131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Bílastæðamál fatlaðra.

674. mál
[11:15]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Til að skýra betur hvernig þessi framkvæmd er vil ég geta þess að framkvæmd gjaldtökunnar í Reykjavík, samkvæmt þeirri reglugerð sem þar er í gildi og er staðfest af ráðherra að fenginni tillögu viðkomandi sveitarfélags, er þannig að heimildin í 108. gr. er nýtt á þann hátt að á síðasta ári bættist við 28 daga hækkun á stöðubrotum eins og þeim að leggja í stæði hreyfihamlaðra. Það gjald er í grunninn 2.500 kr. frá árinu 2000 en eftir 14 daga hækkar ógreitt gjald um 50% og fer í 3.750 kr. og nú hækkar ógreitt gjald aftur eftir 28 daga frá álagningu í 5.000 kr. Samfara 28 daga hækkuninni kom inn þriggja daga afsláttur þannig að sá sem t.d. leggur í stæði hreyfihamlaðra getur sloppið með greiðslu upp á 1.950 kr.

Mér er það alveg ljóst að finna þarf leiðir til að koma í veg fyrir að þessi stæði, sem eru greinilega og rækilega merkt fyrir fatlaða, séu ekki tekin til notkunar þeirra sem ekki eru fatlaðir og nauðsynlegt bæði fyrir viðkomandi sveitarfélög og ráðuneytið, ég tala nú ekki um lögreglu, að finna leiðir til að koma í veg fyrir þá stöðu.

Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda og þakka honum fyrir þessa fyrirspurn og undirstrika það að ef talin er ástæða til mun þetta mál verða tekið upp til sérstakrar skoðunar í tengslum við endurskoðun á umferðarlögunum, og ég vænti þess að sjálfsögðu að það verði í góðu samstarfi við viðkomandi sveitarfélög.