131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Hreinsun stranda og hafnarsvæða af skipsflökum.

752. mál
[12:47]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég átti orðastað við fyrrverandi umhverfisráðherra um sama mál fyrir rúmu ári síðan. Þá kom fram að til stæði að vinna að þessu máli varðandi óreiðuskip í höfnum. Það kom í ljós hjá umhverfisnefnd Hafnasambands sveitarfélaga sem hafði gert könnun á langlegu- og reiðileysisskipum í höfnum á Íslandi að á þeim tíma lá 161 skip að brúttóþyngd tæp 37 þúsund tonn, ónotað, ónýtt eða úrelt í höfnum landsins. Það má ljóst vera að það er æðikostnaðarsamt fyrir hafnir sem hafa eytt miklu fjármagni í gerð hafna og viðlegu fyrir fiskiskip að liggja svo uppi með svo stóran flota í óreiðu sem raun ber vitni.

Auðvitað vakna spurningar í þessu sambandi. Hvernig má vera að slíkur floti óreiðuskipa safnast í höfnum? Hver er ábyrgð útgerðar? Hvers vegna eru hafnir ekki betur vakandi og gera auknar kröfur um að svona skip séu fjarlægð? Kannski gefur lagalega umhverfið ekki tilefni til þess að ganga að útgerðum sem eiga þessi skip og kemur þá margt til greina, t.d. að útgerðin sé ekki lengur til en hafi skilið skipið eftir í reiðileysi í viðkomandi höfn.

Af þessu, virðulegi forseti, hefur sprottið fram í mínum huga spurning til hæstv. umhverfisráðherra um hreinsun stranda og hafnarsvæða af skipsflökum og skipum í óreiðu. Það hefur líka komið fram að allmörg skipsflök eru við fjörur landsins og hefur verið af þeim hin mesta óprýði.

Þess vegna hef ég lagt fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra:

1. Hvað líður áætlun um hreinsun stranda og hafnarsvæða af skipsflökum og skipum í óreiðu og kostnað sem af því leiðir sem gera skal samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I í lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004?

2. Hvað má ætla að um mörg skip sé að ræða og hver er heildarbrúttóþyngd þeirra í höfnum á Íslandi?

3. Hvað má ætla að séu mörg skipsflök við strendur landsins sem þarf að fjarlægja?