131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Hreinsun stranda og hafnarsvæða af skipsflökum.

752. mál
[12:50]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Í ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda, segir, með leyfi forseta:

„Umhverfisráðherra skal í samvinnu við Umhverfisstofnun, samgönguráðherra, Hafnasamband sveitarfélaga og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga gera áætlun um hreinsun stranda og hafnarsvæða af skipsflökum og skipum í óreiðu og kostnað sem af því leiðir. Skal sú áætlun liggja fyrir eigi síðar en 1. júlí 2005 og koma til framkvæmda eigi síðar en 1. janúar 2006. Hreinsun skal lokið fyrir árslok 2008.“

Umhverfisráðuneytið fól starfshópi, samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í sömu lögum og ætlað er að undirbúa gildistöku laganna, að annast málið. Á vegum starfshópsins sem samanstendur af fulltrúum umhverfisráðuneytis, samgönguráðuneytis, Umhverfisstofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins hefur verið unnið að frekari undirbúningi málsins. Ljóst er að skilgreina þarf hvað átt er við með skipsflökum og skipum í óreiðu í skilningi laganna. Markmið laganna er að vernda haf og strendur gegn mengun og athöfnum sem stofnað geta heilbrigði manna í hættu, skaðað lifandi auðlindir hafs og raskað lífríki þess, spillt umhverfinu eða hindrað lögmæta nýtingu hafs og stranda, samanber nánar 1. gr. laga nr. 33/2004. Þess vegna þarf að skilgreina hugtakið út frá markmiðum laganna, þ.e. að um sé að ræða skipsflök og skip í óreiðu við strendur landsins og á hafnarsvæðum, út frá þeirri hættu sem hafi og ströndum getur stafað af þeim með hliðsjón af mengun. Sem stendur er unnið að skilgreiningu hugtaksins og jafnframt skiptingu skipa í óreiðu í flokka eftir stærð. Enn fremur þarf að lista nákvæmlega hvaða skip geta valdið mengun hafs og stranda innan hafna annars vegar og á ströndum hins vegar. Ljóst er að hafi og ströndum stafar ekki mengunarhætta af öllum skipum sem liggja bundin í höfnum eða eru strönduð. Viðbúið er að setja þurfi nákvæmari ákvæði í hafnalög til þess að takast á við þetta vandamál með skip í óreiðu í höfnum. Eins og ég hef þegar sagt er litið svo á samkvæmt lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda að þar sé átt við skip í óreiðu eða skipsflök sem mengunarhætta stafar af, en Siglingastofnun skilgreinir skip sem fara ekki aftur á sjó eða hafa ekki verið í rekstri í fimm ár og eru afskráð sem afmáð skip. Þessar skilgreiningar fara ekki saman og því er nauðsynlegt að skilgreining samkvæmt lögum nr. 33/2004 liggi skýr fyrir áður en hægt er að gera áætlun um hreinsun stranda og hafnarsvæða og leggja mat á kostnað við verkið.

Ætla má að fjöldi skipa sem falla undir skilgreiningu Siglingastofnunar, þ.e. afmáð skip, sé rúmlega 100 og heildarbrúttóþyngd þeirra sé rúmlega 20 þúsund brúttótonn. Í þessari tölu er þó að finna skip sem greidd eru hafnargjöld af í dag án þess að þau fari á sjó og óvíst er að fari nokkurn tíma á sjó aftur.

Samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar liggja við landið 30–40 skipsflök. Í sumum tilvikum kann að vera að meiri hætti stafi af því að fjarlægja skip en að láta það liggja kyrrt enda er gert ráð fyrir því í 20. gr. laga nr. 33/2004 að sé talið ill- eða ógerlegt að fjarlægja strandað eða sokkið skip sé heimilt að leggja fram beiðni til Umhverfisstofnunar um að það skuli liggja óhreyft þar sem það er. Þá skal fylgja áhættumat þar sem gerð er grein fyrir umhverfislegum ávinningi ásamt kostnaði við að fjarlægja hið sokkna skip.

Það er því ekki fyllilega ljóst sem stendur hversu mörg skipsflök við strendur landsins er nauðsynlegt að fjarlægja. Áðurnefndur starfshópur mun gera tillögu til umhverfisráðuneytisins um þann þátt um leið og tillaga kemur fram um óreiðuskip í höfnum eins og ég hef raunar þegar getið um.