131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Jarðgöng í Dýrafirði.

775. mál
[12:03]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka í aðalatriðum fyrir umræðuna sem orðið hefur um þessa fyrirspurn. Ég vil taka alveg sérstaklega undir það sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson sagði um göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar að auðvitað verður að hugsa þá framkvæmd sem heildarlausn fyrir samgöngur úr Dýrafirði yfir á Barðaströndina, annars nýtist hún ekki.

Að öðru leyti vil ég segja, virðulegur forseti, að ég hef miklu meiri áhyggjur af því hvernig Kristinn H. Gunnarsson talar en af því hver afstaða ríkisstjórnarinnar er til uppbyggingar á landsbyggðinni. Ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á hana. Kristinn H. Gunnarsson fékk þann trúnað að hafa með Byggðastofnun að gera en allir þekkja hvernig það fór. Þessi talsmáti og ræðuhöld hv. þingmanns eru náttúrlega með ólíkindum, að vera með hótanir hér um sjálfstæðan tillöguflutning. Hvers virði er hann? Hvernig hefur verið með tillöguflutning hv. þingmanns?

Ég legg áherslu á að ná víðtækri sátt og samkomulagi alþingismanna um framvinduna í samgöngumálum, en ég tel að það sé ekki líklegt til árangurs að einstakir þingmenn reyni í hverju einasta máli að rífa sig út úr samstöðu félaga sinna.