131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Jarðgangagerð.

751. mál
[11:27]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að halda þessu máli á lofti. Það er alveg ljóst að við verðum að leita allra leiða til að gera jarðgangagerð á Íslandi ódýrari og þar af leiðandi hagkvæmari. Það er mjög brýnt að tengja sveitarfélögin enn frekar saman og mynda þannig stærra atvinnusvæði. Við horfum upp á það til að mynda á Austurlandi hvað það er brýnt að þessi jaðarsvæði fái betra aðgengi að þeim miklu framkvæmdum sem eiga sér stað þar núna, og er þess vegna mjög áhugavert að fylgjast með hugmyndum heimamanna um framkvæmdir þar. Einnig eru slíkar væntingar uppi á Norðurlandi með gerð Vaðlaheiðarganga þar sem væri hægt að tengja Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur saman og sameinast þar um uppbyggingu stóriðju á Norðurlandi.

Ég held því að við verðum að halda áfram á þessari leið. Við höfum verið að verja miklum fjármunum í jarðgangagerð og þær framkvæmdir hafa tekist afar vel og fólk er mjög þakklátt fyrir þær framkvæmdir og þess vegna brýnt að halda þessu máli á lofti.