131. löggjafarþing — 123. fundur,  4. maí 2005.

Stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegs.

583. mál
[16:51]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við erum að ræða mikilsverð mál, mál sem tengjast breytingu á fyrirkomulagi sjóðs sem var stofnaður þegar síldarútvegsnefnd var lögð niður. Mér finnst að það þurfi að koma fram í umræðunni að verið er að breyta hlutverki sjóðsins, verið að breyta hlutverkinu mjög mikið. Það er verið að fara í að breyta því þannig að það eigi að styrkja nýsköpun, fara í rannsóknir og fræðslu- og kynningarstarf.

Það er hægt að ganga að því vísu að þegar verið er að ræða sjávarútvegsmál er enginn framsóknarmaður viðstaddur, og ekki einu sinni þótt verið sé að ræða mjög mikilsverð sjávarútvegsmál sem snerta nýsköpun og rannsóknir. Enginn framsóknarmaður er viðstaddur umræðuna. Það er eins og að þeir forðist þessa umræðu. Mér finnst mjög sérstakt að svo er allt annað upp á teningnum þegar á að ræða hér stórvirkjanir eða álver, þá eru allir framsóknarmenn komnir í salinn á augabragði og jafnvel varamenn líka. Þegar hins vegar á að ræða sjávarútvegsmál, nýsköpun, rannsóknir, fræðslu og eitt og annað eru þeir horfnir. Ég spyr hvort framsóknarmenn hafi engan áhuga á þessum málaflokki lengur. Að vísu hefur komið fram ítrekað að þeir vilja engu að síður framfylgja lögum í sambandi við kvótakerfið sem formaður flokksins er guðfaðir að, vilja fylgja þeim hart eftir og ganga svo hart fram að þeir hafa jafnvel gengið að eigum bænda. Mér finnst mjög mikið áhyggjuefni fyrir flokkinn að geta gengið fram með þeim hætti að eira engu, eingöngu til að halda í eitthvert kerfi.

Það skiptir miklu máli að fara vel yfir þetta frumvarp. Ekki verður annað séð en að gerð hafi verið mikil mistök við framlagningu þess vegna þess að í því kemur fram að eigið fé sjóðsins sem á að breyta sé 150 millj. kr. Þegar betur er að gáð og farið í samþykktir sjóðsins kemur fram að eigið fé er eingöngu 80 millj. kr. Það sem er einnig merkilegt og er vert að fara yfir er að þegar frumvarpið var sent út var það með villandi upplýsingum. Það er auðvitað áhyggjuefni að þeir sem hafa veitt umsagnir, svo sem Landssamband smábátaeigenda, hafa veitt umsögn um frumvarp sem er ekki rétt. Mér finnst sanngjarnt að formaður sjávarútvegsnefndar sendi frumvarpið út á ný með réttum upplýsingum þannig að menn séu ekki látnir koma með umsagnir um eitthvað sem stenst ekki. Mér finnst það ekki vera rétt. Menn eiga að vanda betur til verka.

Það sem ég óska eftir áður en hlutverki sjóðsins verður breytt er að menn geri aðeins betur grein fyrir sjóðnum, fyrir þeim verkefnum sem sjóðurinn hefur staðið í. Ég hef minnst á það á göngunum við formann sjávarútvegsnefndar að hann komi með upplýsingar um það hvaða verkefni þessi sjóður hefur styrkt. Að vísu hefur formaður sjávarútvegsnefndar nefnt hér eitthvað á þá leið að sjóðurinn komi honum ekki beint við. Samt sem áður er hið háa Alþingi að breyta reglum um hann og mér finnst að formaður sjávarútvegsnefndar eigi að útskýra þetta betur. Hvers vegna erum við að setja þessi lög ef hann segir að Alþingi hafi ekkert með sjóðinn að gera? Ég átta mig ekki á þessu vegna þess að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér er hlutur þess sem við erum að setja reglur um hlutur þeirra sem urðu gjaldþrota. Ríkið fer með þann eignarhluta og er að ráðstafa honum í markaðsstarf samkvæmt lögum sem nú eru í gildi. Nú er ætlunin að breyta hlutverki þess hlutar og mér finnst að formaður sjávarútvegsnefndar verði að útskýra þetta betur vegna þess að frumvarpið var sent út með villum.

Einnig tel ég rétt að formaðurinn sem hefur eflaust kynnt sér alla anga þessa máls útskýri betur fyrir okkur 8. gr. skipulagsskrár sjóðsins en þar segir að í stjórn Vöruþróunar- og markaðsöflunarsjóðs síldarútvegsins eigi sæti fjórir menn, og fjórir til vara, Félag síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi og Félag síldarsaltenda á Suður- og Vesturlandi skuli hvort um sig tilnefna tvo stjórnarmenn og tvo til vara til tveggja ára. Mér finnst að formaður sjávarútvegsnefndar eigi þá að fara yfir þennan félagsskap vegna þess að hann hefur haldið því blákalt fram að þetta komi okkur lítið við. Samt sem áður kemur hann fram með frumvarp þar sem hann vill breyta hlutverki sjóðsins. Maður áttar sig í rauninni ekki á þess konar málflutningi.

Ég er á því að þetta komi okkur við, enda væri ég varla í þessum sporum, hér í ræðustóli, að ræða þetta mál ef það kæmi okkur ekkert við. Þess vegna finnst mér eðlilegt að gerð verði grein fyrir því til hvaða verkefna þessi sjóður hefur varið fé og hver afrakstur þeirra verkefna sé. Síðan er eðlilegt að formaður sjávarútvegsnefndar geri grein fyrir því hvers vegna þurfi að víkka út starfsemi sjóðsins, hvað er það sem kallar á að þessum 80 milljónum sem eru í sjóðnum verði allt í einu varið til allt annarra verkefna? Hvað er það sem kallar á? Það hefur ekki komið fram.

Ég tel mikilsvert að við skoðum það og séum ekki með einhvern sérsjóð hér þar sem sitja, miðað við upplýsingar mínar, útvegsmenn sem eru nátengdir stórfyrirtækjum. Þeir eru Haraldur Sturlaugsson sem mér skilst að hafi setið í stjórn fyrir Granda, Pétur Hafsteinn Pálsson fyrir Vísi, Björgólfur Jóhannsson, gott ef ekki fyrir Samherja, og Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson fyrir Vinnslustöðina. Þarna eru þeir komnir með einhvern markaðssjóð og sitja í stjórn hans, gott og vel. En nú á að víkka þennan sjóð út í það að verða nýsköpunar- og rannsóknasjóður og væri gott ef formaður sjávarútvegsnefndar gerði okkur grein fyrir þeim mun sem á að verða á þessum sjóði, rannsókna- og nýsköpunarsjóði, sem er þá eingöngu fyrir þá stórútgerðarmennina sem sitja í þessum sjóði og eru með 80 milljónir, og síðan t.d. AVS-sjóðnum, Aukið virði sjávarfangs. Sá sjóður hefur einnig það hlutverk að styrkja nýsköpun og rannsóknir. Það væri mjög gott að fá yfirlit yfir það hvers vegna þessir peningar eru ekki einfaldlega settir í þann sjóð, hvers vegna þessi leið er valin. Þar sitja einnig ágætir útvegsmenn. Hvers vegna menn eru með einn mínísjóð þarna og svo annan stærri, Aukið virði sjávarfangs, fær maður ekkert fram hér í umræðunni. Mér finnst það vera mikilsvert mál og mjög mikilvægt líka upp á það að vel sé farið með þessa fjármuni svo að þeir gagnist einmitt til nýsköpunar og rannsókna. Þegar verið er að setja fé í þessi verkefni má það ekki vera einhver klúbbur manna sem gerir það, heldur eiga verkefnin að vera valin til að skapa þjóðinni auð og þekkingu í framtíðinni.

Auðvitað vekur þetta upp margar spurningar, einnig um fræðsluna sem þetta á að fara í og kynningarstarf. Nú höfum við stofnanir og söfn og eitt og annað. Siglufjörður hefur verið nefndur hér og þar er síldarminjasafn, mjög merkilegt. Mér finnst að þá ætti skoða og fara vel ofan í það hvort e.t.v. mætti leysa þennan sjóð upp og veita fjármunina beint í Síldarminjasafnið. Fyrst við erum að ræða um það er eðlilegt að minnast hér á ákveðið atvik sem varð ekki alls fyrir löngu, fyrir rúmu ári, sem sýnir kannski hvernig fyrir þessum atvinnuvegi er komið. Safnstjórinn sótti um að veiða eitt tonn af síld og fékk ekki leyfi. Þá var kerfið svo heilagt hjá kvótaflokkunum að blátt bann var lagt við því, þó var (Gripið fram í: Vaðandi.) vaðandi síld alveg upp að bryggju safnsins. Mér fannst það mjög merkilegt og sérstakt og sýna í rauninni öngstræti þessa kerfis. Ef menn væru samkvæmir sjálfum sér og væru með fræðslu- og kynningarstarf gæti mögulega eitt verkefnið verið einhvers konar styrkur til kvótaleigu fyrir Síldarminjasafnið. Það væri þá eftir öðru í þessu vitlausa kvótakerfi og -stjórn Sjálfstæðisflokksins sem hefur engu skilað. Það hefur verið farið yfir það hér að þetta kerfi hefur verið kynnt með opinberum fjármunum en ekki hafa fengist upplýsingar um hve miklum fjármunum hefur verið varið til kynningarstarfsins. Þó hefur verið spurt um það hér á þingi en þetta virðist vera eitthvert laumuspil. Þá væri fróðlegt að fá að heyra hjá formanni sjávarútvegsnefndar hvort hann sjái fyrir sér að fjármunir úr þessum sjóði fari til kynningarstarfs á kerfi sem hefur ekki neinu skilað.

Við höfum farið hér lítillega yfir það að frá því að þetta kerfi var tekið upp er þorskafli orðinn helmingi minni en fyrir daga þess. Það sést glöggt ef maður lítur aftur í tímann til þeirra ára sem það hefur verið við lýði. Samt nota menn opinbera fjármuni til að fara í kynningarstarf og jafnvel er gefið til kynna hér með nýju frumvarpi að það eigi að fara í enn frekara kynningarstarf. Mér finnst það vera áhyggjuefni og ég er ekki tilbúinn að standa að samþykkt slíks frumvarps. Það finnst mér að þurfi að komast á hreint áður en atkvæði verða greidd um frumvarpið, þ.e. að menn ætli ekki að fara að kynna þessa vitleysu. Mér fyndist það illa gert gagnvart öðrum þjóðum.

Ef menn líta t.d. eingöngu á þau ár sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið um stjórnartaumana í sjávarútvegsráðuneytinu er árangurinn hræðilegur. Mér finnst vert, fyrst ég hef formann sjávarútvegsnefndar í salnum, að fara lítillega yfir það. Á þeim árum hefur aflinn aldrei verið minni frá því að Íslendingar öðluðust fullveldi. Ef maður tekur tólf ára tímabil aftur í tímann og skoðar árangurinn er hann réttnefnt árangursleysi. Það sem er mest sláandi er að á því tólf ára tímabili sem seinni heimsstyrjöldin fellur inn í og miðin voru friðuð af þýskum kafbátum var árangurinn meiri. Mér finnst þetta vera áhyggjuefni. Maður spyr sig í framhaldi af því, þegar á að fara í rannsóknastarf sem kemur hér fram með þessa fjármuni, hvort þetta sé örvænting, að nú eigi að nota þessa fjármuni til að fá aðra að rannsóknastarfinu en þá sem hafa verið með ráðgjöfina hingað til. Það væri fróðlegt ef hv. formaður sjávarútvegsnefndar greindi frá því hvort sú sé kannski hugmyndin með útvíkkun sjóðsins.

Uppi hafa verið gagnrýnisraddir, m.a. hefur fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Kristinn Pétursson á Bakkafirði, gagnrýnt þetta ráðslag og skrifað merkar greinar sem hefur oftar en ekki verið látið ósvarað. Ætla menn nú að laumast til þess að nota þessa fjármuni til að kanna kenningar hans — eða þá að skoða og rannsaka hvort rétt sé að ráða t.d. merkan fiskifræðing, Jón Kristjánsson, sem er einn helsti ráðgjafi Færeyinga hvað varðar fiskveiðistjórn? Þar hafa Færeyingar náð árangri en því miður hafa menn ekki viljað hlýða á ráð hans hér og ekki einu sinni viljað skoða hvort hann hafi rétt eða rangt fyrir sér. Menn reyna að þegja þetta í hel. Ætla menn að nota þessa fjármuni til að skoða rannsóknir hans? Mér finnst að það þurfi að koma fram. Þá gæti ég samþykkt þetta frumvarp, þ.e. ef menn ætluðu að fara í rannsóknastarf og skoða nýjar leiðir. En mér finnst að það þurfi að koma betur fram í greinargerðinni hvað menn ætla að gera með þessa fjármuni og einnig þarf auðvitað að koma fram hvað menn hafa gert við þennan sjóð hingað til og hver árangurinn hefur verið af þeim fjármunum sem hafa verið veittir úr sjóðnum, hverju þeir hafa skilað landi og þjóð.

Ef skoðum aðra sjóði, t.d. AVS-sjóðinn, er mjög til fyrirmyndar hvernig þeir gera grein fyrir þeim fjármunum sem þeir hafa veitt í verkefni. Mér finnst það vera réttlát krafa að ef menn eru að veita til rannsóknastarfs eða kynningarstarfs reyni þeir að einhverju leyti að meta árangurinn og skila þá inn skýrslum hvað það varðar.

Vonandi fáum við nánari upplýsingar um þetta hér í umræðunni. Ég tel það mikilsvert þannig að við látum ekki þetta frumvarp fara í gegn, sérstaklega vegna þess að hér er um nýsköpunar- og rannsóknastarf að ræða sem er mjög mikilvægt að efla. Það sem ég hef oft bent á og jafnvel skrifað grein um er að mér finnst mjög mikilvægt þegar menn eru að veita fjármuni í rannsóknir og nýsköpun að þeir veiti ekki bara peningana eitthvað og eitthvað. Ég hef trú á heiðarlegri samkeppni, ekki eingöngu á sviði viðskipta heldur einnig á sviði hugmynda. Ef menn hafa góðar hugmyndir fram að færa og einhverjar hugmyndir að rannsóknum eiga þeir að geta sett þær í eitthvert gagnrýnið ferli þar sem hugmyndirnar eru metnar og vegnar. Það eru kallaðir samkeppnissjóðir um rannsóknir og það skiptir verulegu máli að við séum ekki að króa peninga af í þessum sjóðum, 80 milljónir í þessum og einhverjar aðrar milljónir í AVS-sjóðnum, heldur að menn reyni frekar að taka mið af gagnrýni. Þannig verða hugmyndir að rannsóknum vegnar og metnar á vísindalegum forsendum en ekki eingöngu á því hvað fjórum forstjórum finnst um hugmyndirnar. Einnig verður að vera eitthvert aðhald, að menn skili skýrslum sem sýni fram á árangurinn.

Eins og áður segir skiptir mjög miklu máli að fá fram hvaða verkefni hafa verið unnin, hverju þau hafa skilað og hverjir fá fjármunina þannig að það sé hægt að vega og meta hvort það eigi að breyta hlutverki sjóðsins. Við megum ekki samþykkja hér breytingu á sjóðnum án þess að vita hvort það sé skynsamlegt. Mér finnst það vera skynsamleg og mjög eðlileg krafa sem ég vona að hv. formaður sjávarútvegsnefndar taki undir, og ef hann hefur ekki þessar upplýsingar undir höndum óska ég þess að hann afli sér þeirra, komi svo í umræðuna á ný og veiti okkur þær upplýsingar til að við getum staðið með honum að samþykkt frumvarpsins.

Ef ekki er hægt að fá þessar upplýsingar verður einfaldlega að fresta málinu. Það liggur ekkert á þessu — nema þá að eitthvað sé svo aðkallandi. Til dæmis hefur það nú komið fram, sem við eigum vonandi eftir að ræða, að það er ákveðið uppnám varðandi uppbyggingu þorskstofnsins og kannski á að leggja alla fjármunina í að reyna að fá betri vitneskju um hvernig menn ætli að bjarga því sem bjargað verður þar. Ég vonast til þess að hv. formaður sjávarútvegsnefndar upplýsi okkur hér um afstöðu sína til þeirra mála sem ég hef spurt hann um.