131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[23:45]

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni Lúðvík Bergvinssyni og leggja til að við gerum hlé að þessari umræðu. Hún hefur staðið í alllangan tíma og ljóst er að henni er hvergi nærri lokið. Það eru sjö þingmenn á mælendaskrá. Þá vil ég minna á að óskað hefur verið eftir viðveru hæstv. ráðherra, iðnaðarráðherra Valgerðar Sverrisdóttur, við þessa umræðu en það bólar hvergi á ráðherranum. En ég skil mætavel að ríkisstjórnin vilji helst láta afgreiða þetta mál í kyrrþey og með sem minnstri sýnilegri umræðu.

Það má heita undarlegt hversu litla umfjöllun þetta mál hefur fengið í fjölmiðlum landsins miðað við hversu grafalvarlegt mál er á ferðinni. Staðreyndin er sú að öll helstu samtök launafólks á Íslandi hafa ályktað gegn frumvarpinu og varað við því. Öll sveitarfélögin í landinu og samtök þeirra vara við þessu frumvarpi. Almannasamtök vara almennt við þessu frumvarpi. Orkufyrirtækin vara einnig við þessu frumvarpi og segja okkur hverjar afleiðingar það muni hafa með hækkandi raforkuverði sem muni fyrst og fremst bitna á almennum neytendum. Eins og við þekkjum er stóriðjan öll í bómull ríkisstjórnarinnar.

Það er þessum aðilum sem hæstv. iðnaðarráðherra, sem er helstu ábyrgðaraðili fyrir þessu frumvarpi með fullri virðingu fyrir formanni og varaformanni iðnaðarnefndar sem hafa verið við umræðuna, sem hæstv. iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir sýnir vanvirðu með því að vera ekki við umræðuna. Þessi samtök álykta öll gegn frumvarpinu og færa ítarleg rök fyrir máli sínu en hæstv. ráðherra sér ekki ástæðu til að vera viðstödd umræðuna, hvað þá að svara þeirri gagnrýni sem fram er komin.

Hæstv. forseti. Ég ítreka að ég tek undir með hv. þingmanni Lúðvíki Bergvinssyni. Ég tel hyggilegt að láta staðar numið. Klukkan er að nálgast tólf. Það hefur verið boðað til fundar í nefndum þingsins í fyrramálið. Nefndarfundir hófust snemma í morgun. Ég held að hyggilegt væri, líka af þeim ástæðum, að gera hlé á þessum fundi nú. Það eru heppilegri og skynsamlegri vinnubrögð í þinginu að gera svo, fyrir utan þá grófu fyrirlitningu sem hæstv. ráðherra sýnir þinginu (Forseti hringir.) og umsagnaraðilum með því að vera ekki viðstödd umræður um þetta þingmál.