131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Kostnaður af viðhaldi þjóðvega.

764. mál
[11:44]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég vil minna á að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eigum tillögu um strandsiglingar sem er til meðferðar í samgöngunefnd. Mér þykir nánast ámælisvert ef hún kemur ekki út í nefndinni til umræðu aftur í þinginu, svo oft kemur þetta mál upp.

Nú þegar strandsiglingar hafa verið lagðar niður, a.m.k. tímabundið eða að mestu, hefur flutningurinn náttúrlega færst í auknum mæli yfir á þjóðvegina. Það er ábyrgðarhluti að láta svo gríðarlega mikla flutninga fara upp á þjóðvegina, t.d. um Vestfirðina, frá Ísafirði um Ísafjarðardjúp, inn Strandir og svo aftur um suðurfirðina. Þessir vegir bera alls ekki þennan þunga. Ég skora því á ráðherra að taka mál strandflutninganna upp og auk þess að taka líka myndarlegar á þessum vegum.

Ég vil líka minnast á og spyrja hæstv. ráðherra um en það er viðhald á safn- og tengivegum þar sem umferðin hefur aukist (Forseti hringir.) líka og þungaflutningar, en þar er viðhaldið í mjög (Forseti hringir.) slappt og lélegt.