131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Jarðgöng til Bolungarvíkur.

776. mál
[12:13]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu og fagna sérstaklega yfirlýsingu hæstv. samgönguráðherra um að jarðgangakostur verði metinn að nýju á þessu svæði. Það er alveg ljóst mál að þó að við höfum fengið þarna gríðarlega miklar vegabætur á undanförnum áratugum þá höfum við ekki fundið hina varanlegu góðu lausn á þessu vegasambandi og þess vegna verðum við að vinna þessi mál áfram.

Það eru auðvitað ýmsir kostir til sem bent hefur verið á, bæði dýrir kostir og eins er hægt að benda á kosti sem hægt er að vinna smám saman sem eru ódýrari. Þetta er hins vegar hlutur sem við erum ekki búin að komast að niðurstöðu um, hvorki við heimamenn né aðrir. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að við setjum þessa vinnu af stað til þess að við séum þá tilbúin til að taka ákvörðun um framhaldið þegar við erum búin að komast að sameiginlegri niðurstöðu um þessi mál.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á að það er alveg ljóst mál að frekari samgöngubætur á veginum sem núna liggur um Óshlíð er önnur meginforsenda fyrir því að hægt sé að hugsa sér að komið geti til frekari sameiningar sveitarfélaga á þessu svæði. (Forseti hringir.) Það er einfaldlega hlutur sem menn verða að horfa á blákalt því að þetta er veruleikinn sem við stöndum frammi fyrir.