131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[23:37]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var einstaklega skemmtileg röksemdafærsla. Hún gengur út á það að ef frumvarp sem hv. þingmaður er á móti verði samþykkt, þá ætli hann í öryggisskyni, til þess að setja á sig bæði axlabönd og belti, að samþykkja allt annað frumvarp (Gripið fram í.) í trausti þess að frumvarpið sem hann er á móti verði samþykkt. Þetta er í raun og veru röksemdafærsla hv. þingmanns.

Ég hélt satt að segja eitt andartak að ég hefði verið að misskilja eitthvað en hv. þingmaður var svo skýrmæltur í þessum efnum að það liggur alveg fyrir að hv. þingmaður var einfaldlega að segja: Ég er algjörlega á móti hinu frumvarpinu sem liggur hér fyrir sem er forsenda þess að eitthvert vit sé í því að samþykkja þetta sem hér liggur fyrir. Engu að síður ætla ég samt sem áður að samþykkja frumvarp sem síðan leiðir af því frumvarpi sem ég er algjörlega á móti.

Þetta er, virðulegi forseti, hryggjarstykkið í málflutningi hv. þingmanns sem hann segir að sé sjónarmið Samfylkingarinnar í þessum efnum. Hv. þingmaður er með öðrum orðum kominn svo gjörsamlega í hring og í gegnum klofið á sjálfum sér í þessu máli að ég held að ég hafi aldrei séð aðra eins pólitíska loftfimleika og hv. þingmaður fór í gegnum núna í kvöld.

Þetta er auðvitað undarlegt vegna þess að hv. þingmaður hafði drjúgan tíma — mér sýndist á klukkunni að hann hefði talað í 50 mínútur — til að gera grein fyrir málflutningi sínum. Hann hefur dregið hann saman í stuttu máli og er ágætt fyrir fólk að átta sig á því að hann er að mæla með samþykkt frumvarps, hann talar að vísu gegn því í umræðunni, sem byggir á því að samþykkt verði frumvarp sem hann er sjálfur á móti. Það er kjarni málsins. Ég geri ráð fyrir að það geti tekið dálítið langan tíma og það kannski skýrir að hv. þingmaður er 50 mínútur að gera grein fyrir því af hverju hann talar gegn frumvarpi sem hann skrifar sjálfur upp á og mælir með að verði samþykkt.