131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Stuðningur við börn á alþjóðavettvangi.

741. mál
[10:52]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Að hlúa að börnum og æskufólki, eiga úrræði þegar á bjátar og veita börnum jöfn tækifæri til að þroskast og menntast er grunnur að því að upp vaxi heilbrigðir og verðmætir þegnar. Ég er að verða æ sannfærðari um að við Íslendingar eigum að veita til barna þá fjármuni sem við verjum til alþjóðahjálparstarfs. Átakanlegar staðreyndir blasa hvarvetna við um aðstæður barna í hinum ólíku heimsálfum. Alvarlegir sjúkdómar sem hefur verið útrýmt af Vesturlöndum hrjá börn í fátækum löndum. Þekktar eru fréttirnar af götubörnum og örlögum þeirra t.d. í Suður-Ameríku en nýrri eru staðreyndir um að smábörn í Afríku séu að ala önn fyrir enn yngri systkinum vegna alnæmisafleiðinganna og foreldramissis. Börn í flóttamannabúðum verða fyrir alvarlegum misþyrmingum og nauðgunum og eiga erfið uppvaxtarskilyrði sem skapa nýtt vandamál. Enn annað vandamál, flóttabörn, flæðir núna yfir Evrópu.

Meira en 200 milljónir barna stunda vinnu í stað þess að ganga í skóla sem er lykill að mannsæmandi lífi. Hér á þessum morgni vorum við fulltrúar í utanríkismálanefnd að ræða við forstjóra matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna og hann segir okkur að um 300 milljónir barna í heiminum búi við hungur.

Af því að ég nefndi flóttabörnin vil ég taka fram að ég er ekki að vísa til barna í flóttamannabúðum, heldur er um að ræða tvenns konar hópa, annars vegar unglinga sem foreldrar sökum vonleysis senda af stað til Vesturlanda og leggja allt í sölurnar fyrir í von um betri framtíð fyrir börnin sín. Þar er um að ræða ungmenni alveg niður í 12 ára gömul. Hinn hópurinn er mansalið. Börn eru blekkt til að koma til Evrópu eða seld þangað, annars vegar til að nota þau í kynlífsiðnaðinn og hins vegar sem ódýrt vinnuafl. Stundum flýja þessi börn og finnast illa komin á götunni. Tugþúsundir slíkra barna eru nú í Evrópu. Vandamálið er nýtt á Norðurlöndum en þó er það talið telja meira en 2 þús. börn.

Til að taka á málum barna sem lifa við hörmungar heima fyrir þarf peninga og þess vegna langar mig að heyra viðhorf hæstv. utanríkisráðherra til þess að við mótum stefnu um að við notum okkar fjármagn í alþjóðlegu hjálparstarfi á þann hátt að Ísland hjálpi börnum. Við mundum sérgreina okkur í alþjóðlega hjálparstarfinu. Fjármunir sem eru kannski ekki of miklir yrðu miklir við þetta.