131. löggjafarþing — 123. fundur,  4. maí 2005.

Stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegs.

583. mál
[14:06]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég gat ekki heyrt á andsvarinu hvort hv. formaður sjávarútvegsnefndar teldi eðlilegt að gera þetta svona. Ef hann telur það þætti mér vænt um að hann færi í seinna andsvari sínu aðeins yfir það hvað réttlætir það.

Annað sem ég velti fyrir mér og við veltum fyrir okkur í nefndinni er að í þessu frumvarpi er fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins með umsögn eins og venjulega um frumvörp. Þar kemur fram að eigið fé sjóðsins sé 150 millj. kr. en nefndarmenn hafa einnig undir höndum ársreikning þessa sjóðs frá síðasta ári og þar kemur fram að eigið fé sjóðsins sé liðlega 88 millj. kr. Munar þarna tæpum helming. Auðvitað hefur maður kynnst því í fjárlagagerðinni að oft og tíðum geti munað talsvert miklu á tölum sem koma frá fjármálaráðuneytinu en það er þó ansi mikill munur að í ársreikningi standi að eigið fé sjóðsins sé 88 milljónir en í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að það sé 150 milljónir. Þetta er of mikill munur til að hægt sé að halda að þarna sé bara einhver kommu- og punktamunur. Mig langar að biðja hv. formann að gera okkur grein fyrir því hvort hann viti í hverju þetta liggur.

Ég á eftir ræðu á eftir í sambandi við þetta og tel fulla ástæðu til að ræða málið aðeins nánar. Þó að margir haldi og líti kannski þannig til við 2. umr. að þetta sé ekki stórmál er ýmislegt í þessu sem þarf að hyggja að og margar spurningar vakna þegar þetta er lesið yfir. Vonast ég til að fá svör við þeim við umræðuna.