmt kenningunum eigi að vera ákveðin stærðarhagkvæmni í virkjunum? Eftir því sem þær eru minni má búast við að stofnkostnaðurinn sé hlutfallslega hærri, miðað við framleiðsluverðmæti. Það ætti a.m.k. að taka lengri tíma að afskrifa fjárfestinguna áður en hún færi að skila arði. Samt er það svo að langflest dæmi sem maður sér um sæmilega hagkvæma heimarafstöð ganga út á að menn séu komnir á núll eftir um tíu ár. Eftir það fá þeir rafmagnið fyrir brotabrot af því sem þeir yrðu að borga fyrir rafmagn frá samveitum. Það er þannig. Ég hef séð marga svona reikninga og meira að segja staðið í að gera þá sjálfur. Þetta er ósköp venjuleg viðmiðun, að það taki niður í átta og upp í tólf, fimmtán ár, sem menn þurfa þá að reikna sér kannski fullt verð, miðað við það sem þeir borga samveitunum í dag. En eftir það fá þeir svo til ókeypis rafmagn. Það er nánast ekkert fyrirbæri undir sólinni hagkvæmara en velheppnuð rennslisvirkjun sem gengur sjálfvirkt árið um kring án vandkvæða og rekstrarkostnaðurinn er fyrst og fremst fólginn í því að skipta um legur á fimm ára fresti ef allt gengur vel. Eftir að fjárfestingin, stofnkostnaðurinn, er einu sinni afskrifaður getur þetta malað árum og áratugum saman með hverfandi kostnaði. Þannig ætti þetta að geta verið og í raun er það þannig.

Sogsvirkjanirnar, sem eru sem slíkar fyrir löngu afskrifaðar, eru þvílíkar gullkvarnir ef almennir notendur fengju að einhverju leyti að njóta þess — það eru þeir sem hafa afskrifað þær og borgað þær niður — þá gæti rafmagnsverðið verið brot af því sem það er í dag. Við fáum það aldrei. Menn fá það ekki vegna þess að þessu er alltaf sökkt í nýjum skuldum, vegna nýrra stórvirkjana sem ofan í kaupið standa tæplega undir sér eða í besta falli komast í núllið. Þetta er nú kerfið eins og það er, því miður. Það þýðir ekkert fyrir menn að mótmæla því að þetta sé svona.

Hvers vegna hurfu allar hugmyndir um að byggja Kárahnjúkavirkjun í sjálfstæðu fyrirtæki út af borðinu, gufuðu upp eins og dögg fyrir sólu? Fjármálastjóri Landsvirkjunar viðurkenndi hvers vegna það var. Hann sagði auðvitað ósköp einfaldlega að það mundi aldrei ganga upp nema hún yrði byggð inni í stóru púllíunni þannig að allar eignir og tekjur Landsvirkjunar stæðu á bak við fjárfestinguna.

Frú forseti. Ég fer nú að stytta mál mitt hvað úr hverju, a.m.k. í fyrri ræðu minni um þetta frumvarp um breytingu á ýmsum lögum á orkusviði, sem er hluti af pakkanum um skattskyldu orkufyrirtækja og markaðsvæðingu orkugeirans sem við höfum verið með í höndunum á Alþingi meira og minna undanfarin missiri og er ekki víst að allt sé nú búið enn. Eins og ég segi þá hefur Framsóknarflokkurinn hugsað sér að reka smiðshöggið á þetta, það væri kannski nær að segja náðarhöggið, veita almennum raforkunotendum í landinu náðarhöggið, með því að sameina svo á endanum Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða. Þá fyrst fá menn að finna til tevatnsins og sjálfsagt eiga eftir að gefast ýmis tækifæri til að ræða þessi mál betur og ítarlegar á Alþingi, bæði á þessum vordögum og á næstu þingum. Því miður, liggur mér við að segja, því að það er auðvitað engum sérstakt skemmtiefni að þurfa að hafa þetta í höndunum endalaust. En það er næsta víst, eins og ónefndur íþróttafréttamaður mundi segja, að við eigum eftir t.d. eftir að sjá frumvarpið um sölu og dreifingu á raforku og allan þann pakka inn á þingið aftur og aftur.

Það er ljóst að verðlagning og raforkuverðshækkanir eiga líka eftir að koma við sögu. Ef það reynist ekki haldbær útskýring að reikningarnir, sem hafa verið að koma undanfarnar vikur, eftir fyrstu mánuði eða fyrsta árshluta þessa árs, séu bara eitthvert uppsafn og ekki marktækir, ef þetta reynist nú í alvörunni þannig að í næstu reikningum standi áfram tugprósentna hækkun hjá fjölmörgum notendum raforku, þá hef ég á tilfinningunni að það fari að hvína dálítið í og Framsókn neyðist til þess að hörfa eitthvað undan og játa sig sigraða fyrir dómi reynslunnar í þeim efnum, að þetta hafi ekki verið eins og iðnaðarráðherrann sór og sárt við lagði að þessi breyting væri öllsömul útlátalaus, öllum til góðs og blessunar og engin tilefni til hækkunar á raforkuverði þótt menn færu í þessa markaðsvæðingu. Annað hefur þegar komið á daginn, frú forseti.

Svo langar mig til að spyrja í lok ræðu minnar, frú forseti, hvernig það sé með hæstv. ráðherra. Ef ég man rétt þá ræddum við skattskyldu orkufyrirtækja við 2. umr. án þess að hæstv. iðnaðarráðherra væri við. Getur hæstv. forseti staðfest að það sé rétt munað? Ég sé að það mál er á dagskrá þessa fundar, 3. umr. um það mál. Ég trúi því ekki að ætlunin sé að við ræðum þessi mál til loka á þinginu án þess að hæstv. ráðherrar, helst bæði hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, séu viðstaddir. Ég óska eindregið eftir því að hæstv. iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra verði gert viðvart um að áhugi sé á því að þeir séu viðstaddir þessa umræðu eigi hún að standa eitthvað lengur fram eftir kvöldinu.

(Forseti (JBjart): Forseti mun bregðast við ósk hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og koma þeim boðum til beggja hæstv. ráðherra sem þingmaðurinn nefndi.)