131. löggjafarþing — 123. fundur,  4. maí 2005.

Fjárframlög til Mannréttindaskrifstofu Íslands.

[13:45]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Virðulegi forseti. Vegna ummæla sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson lét frá sér fara held ég að það séu ekki ný sannindi að mannréttindasáttmálinn hafi ekki stjórnarskrárígildi hér á landi, a.m.k. mundi sérhver lögfræðingur vita að þá þyrfti að setja lögin um hann með sérstökum hætti og hafa kosningar á milli. Allir lögfræðingar mundu vita það, það fer ekkert á milli mála. Ég vona að hv. þingmaður sé ekki að afhjúpa það að þetta hafi farið fram hjá honum.

Varðandi það sem beint er hæstv. forsætisráðherra hefur umræðan verið sú hér að hæstv. dómsmálaráðherra og ég höfum gengið fram í málinu með einhverjum annarlegum hætti. Menn hafa látið að því liggja slag í slag og þess vegna er sjálfsagt að taka umræðuna um það við okkur. Maður er ekkert að biðjast undan því að fara í þá umræðu. Til þess hafa refirnir verið skornir. Ég skil hv. þm. Ögmund Jónasson svo að ég gangi hér um með olíubrúsa og helli olíu á eldinn. Þetta er ekki mikill eldur, held ég, en þetta er eitt af því sem menn ræða í þinglokin.

Ég hef líka vakið athygli á því að félag eins og Amnesty International, sem á aðild að Mannréttindaskrifstofunni, hefur lagt áherslu á að þess háttar stofnanir eigi ekki að búa við opinber framlög, að það sé meginatriði að þess háttar stofnanir búi ekki við opinber framlög. Ég held að það sé ágætisábending að slíkar stofnanir eigi ekki að búa við opinber framlög. Ég sá í ræðu 1. maí að sá ágæti lagabróðir minn, Skúli Thoroddsen, lýsti því yfir fyrir hönd einhverra, ég man ekki hverra, að þeir hygðust sjá um þessa ágætu skrifstofu af sinni hálfu þar til Steingrímur J. Sigfússon og þeir tækju við stjórnartaumunum í landinu. (SJS: Sem verður fljótlega.) Sem verður víst fljótlega, heyrist kallað hér.