131. löggjafarþing — 123. fundur,  4. maí 2005.

Stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegs.

583. mál
[14:54]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Hjörleifssyni fyrir að segja það hér að við munum fyrir þinglok fara yfir umsagnir um þingmannamál sem komið hafa til sjávarútvegsnefndar. Ég fagna því að það skuli gert. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður getur upplýst okkur um það í umræðunni fyrst hún fer inn á þessar brautir hvort við getum vænst þess að þingmannamálin verði afgreidd út úr nefndinni þannig að hægt sé að taka þau fyrir jafnvel fyrir þinglok. Eitt þingmannamál hefur verið afgreitt út úr sjávarútvegsnefnd eftir því sem ég best veit á þeim tíma, fyrsta þingmannamálið á þessu þingi. Er það kannski til marks um að það er góður vilji hjá formanni sjávarútvegsnefndar til að þingmannamál sem inn koma hljóti vandaða umfjöllun og sofni ekki eða stoppi í nefndinni, eins og virðist vera regla hjá okkur á þingi með þingmannamál, hvort sem þau koma frá stjórnarandstöðuþingmönnum eða stjórnarþingmönnum. Þykir mér það ansi mikil linka hjá stjórnarþingmönnum mörgum sem leggja fram þingmál í upphafi þings og koma því jafnvel á dagskrá og til nefndar að láta sér það lynda að þau liggi þar heilt þing án þess að vera afgreidd út úr nefndinni og aftur inn til þingsins.

Eins og kom fram í máli hv. þingmanns ganga ríkisstjórnarfrumvörp fyrir. Það er ekkert að gera í þinginu meðan ekki er búið að hrúga inn neinum frumvörpum frá ríkisstjórninni. Við sitjum þá aðgerðalaus í nefndum oft og tíðum en síðan þegar þau loksins koma er slegið í klárinn og gert það sem verið er að gera þessa dagana. Þetta eru einmitt þeir dagar sem mestu mistökin verða við lagasetningu. Ég átta mig ekkert á því af hverju er svona knýjandi þörf til að fara að breyta lögum um þessa síldarútvegsnefnd á síðustu dögum þingsins þegar allt er upp í loft og mikil hætta á því að menn geri einhver mistök í tímapressu. Ég tel enga þörf á því að afgreiða þetta mál.