131. löggjafarþing — 123. fundur,  4. maí 2005.

Fjárframlög til Mannréttindaskrifstofu Íslands.

[13:43]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Í fyrsta lagi væri fróðlegt að heyra hæstv. forsætisráðherra útskýra þá nýju hefð í stjórnarframkvæmd að forsætisráðherra víki sér undan að svara fyrir mál sem falla undir mörg ráðuneyti. Ég hélt að það væri órofa hefð í Stjórnarráði Íslands að ef mál varðaði fleiri en eitt ráðuneyti, ef skera þyrfti úr deilum milli ráðuneyta eða viðfangsefnin lægju þannig að þau vörðuðu málin almennt í Stjórnarráðinu væri það forsætisráðherra Íslands sem svaraði fyrir ríkisstjórnina. Er hæstv. forsætisráðherra búinn að segja af sér a.m.k. í þessu máli? Hvað veldur hinni óskaplegu hlédrægni hæstv. forsætisráðherra og feimni þegar kemur að þessu máli? Það skyldi ekki vera hinn vondi málstaður ríkisstjórnarinnar og að kjarkur hæstv. forsætisráðherra sé ekki meiri en svo að hann kjósi að fara í felur og þori hvorki að tala við fréttamenn um málið né svara fyrir það á Alþingi.

Varðandi ummæli hæstv. utanríkisráðherra um að það geti vel verið að Mannréttindaskrifstofa hafi unnið ágætt starf en hann þekki ekki dæmi þess, þá hvet ég hæstv. utanríkisráðherra til að ræða við sessunaut sinn, hæstv. forsætisráðherra og fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, sem hefur á alþjóðavettvangi hrósað sér af stuðningi við einmitt Mannréttindaskrifstofu Íslands. Ríkisstjórn Íslands sem þá var undir forustu hæstv. utanríkisráðherra Davíðs Oddssonar taldi sér það sérstaklega til tekna í skýrslugerð til eftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi að hér væri stutt myndarlega við bakið á Mannréttindaskrifstofu Íslands, samræmingaraðila á sviði mannréttindabaráttu, fulltrúa Íslands í norrænu samstarfi á sviði mannréttindamála, fulltrúa Íslands í samskiptum við Sameinuðu þjóðirnar á sviði mannréttindamála.

Þetta er ekki bara einhver kontór úti í bæ. Þetta er hin opinbera samræmingarskrifstofa mannréttindabaráttu í landinu sem Amnesty International, Öryrkjabandalagið, UNIFEM og aðrir slíkir aðilar standa á bak við og þjóðin tekur sjálfsagt að sér að bjarga málinu og forða landinu frá þeirri hneisu sem framganga ríkisstjórnarinnar ella stefnir í að verði.