131. löggjafarþing — 123. fundur,  4. maí 2005.

Stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegs.

583. mál
[17:18]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var fróðlegt andsvar. Lítur hv. formaður sjávarútvegsnefndar virkilega á þá sem eru í stjórn sjóðsins sem eigendur fjárins? Það var ekki annað að heyra. (GHj: Fulltrúar …) Það er bara ekki svo. Þeir eru ekki þarna sem eigendur fjárins eða fulltrúar eigenda. Ef svo væri hefðum við ekkert að gera með þetta, þá væri þetta bara sjálfstætt félag sem við værum ekkert að skipta okkur af. En það er ekki svo.

Ég átta mig í rauninni ekki á því hvað hv. formaður sjávarútvegsnefndar er að tala um í þessu máli og ég vonast til þess að hann komi með þær upplýsingar sem beðið hefur verið um í umræðunni. Í hvað hefur fjármununum verið varið og hver er afrakstur þeirra fjármuna? Hverju hafa þeir skilað?