131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Siglufjarðarvegur.

777. mál
[12:31]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson spyr: „Telur ráðherra að Siglufjarðarvegur, frá Fljótum um Almenninga og Strákagöng til Siglufjarðar, geti áfram verið greiðfær heilsársvegur í fyrirsjáanlegri framtíð og hvað þarf að verja miklu fé til þess að svo verði?“

Svar mitt við spurningunni er já. Það er reiknað með því að um Almenninga og Strákagöng geti áfram verið tenging við Siglufjörð á sama hátt og verið hefur undanfarin ár og þar með greiðfær heilsársvegur. Það er að vísu nokkur viðbótar viðhaldskostnaður á veginum vegna sigs miðað við það sem almennt gerist og gert ráð fyrir að svo verði áfram. Kostnaðurinn hefur að meðaltali numið 2–3 millj. kr. á ári.

Vegagerðin fylgist grannt með hreyfingum á veginum og lagfærir jafnóðum það sem aflaga fer. Skriðurnar í Almenningum eru vissulega einn af þeim stöðum á landinu þar sem meiri háttar rask getur orðið, en jarðfræðingar telja að skriðurnar þarna hafi verið á hreyfingu í nokkur þúsund ár og hegðunin geti verið svipuð í nokkur þúsund ár til viðbótar. Eftir að Héðinsfjarðargöng verða komin í notkun hafa Siglfirðingar einnig tryggar samgöngur til austurs, en það verða 78 km á milli Siglufjarðar og Akureyrar.

Í þessu tilliti er nauðsynlegt að rifja það upp að á sínum tíma þegar verið var að fjalla um samgöngubætur til Siglufjarðar m.a. var skoðað hvaða kostir væru bestir. Sett var á laggirnar af forvera mínum í stóli samgönguráðherra, Halldóri Blöndal, svokölluð Lágheiðarnefnd, sem skoðaði hvort byggja ætti upp veginn um Lágheiði og tengja þannig Eyjafjarðarsvæðið og nýta veginn um Almenninga áfram til Siglufjarðar, hvort leggja ætti göng úr Fljótunum eða leggja göng úr Siglufirði um Héðinsfjörð til Ólafsfjarðar og nýta veginn um Almenninga. Skrifuð var greinargerð um valkostina og í hópnum sem fór yfir málið voru fulltrúar úr Skagafirði, Eyjafirði, Siglufirði og frá Vegagerðinni. Niðurstaðan af allri þeirri vinnu var sú að velja þann kostinn að jarðgöng yrðu um Héðinsfjörð úr Siglufirði til Ólafsfjarðar. Með því mundi Eyjafjarðarsvæðið eflast mjög og jafnframt yrði tenging yfir í Fljót, yfir til Skagafjarðar, um veginn um Almenninga.

Þá þegar lá því allt fyrir sem nú liggur fyrir og hv. fyrirspyrjandi vísaði til og liggur frammi sem skýrsla frá Vegagerðinni. Það er því út af fyrir sig ekkert nýtt þarna á ferðinni og lá allt saman fyrir þegar ákvarðanir voru teknar um að fara í svokölluð Héðinsfjarðargöng. Þetta vildi ég að kæmi fram í tengslum við þá fyrirspurn sem hv. þingmaður lagði fyrir.