131. löggjafarþing — 121. fundur,  4. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[00:37]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Hér hafa verið fluttar margar áhugaverðar ræður, þó svo við í stjórnarandstöðunni söknum þess að fá við þeim svör. Ég mun rekja það í ræðu minni hverju þarf að svara í umræðunni. Það er fjölmargt. Það er fyrst og fremst mjög villandi upplýsingagjöf í tengslum við breytingar á raforkuskipulaginu. Ef við ætlum að halda áfram með þetta skipulag verða stjórnvöld að gera betur grein fyrir hinni villandi upplýsingagjöf. Ég vonast til þess að eiga bandamann í hv. þingmanni og formanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins í umræðunni, vegna þess að það er nauðsynlegt að fara yfir það.

Þrátt fyrir þau fáu svör sem við höfum fengið frá stjórnarliðum hafa verið fluttar áhugaverðar ræður, eins og áður segir. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson flutti ágæta ræðu um að óvarlegt væri að fara í aukna skattheimtu nú því menn hafa ekki séð fyrir endann á þeim breytingum og þeim hækkunum sem hafa orðið vegna breytts skipulags á raforkumarkaði. Hv. þm. Ögmundur Jónasson fór yfir að markaðsfyrirkomulagið hafi ekki gefist alls staðar vel þar sem það hafi verið reynt og rakti það með ágætum hætti og fór síðan vel yfir það að Framsóknarflokkurinn væri kominn lengst til hægri, væri nánast orðinn öfgasinnaður markaðshyggjuflokkur. Hv. þingmenn Steingrímur J. Sigfússon og Jón Bjarnason fluttu einnig ágætar ræður um að mögulega væri verið að markaðssetja fyrirsjáanlegt tap Landsvirkjunar. Þessu þarf að svara.

Einnig hafa aðrir flutt hér ágætar ræður og farið yfir þær umsagnir sem fyrir liggja og stjórnarliðar hafa ekki svarað, svo sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson. Stjórnarliðar skulda að svara þeim spurningum sem fram hafa komið í umræðunni.

Það er fleira sem þarf að fara yfir. Það er mjög villandi upplýsingagjöf í tengslum við raforkubreytingarnar sem lögfestar voru á 128. þingi. Í fylgiskjali með því frumvarpi voru sett fram skýr markmið þar sem því var lofað að ekki yrði hækkun á raforku til almennings, heldur mundi raforkuverð lækka um 3% á ári á árabilinu 2001–2010. Það hefur ekki verið staðið við þetta, heldur þveröfugt. Við höfum séð hækkun til almennings. Það er áhyggjuefni. Þegar búið er að lofa lækkun með skýrslu sem kom út 1996 og var fylgiskjal við frumvarp á 128. þingi þegar raforkubreytingarnar voru lögfestar, þegar þær ganga ekki eftir og við sjáum hækkun er kominn tími til þess að stjórnvöld svari því hvað fór úrskeiðis.

Ég er með upplýsingar frá Orkustofnun, enn og aftur, frá árinu 2004. Þá er ekki verið að lofa lækkun, heldur eilítilli hækkun. Í ágætri frétt á heimasíðu Orkustofnunar er farið yfir þessi mál. Hæstv. ráðherrar eiga auðvitað að svara því hvað fór úrskeiðis. Fólk á landsbyggðinni og víða um land skilur ekki hvers vegna verið er að hækka rafmagnið þegar breytingarnar eru kynntar fyrst með lækkun, síðan eilítilli hækkun, en þegar það fær reikninginn er tugprósenta hækkun. Þessu þarf hæstv. iðnaðarráðherra að svara.

Ég er með ágæta samantekt frá upplýsingaþjónustu Alþingis þar sem hækkunin er rakin. Á Rarik-svæðinu er liðlega 30% hækkun og 17% hækkun. Stjórnvöld skulda einhver svör af hverju það er hækkun og af hverju það eigi líka að hækka niðurgreiðslur á rafmagni í ofanálag. Það á ekki einungis að færa kostnaðinn á þá sem greiða orkureikningana, heldur einnig á alla skattborgara til að hækkunin fari ekki upp úr öllu valdi og valdi mjög mikilli óánægju, meiri en almenningur þolir. Það er búið að reyna á þanþol almennings.

Því miður svarar hæstv. ráðherra í raun eingöngu með útúrsnúningum og einhverju sem ekkert mark er á takandi. Lofað var að skýra iðnaðarnefnd frá því hverjar hækkanirnar eru í raun og veru og útskýra fyrir fólki raforkureikninga sem eru algerlega óskiljanlegir. Ég tel að það sé öllum fyrir bestu, sérstaklega hæstv. ráðherra, að koma hreint fram og greina frá því hver áhrifin eru í raunveruleikanum í stað þess að fara inn í sumarið án þess að svara öllum þessum spurningum. Það er hreinn og klár dónaskapur við kjósendur og lýðræðið að vera sífellt að lofa jafnvel lækkun, svo er óveruleg hækkun, nánast ekki nein og jafnvel lækkun á sumum svæðum og þegar til á að taka standa neytendur uppi með hækkun.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa ræðuna mikið lengri en vonast til þess að hæstv. ráðherra mæti til leiks þegar við ræðum fleiri frumvörp sem varða hina breyttu skipan raforkumarkaðarins. Ég ítreka að hæstv. ráðherra skuldar ekki endilega okkur í stjórnarandstöðunni að ræða þessa hluti, hún skuldar fólkinu í landinu að svara fyrir stjórnvaldsaðgerðir sem hafa skilað fólkinu í landinu hækkun þegar búið var að lofa lækkun.