131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Kostnaður af viðhaldi þjóðvega.

764. mál
[11:36]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur fyrir þessa fyrirspurn sem er mjög gagnleg og mikilvægt fyrir hv. þingmenn að fá upplýsingar um og fara yfir, en hún spyr:

„Hefur þörf fyrir stóraukið viðhald þjóðvega á næstu árum vegna aukinna þungaflutninga verið metin? Ef svo er, hver er áætlaður kostnaður? Ef svo er ekki, er það fyrirhugað?“

Svar mitt er svohljóðandi:

Fjármagn til viðhalds er ákveðið hverju sinni í vegáætlun til fjögurra ára. Sú áætlun er einmitt til umfjöllunar í þinginu og til meðferðar í hv. samgöngunefnd. Að sjálfsögðu er fylgst er með ástandi vega og viðhaldsþörf á hverju ári og aðgerðum er beint þangað sem þörfin er talin mest og lögð upp áætlun, viðhaldsáætlun, sem síðan er unnið eftir. Þungaflutningar hafa aukist mikið á síðustu árum og er ekki fyrirséð að neinar stórar breytingar verði þar á næstu árum til viðbótar við þá stökkbreytingu sem varð eftir að strandflutningar lögðust af, en eins og fram hefur komið áður í þinginu er veruleg aukning á landflutningum í tengslum við það. Á tilteknum svæðum er það meira en á öðrum svæðum og t.d. á Djúpvegi vestur á firði verður aukningin töluvert mikil vegna þess hversu sjóflutningar hafa verið umfangsmiklir til Vestfjarða.

Að meðaltali er varið um 1.400 milljónum til viðhalds vega með bundnu slitlagi á hverju ári og er talið að sú upphæð nægi til þess að halda í horfinu miðað við núverandi flutninga, þ.e. þá flutninga sem á vegunum eru eftir þær miklu breytingar sem það að leggja af sérstakar strandsiglingar hefur í för með sér. Vegagerðin hefur farið mjög vandlega yfir þetta og þetta er niðurstaðan.

Unnið er að ýmiss konar gagnaöflun og rannsóknum til þess að unnt verði að meta betur viðhaldskostnað vega. Það er verkefni umdæmanna, Vegagerðarinnar, að fara yfir þetta á hverju svæði og ég legg mjög ríka áherslu á að fylgst sé grannt með viðhaldsþörfinni. Það hefur verið svo þann tíma sem ég hef verið samgönguráðherra að ég hef lagt mikla áherslu á að ekki sé dregið úr viðhaldi veganna og þá sérstaklega þjónustu yfir vetrartímann, en viðhald slitlaga er mjög mikilvægt og þess vegna hef ég ekki talið skynsamlegt að draga úr fjármagni til þeirra framkvæmda.

Nú standa yfir útboð á viðhaldi og endurnýjun slitlaga. Nýlega er búið að opna tilboð í endurnýjun slitlaga í Norðvesturkjördæminu af því það var sérstaklega nefnt hér og ég veit að hv. þingmaður, fyrirspyrjandi, hefur áhuga á að vita um það. Það komu ágætlega hagstæð tilboð í það verk. Þar sjáum m.a. við fram á, af því það var nefnt, verulega miklar framkvæmdir við endurnýjun slitlaga, breikkun slitlaga á veginum vestur á firði, um Strandir og Djúp. Vegagerðin lítur mjög vandlega til þess og leggur áherslu á að sinna þessu viðhaldi og þessari þjónustu til að bregðast við vaxandi og aukinni umferð.