131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Siglufjarðarvegur.

777. mál
[12:41]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess að hæstv. ráðherra sagði að ekkert nýtt hefði komið fram frá því að tekin var afstaða til þess hvernig leggja ætti göngin um Héðinsfjörð. Það er auðvitað ekki rétt. Það sem hefur gerst síðan er að allir strandflutningar eru að leggjast af og allir flutningar frá Siglufirði munu halda áfram að fara um gamla veginn, gegnum Strákagöng og Almenninga. Ég held þess vegna að það þurfi að fá aðeins skýrari svör um það hvað þurfi til að þessi háttur verði á í framtíðinni, því nýi vegurinn um Héðinsfjörð verður ekki notaður fyrir vöruflutninga miðað við hlutina eins og þeir gerast í dag. (Gripið fram í: … Akureyrar.) Akureyri, það er ekki hægt að útskipa frá Akureyri, það er ekkert vöruhótel þar. Ef það væri gætum við fagnað því að þetta væri allsherjarlausn. Ég tel að það sé engin ástæða til að rífast lengur um Héðinsfjarðargöng, þau koma, en menn verða auðvitað að halda áfram og borga allan brúsann.