131. löggjafarþing — 121. fundur,  4. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[00:30]

Jón Bjarnason (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil ítreka þá kröfu mína að annaðhvort verði fundinum frestað ellegar hæstv. iðnaðarráðherra mæti hér. Ég bendi á að þessi fundur er fyrst og fremst fundur þeirra sem eru að ræða málið, ekki fundur hinna sem eru staddir einhvers staðar annars staðar. Það hlýtur því fyrst og fremst að þurfa að virða óskir og ábendingar þeirra þingmanna sem eru hér og láta sig málið varða. Ég held að það sé eðlileg krafa að sjónarmið þeirra ráði og forseti taki fyrst og fremst tillit til þeirra.

Ég hef lagt fram beiðni um að ráðherra komi og svari fyrir þetta mál. Rakið hefur verið hversu grafalvarlegt málið er. Það eru grundvallarathugasemdir frá öllum samtökum launafólks í landinu, frá Bændasamtökunum, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og frá fjöldanum öllum af sveitarstjórnum. Við þingmenn eigum að bera ábyrgð á málinu, hvort sem við styðjum það eða ekki. Þingið ber ábyrgð á málinu í heild. Því er það mjög sanngjörn krafa að hæstv. ráðherra sem ber ábyrgð á málinu komi og svari grundvallarspurningum um málið áður en umræðu lýkur.

Ég hef áður bent á ágætisviðtal við hv. þingmann og formann þingflokks Sjálfstæðisflokksins um vandann sem upp kom varðandi nýskipan raforkumála í janúar og febrúar og er ekki enn leystur. Ég hefði viljað spyrja hæstv. iðnaðarráðherra að því hvenær hún ætli að leysa úr þeim grundvallarvanda sem þar var uppi áður en við tökum á öðru máli sem ráðherrann þarf líka að skýra út, hvernig það kemur niður á neytendum. Eigum við að fá sama svarið þar að afleiðingin hafi komið á óvart eftir á? Ég vil fá svar fyrir fram, alla vega að ráðherrann geti svarað því hverju hún ætlar að svara til fyrir fram og eftir á.

Ég krefst þess, herra forseti, að fundinum verði frestað og orðið verði við óskum þeirra þingmanna sem hér eru virkir og láta sig málið varða.