131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Geðlyfjanotkun barna.

[10:42]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka viðbrögðin við þessu máli. Ég er sannfærð um að ástæðurnar eru margar en það þarf að skoða þetta heildstætt, aðstæður barna, skólann, heilbrigðiskerfið o.s.frv.

Ég vitnaði í fjölskylduráðgjafa áðan. Hún bendir á í grein sinni í Morgunblaðinu að hún þekki að ávísað hafi verið eftir 10 mínútna samtal við geðlækni eða eftir greiningu í gegnum síma. Þá er náttúrlega ekki að furða þótt lyfjanotkun fari úr böndunum. Það þarf margar leiðir, það þarf sálfræðiþjónustu, það þarf að bjóða upp á fjölskyldumeðferð o.s.frv.

Ég velti því fyrir mér hvort það geti haft einhver áhrif að um það leyti sem rítalín- og geðlyfjanotkunin jókst eins og kemur fram í svarinu til mín hætti landlæknisembættið að krefjast þess að læknar þyrftu að sækja um það til embættisins að fá að ávísa rítalíni fyrir þá sjúklinga sem þyrftu á því að halda. Ég vil beina því til hæstv. ráðherra hvort ekki þurfi að koma á slíku eftirliti að nýju þannig að þessar ávísanir fari í gegnum landlæknisembættið eins og var fyrir nokkrum árum en þá fór aðstoðarlandlæknir yfir þær allar.

Ég vil líka benda á kennarana. Ég fékk bréf frá kennara sem sagði mér að það væri með ólíkindum hvað lítið þyrfti til til þess að börn væru sett á rítalín og áþekk lyf og „þau börn sem ég starfa með,“ sagði hún, „og eru á lyfjum eru oft og tíðum dofin og ekki eins virk og börn ættu að vera í skólanum. Ég er grunnskólakennari og þekki málið af eigin raun og hef menntað mig í Davis-námstækni, sem er aðferð sem nýtist þessum börnum mjög vel.“ — Þarna er t.d. ein leið.

Sömuleiðis hef ég fengið nokkur bréf frá foreldrum sem benda á það að börnin þeirra hafi misst matarlystina og endað með því að vera komin á 3–4 geðlyf þegar þau eru að ljúka grunnskólanum. Þau hættu með börnin á lyfjunum og hafa þurft að borga 6.500 kr. fyrir sálfræðiþjónustu. (Forseti hringir.) Þetta þurfum við auðvitað að skoða líka því að þetta er ekki boðlegt í okkar góða samfélagi.