131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[23:42]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég finn mig knúinn til þess að kveðja mér hljóðs um fundarstjórn forseta eftir að hafa hlýtt á ræður og andsvör þeirra sem hér voru á undan því að mér virðist á þessum tímapunkti, þar sem við erum að nálgast miðnætti, að menn séu óvissir um hvaða mál sé á dagskrá. Þannig er fyrir komið í þinginu að menn deila um hvaða mál sé á dagskrá og hvers konar ræður séu fluttar. Ég held að það sé orðið mikilvægt, virðulegi forseti, að við reynum að ná betur utan um dagskrána, förum vandlega yfir hana og reynum að átta okkur á hvert við ætlum að halda héðan.

Þá verð ég að segja það einnig eftir að hafa hlýtt á þessa umræðu og kannski ekki síst formann iðnaðarnefndar, hv. þm. Birki Jón Jónsson, sem ekki er lengur í húsinu, þegar hann lýsti því yfir í ræðu sinni að frumvarpið sem við ræðum og þau frumvörp sem hér eru til meðferðar muni ekki hafa áhrif á ríkissjóð næstu 7–10 árin, að við hv. þingmenn hljótum að spyrja: Hvað liggur þá á að ræða þetta mál inn í nóttina, inn í myrkrið á þessum vordögum sem nú eru að ganga í garð?

Í þriðja lagi, virðulegi forseti, er ekki síður ástæða til að vekja á því sérstaka eftirtekt að í húsinu er ekki lengur nokkur fulltrúi ríkisstjórnarinnar — þá á ég við hvorki formaður iðnaðarnefndar né hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra — til þess að svara þeim spurningum sem vakna í umræðunni. Því hlýt ég að hvetja hæstv. forseta til að skoða það mjög vandlega þar sem þessi umræða hefur staðið í um sjö klukkustundir eða svo hvort ástæða sé til að halda henni mikið lengur áfram. Spurningin er náttúrlega sú hvort áframhaldandi umræða muni upplýsa málið frekar en orðið er, a.m.k. á meðan enginn fulltrúi hv. iðnaðarnefndar eða hæstv. viðskiptaráðherra er á staðnum til að svara þeim spurningum sem vakna.

Ég vil því hvetja virðulegan forseta til að hugleiða það mjög vandlega hvort ekki sé kominn tími á það að við ljúkum þessum fundi og getum þá mætt snemma í fyrramálið til að halda umræðunni áfram og þá í þeirri von að þeim fjölmörgu spurningum sem hér hefur verið vakið máls á verði svarað. Það er vitaskuld tilgangslaust að stjórnarandstaðan haldi umræðunni áfram út í hið óendanlega ef engin verða svörin og engar verða skýringarnar aðrar en þær að þessi frumvörp muni ekki hafa nein áhrif næstu 7–10 árin. Við stöndum hér í pontu í þingsal klukkutíma eftir klukkutíma og fáum engin skilaboð um hvert skuli haldið.

Ég ítreka það, virðulegi forseti, að við látum hér staðar numið þannig að menn komi vel úthvíldir og hressir til frekari umræðu á morgun og hvet hæstv. forseta til að skoða þessar hugmyndir mjög vandlega.