131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Kostnaður af viðhaldi þjóðvega.

764. mál
[11:43]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það liggur fyrir að eins og mál hafa þróast í flutningum hér á landi þá hafa þjóðvegirnir orðið fyrir barðinu á þeim, þ.e. þyngd flutninganna sem fer um þjóðvegina er nánast að eyðileggja þá vegi sem alls ekki þola þetta álag. Því miður búum við að því í Norðvesturkjördæminu að vera með mikið af gömlum vegum og malarvegum. Það verður að segjast alveg eins og er að eins og ástandið er þá er illa við það búandi. Það liggur algjörlega fyrir að setja verður miklu meiri fjármuni í aukið viðhald en ég legg þó áherslu á að það verði farið hraðar og markvissar í uppbyggingu þeirra vega sem eru langt á eftir tímanum miðað við það álag sem á þeim er. Þar verður að gera átak við að koma vegunum á bundið slitlag.