131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Siglufjarðarvegur.

777. mál
[12:43]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (F):

Herra forseti. Það kom mjög skýrt fram hjá hæstv. ráðherra að hann telur ekki þörf á að hafa áhyggjur af þessum vegi. Það er út af fyrir sig svar. Ég vil þó benda á það sem fram kemur í skýrslu Vegagerðarinnar um veginn, að þeir telja að mikil hætta sé á því að stór stykki geti sigið eða hlaupið fram úr veginum og vegurinn orðið ófær eða ónýtur. Það er mér ekki nóg að hæstv. ráðherra vísi þessu á bug með því að að segja að hann telji að þetta muni ekki gerast. Það verður að leggja fram einhver ný gögn í málinu sem breyta niðurstöðum sérfræðinganna sem gerðu úttekt á málinu.

Gefum okkur að frekari rannsóknir hafi verið gerðar og menn hafi komist að þeirri niðurstöðu að það sé engin hætta þarna á ferðum. Þá liggur fyrir að menn eru að ráðast í vegagerð til að tengja Siglufjörð við Eyjafjörð án þess nauðsyn sé á að bæta samgöngur við staðinn, vegna þess að þær eru þá taldar fullkomnar og fullnægjandi. Menn eru þá að setja 7–9 milljarða kr. í framkvæmd, auk kostnaðar við að tvöfalda Ólafsfjarðargöng til að koma nýrri tengingu við stað sem er í fullkominni tengingu fyrir. Menn verða að hafa það í huga.

Hitt getur líka verið að menn séu bara að segja eitthvað annað núna, en síðar þegar Héðinsfjarðargöng verða komin fyrir vind muni það verða sett fram sem krafa strax og hitt er komið svo langt að það verði ekki aftur snúið og sagt: Vegurinn um Almenning er þannig að það er ekki hægt að búa við það, við verðum að fá göng við Fljót. Það gæti nefnilega verið að hv. þm. Kristján L. Möller yrði fyrsti maður til að bera fram þá kröfu og kannski ekki að ástæðulausu að ég nefni hann sérstaklega í því samhengi.