131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Jarðgöng í Dýrafirði.

775. mál
[12:00]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það hefur lengi verið ljóst, og sérstaklega Vestfirðingum, hversu mikil nauðsyn væri á því að tengja saman byggðirnar á norður- og suðurfjörðunum og menn hafa ævinlega sett stefnuna á að fá jarðgöng undir fjöllin milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. En það þarf líka að huga sérstaklega að því þegar þar er komið í gegn hvernig leysa eigi framhaldið. Við höfum auðvitað litið á þessa tengingu sem megintengingu til suðurfjarðanna norðan að og öfugt sunnan að. Þess vegna þarf að skoða vandlega hvar við ætlum að leggja áherslurnar í framhaldi af Dýrafjarðargöngunum. Þar er ekki nema um tvær leiðir að velja, annaðhvort Dynjandisheiðina og lagfæra veginn þar eða, sem ég held að sé raunhæfari kostur, að skoða frekari gangagerð til að tengja svæðin saman.