131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Jarðgöng til Bolungarvíkur.

776. mál
[12:17]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Vegurinn um Óshlíð er eiginlega skólabókardæmi fyrir okkur til að læra af. Hann er tilraun sem hefur sýnt að vegagerð undir þeim kringumstæðum sem þar eru og einnig í Súðavíkurhlíð getur ekki gengið eins og lagt hefur verið upp með. Þess vegna er það í raun og veru alveg furðulegt að við séum þegar byrjuð að grafa skápa úr Súðavíkurhlíð í stað þess að reyna að horfa til framtíðarlausna með því að tengja þessar byggðir saman með jarðgöngum.

Þá komum við einmitt að því sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vék að áðan og það er fjármagn. Þar stöndum við auðvitað frammi fyrir því að ríkisstjórnin er að skera niður framkvæmdir, verið er að færa framkvæmdir af árunum 2004, 2005 og 2006. Það er auðvitað í algjörri andstöðu við þær áherslur sem við þurfum að leggja í jafnarðbærum framkvæmdum og vegasamgöngurnar eru.