131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Geðlyfjanotkun barna.

[10:36]

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er mjög athyglisvert svar sem kemur frá hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur og það sýnir að mjög brýnt er að taka heildstætt á þessum málum.

Á hvaða leið erum við? spyr maður sig þegar maður les þetta svar. Það er óhugnanlegt að lesa það, það er hreinlega óhugnanlegt. Í Tímariti Morgunblaðsins um síðustu helgi var grein um serótónín-sprenginguna. Þar kemur fram að á undanförnum 15 árum hafi notkun á serótónín-geðdeyfðarlyfjum margfaldast jafnt og þétt og það eru ótrúlegar tölur sem maður les hér. Samkvæmt tölum frá Lyfjastofu lyfjamála heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis hefur dagskömmtum SSRI-lyfja á hverja þúsund íbúa hér á landi fjölgað úr 0,96 í 61,86 frá árinu 1989 til 2004. Söluverðmæti umræddra lyfja, reiknað á verðlagi hvers árs, hefur aukist úr 17,5 milljónum á þessum sömu árum í 779 milljónir árið 2004. Er nema von að maður spyrji: Á hvaða leið erum við? Er ekki hægt að leita einhverra annarra leiða en að setja þjóðina nánast alla á geðdeyfðarlyf?