131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Alþjóðaumhverfissjóðurinn.

683. mál
[10:39]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svörin. Mér þykir miður að það sé að verða niðurstaða í utanríkisráðuneytinu að gerast ekki aðili að Alþjóðaumhverfissjóðnum. Það eru 176 ríki aðilar að þessum sjóði. Hann tekur sér fyrir hendur og skipuleggur í samvinnu við bæði alþjóðastofnanir, félagasamtök og einkaaðila verkefni í þróunarsamvinnu á sviði umhverfismála um allan heim. Í upplýsingum á heimasíðu sjóðsins segir að hann hafi fjármagnað meira en 1.500 verkefni í 140 löndum.

Þar er einnig sagt, og sá fyrirvari skal vissulega hafður að þar er sjóðurinn að skrifa um sjálfan sig ef þannig má að orði komast, að árangurinn sé góður, stjórnsýslan sé gegnsæ en árangurinn liggi fyrir í þau 13 ár sem sjóðurinn hefur starfað. Ég efa ekki þær upplýsingar fyrr en ég sé aðrar sem afsanna þær.

Þessi tegund þróunarsamvinnu er fjölhliða. Vissulega er þetta þróunarsamvinna og eins og við vitum öll er verið að auka fjárframlög Íslands til þróunarsamvinnu á þessum árum og hinum næstu. Það er auðvitað rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að það er erfiðara að merkja sér hana en hún ber mjög mikinn og góðan árangur ef henni er vel stjórnað vegna þess að þarna er verið að nýta á mjög skilvirkan og hagrænan hátt, vildi ég leyfa mér að segja, þá sjóði og þá peninga sem alþjóðasamfélagið hefur. Ég hvet hæstv. utanríkisráðherra til að íhuga það betur að gerast aðili að þessum sjóði og nýta til samvinnuverkefna af þessu tagi þá fjármuni sem við erum hvort eð er að hækka til þróunarsamvinnu.