131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Kostnaður af viðhaldi þjóðvega.

764. mál
[11:40]

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að þetta mál skuli vera tekið upp á Alþingi þó að í stuttri fyrirspurn sé.

Að mig minnir erum við að vinna með í samgönguáætlun tillögu frá Vegagerðinni um 100 millj. kr. vegna aukins viðhalds á þjóðvegum með slitlagi vegna þungaflutninga. Í þessum stutta tíma gefst ekki tími til að ræða það. Hins vegar hefur hæstv. samgönguráðherra fallist á að ræða við mig utan dagskrár, ef tími vinnst til á þeim fáum dögum Alþingis sem eftir eru, um framtíðarstefnu ríkisstjórnarinnar í strandsiglingum.

Ég er þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, eftir skoðun á þeirri ágætu skýrslu þar sem þetta kemur fram að ríkisstjórnin eigi að beita sér fyrir að strandsiglingar verði teknar upp að nýju. Með viðræðum við sveitarfélögin um lækkun gjalda, hafnargjalda, og með því að taka peninga úr ríkissjóði sem annars fara í aukið viðhald þjóðvega og hafa hreinlega útboð á ákveðnum siglingaleiðum á ströndinni og beina þungaflutningum, eins og flutningi á frystum fiski og öðru slíku, á strandsiglingar í staðinn fyrir að hafa þá á þjóðvegum landsins.