131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Jarðgöng í Dýrafirði.

775. mál
[11:53]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr: „Hvernig miðar undirbúningi að jarðgöngum milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar?“

Svar mitt er svohljóðandi: Unnið hefur verið að jarðfræðirannsóknum vegna jarðganga á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Fyrsta skýrsla um jarðfræði svæðisins liggur nú þegar fyrir. Einnig hefur verið unnið að staðsetningu gangamunna og lega jarðganga er að mestu ákveðin, sem skiptir að sjálfsögðu mjög miklu máli að ekki standi neinar deilur um það svo þekkt sé.

Rannsóknir til undirbúnings framkvæmda hefjast hins vegar þegar ákvarðanir um tímasetningu liggja fyrir. Það er mat Vegagerðarinnar að við höfum nægan tíma til að vinna að frekari undirbúningi og frekari rannsóknum þannig að hægt verði að fara í framkvæmdir við jarðgöngin sem hér voru nefnd af fyrirspyrjanda þegar jarðgöngin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar um Héðinsfjörð verða komin vel á veg. Ég hef því gert ráð fyrir því og lýst því yfir sem vilja mínum að jarðgöngin milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar verði næsta verkefni. Það þarf auðvitað að tryggja að ekki standi á undirbúningi þess verks, en framvinda verksins og undirbúningur er í eðlilegu horfi að mínu mati.

Gert er ráð fyrir að endurskoða 12 ára samgönguáætlun strax á næsta ári. Hluti af þeirri endurskoðun felst í að endurmeta jarðgangaáætlunina. Að sjálfsögðu mun samgönguráð hafa samráð við þingmenn kjördæmanna um þá vinnu. Gert er ráð fyrir að verulegur hluti af vinnunni verði á árinu 2006 og árið 2007 verði lögð fram endurskoðuð langtímaáætlun.

Ég lít því svo til að ferillinn sé allur á eðlilegu róli og ekki eigi að þurfa að standa á undirbúningi þegar kemur að því að hefja framkvæmdir við jarðgöngin.