131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Samþætting kynjasjónarmiða í alþjóðastarfi.

685. mál
[10:47]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur borið fram eftirfarandi spurningu:

„Hefur ráðherra gert tillögur um sérstaka vinnu- og aðgerðaáætlun um samþættingu kynjasjónarmiða í alþjóðastarfi, eins og kveðið er á um í jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar?“

Eins og kom fram í máli hv. þingmanns er einn af mörgum liðum í jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar til fjögurra ára, áætlun frá 2004 til 2008, samþætting kynjasjónarmiða í alþjóðastarfi. Íslensk stjórnvöld hafa, þar sem við á, haft samþættingu kynjasjónarmiða til hliðsjónar við stefnumörkun á alþjóðavettvangi, svo sem á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þess má geta að í starfsemi norðurskautsráðsins þar sem Ísland gegndi formennsku á tímabilinu 2002–2004 var tekið tillit til samþættingarsjónarmiða eins og kemur glögglega fram í yfirgripsmikilli skýrslu sem kynnt var á ráðherrafundi ráðsins í nóvember sl. Á þeim fundi voru einnig kynntar niðurstöður verkefnis sem fjallar um þátttöku kvenna í ákvarðanatöku við stjórnun auðlindanýtingar sjávar á norðurslóðum.

Í febrúar sl. gaf Þróunarsamvinnustofnun út jafnréttisstefnu sína þar sem samþætting kynja og jafnréttissjónarmiða er höfð í fyrirrúmi. Einnig hefur verið gerð skýrsla um samþættingu kynjasjónarmiða í Íslensku friðargæslunni og vil ég í því sambandi vísa til umræðna sem nýlega fóru fram um það efni hér á þessum háttvirta stað.

Í samræmi við jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar, einnig til fjögurra ára, 2004–2008, var sett á fót nefnd utanríkis- og félagsmálaráðuneytisins til að vinna að gerð tillagna til ráðherranna um sérstaka vinnu- og aðgerðaáætlun um samþættingu kynjasjónarmiða í alþjóðastarfi og er það hugsað sem framhald og viðbótarverkefni við þau atriði sem ég hef þegar nefnt til sögunnar. Það er á hinn bóginn rétt að gagnaöflun þessarar nefndar hefur tekið mun lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir en nú vonast menn til þess að þessi nefnd megi ljúka störfum síðar á þessu ári, og er það út af fyrir sig á fyrri parti þess tímabils sem þessi starfsemi tekur til. Vænti ég þess að þær tillögur megi nýtast vel við þætti þessara tveggja ráðuneyta sem snúa að jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir þessi ár, 2004–2008.