131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Geðlyfjanotkun barna.

[10:45]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég get tekið undir það sem hv. þingmaður segir og ég deili áhyggjum hennar af þessari þróun.

Fyrst vil ég samt taka það fram að lyf geta að sjálfsögðu verið nauðsynleg í mörgum tilfellum. En ég vildi beina því til fólks að vera almennt á verði í þessum efnum. Ég mun láta, í gegnum þær leiðir sem ráðuneytið hefur, láta skoða þessi mál, eins og ég hef takið fram í skriflegu svari sem hér liggur fyrir.

Ég get tekið undir áhyggjur hv. þingmanna af hraða og annríki nútímasamfélags. Ég held að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hafi lög að mæla þegar hann talar um þá hluti, að það sé ein af ástæðunum. Ég get líka upplýst það að við höfum haft áform um það í ráðuneytinu að nota okkar ramma til þess að efla sálfræðiþjónustu í gegnum heilsugæsluna. Við höfum látið það ganga fyrir og höfum eflt þann þátt eftir því sem við höfum haft fjárhagsramma til. Ég tel að það sé nauðsynlegt og sálfræðiþjónustan sé nauðsynlegur þáttur. Ég tel að landlæknisembættið hafi núna tæki í höndunum til að fylgjast með því hvort eitthvað óeðlilegt sé á seyði varðandi ávísanir frá einstöku aðilum. Ég vil ekkert um það segja á þessu stigi en við höfum tækin til að skoða það.

Að öðru leyti deili ég auðvitað áhyggjum með hv. þingmönnum af þeirri þróun sem hér hefur verið rætt um. (Forseti hringir.) Við munum skoða grannt hvernig við verður brugðist.