131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Alþjóðaumhverfissjóðurinn.

683. mál
[10:32]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég legg fyrir hæstv. utanríkisráðherra fyrirspurn um hvað líði aðild Íslands að Alþjóðaumhverfissjóðnum sem einnig hefur verið nefndur Hnattræni umhverfisbótasjóðurinn en enska heiti hans er Global Environment Facility, GEF.

Í skýrslu utanríkisráðherra til hins háa Alþingis í mars árið 2002, fyrir þrem árum, segir, með leyfi forseta:

„Í ljósi árangurs Íslands við lausn íslenska ákvæðisins og fullgildingar Kyoto-bókunarinnar hyggst utanríkisráðuneytið beita sér fyrir því að Ísland gerist aðili að Alþjóðlega umhverfissjóðnum (Global Environment Facility eða GEF). Sjóðurinn er notaður til að fjármagna ýmis verkefni sem tengjast loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og Kyoto-bókuninni.

Aðildarríki GEF eru 172 talsins“ — þ.e. voru það þá, eru nú 176 — „þar á meðal öll aðildarríki OECD. Hlutverk sjóðsins er að veita þróunarríkjum styrki eða víkjandi lán til verkefna sem varða hnattræn umhverfismál. Þar á meðal eru verkefni er varða íslenska hagsmuni eins og verndun hafsins, ráðstafanir til að draga úr mengun af völdum þrávirkra lífrænna efna og verkefni í þróunarríkjunum sem snúa m.a. að endurnýjanlegum orkugjöfum, eins og jarðhita. GEF hefur aðsetur hjá Alþjóðabankanum í Washington en bankinn, ásamt Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna og Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna, eru framkvæmdaaðilar þeirra verkefna sem fjármögnuð eru af sjóðnum.“

Ári síðar, í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra til Alþingis vorið 2003, er áfram rætt um að gert sé ráð fyrir að Ísland verði aðili að sjóðnum og væntanlega hefur það þýtt að það mundi gerast bráðlega. Við sem vorum svo lánsöm að sækja ráðstefnuna um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg í ágúst 2002 heyrðum þar mikla umræðu um þennan sjóð og um gildi hans. Þá stóð fyrir dyrum endurfjármögnun hans og mörg vonuðum við að Ísland gæti tekið þátt í þeirri endurfjármögnun, en það varð því miður ekki.

Aðilar að þessum sjóði eru nú 176 ríki, þ.e. næstum öll ríki heims, en við erum því miður ekki enn í þeim hópi. Því vil ég spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvað líði aðild Íslands að Hnattræna umhverfisbótasjóðnum.