131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Siglufjarðarvegur.

777. mál
[12:37]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég tel að bæta þurfi samgöngur við Siglufjörð vegna þess að vegurinn um Strákagöng og Almenninga er óviðunandi og verður óviðunandi og er stórhættulegur. Ég tel hins vegar að röng leið hafi verið farin með því að fara Héðinsfjarðarleiðina. Ég tel að það hefði átt að fara inn í Skagafjörð og síðan úr Skagafirði inn í Eyjafjörð, þannig að samgöngubæturnar nýttust öllu Norðurlandi vestra.

Ég tel því að það sé röng mynd sem verið er að draga upp að hægt verði að halda við þeim vegi um Almenninga sem nú er. Við vitum að það er mjög kostnaðarsamt og það hlýtur að verða erfiður biti í háls að kyngja þegar vegafé er af jafnskornum skammti og við vitum.