131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[10:49]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þetta frumvarp um breytingu á búnaðarlögum sem hér er komið til 2. umr. felur í sér, eins og hv. framsögumaður landbúnaðarnefndar og formaður, Drífa Hjartardóttir, hefur greint frá, að afnema skuli gjald sem hefur verið lagt á alla innvegna mjólk í mjólkursamlögum sem hefur staðið undir eða verið stór hluti af stofn- og rekstrarkostnaði í kynbótastarfi í nautgriparækt og mjólkurframleiðslu, í því félagslega starfi sem þar hefur verið unnið.

Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið var þessu breytt í síðustu samningum milli ríkisins og mjólkurframleiðenda og framlag til kynbótastarfs í nautgriparækt er breytt með beinum hætti með þeim samningi og þess vegna er þetta gjald fellt niður.

En í greinargerðinni með frumvarpinu segir:

„Í nýjum samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu sem tekur gildi 1. september 2005 er gert ráð fyrir því að ákveðnum fjármunum sé ráðstafað til kynbóta- og þróunarverkefna í nautgriparækt.“

Þó að ég styðji það sem hér er lagt til vil ég þó undirstrika mikilvægi hins félagslega starfs sem mjólkurframleiðendur og nautgriparæktendur hafa staðið að um áratugi. Þar hafa allir lagt sitt af mörkum og er ekki síst þeirri miklu samstöðu bænda að þakka að náðst hafa gríðarlegar framfarir í mjólkurframleiðslu hér á landi, að íslenska kúakynið er fyllilega samkeppnisfært við önnur mjólkurkúakyn erlendis. Þetta kynbótastarf hefur ásamt öðru skilað sér í því að nú hafa verið lagðar á hilluna, vonandi um alla framtíð, hugmyndir um að flytja inn erlend mjólkurkúakyn. Mér finnst rétt að þetta komi fram í þessari umræðu, sú mikla samstaða bænda sem hefur verið um kynbótastarfið og það að þeir hafa samþykkt að ákveðið gjald væri lagt á hvern innveginn lítra mjólkur til að standa undir og styrkja og það starf.

Ég vil líka undirstrika, þó að hér sé lagt að þetta mjólkurgjald sé fellt niður, að ég legg ríka áherslu á að kynbótastarf í mjólkurframleiðslu og nautgriparækt er félagslegt starf sem allir þurfa að taka þátt í til að árangur náist. Þar hafa allir hag af. Ég legg áherslu á að það félagslega starf verði ekki veikt. Núna mun þetta færast yfir í samning við ríkið. Áður báru mjólkurframleiðendur sjálfir ábyrgð á þessu í gegnum gjaldtökuna. Ég dreg í efa að þetta sé rétt ráðstöfun. Samningar við ríkið eru jú bara tímabundnir. Með þessu er opnað fyrir að hægt sé að taka einstök gjöld, staðbundin gjöld fyrir þessa starfsemi. Það segir í lokamálsgreininni, sem ég vil setja vissa varnagla við:

„Þá er jafnframt talið eðlilegt að þeir sem nýta sér þjónustu búnaðarsambanda greiði í auknum mæli beint fyrir veitta þjónustu.“

Í þeirri þjónustu, sem felst í kynbótastarfinu og því að sæðingar á kúm hafi verið framkvæmdar af sæðingarmönnum, hefur kostnaðurinn verið jafn hvar sem félagsmenn eða bændur hafa búið. Þetta hefur verið hornsteinn þess að hið félagslega átak í kynbótastarfinu hefur virkað, að einstök bú væru ekki látin gjalda fjarlægðar frá sæðingarstöð eða þeim stað þar sem kynbótasæðinu er dreift frá. Þess vegna vil ég setja varnagla við áðurnefnda málsgrein í athugasemdunum, herra forseti, þar sem segir að talið sé eðlilegt að þeir sem nýta sér þjónustu búnaðarsambanda greiði í auknum mæli beint fyrir veitta þjónustu. Ég tel þessa grein varhugaverða.

Kynbótastarf gengur ekki nema allir geti starfað á jafnréttisgrunni og séu ekki dregnir í dilka eftir því hverjir teljast hagkvæmir eða óhagkvæmir í því starfi. Ég legg áherslu á að áfram verði unnið á þeim félagslega grunni að bændum og einstökum búum verði ekki mismunað, t.d. eftir staðsetningu eða öðru því sem menn mismuna eftir.

Þetta gjald, sem bændur ákváðu sjálfir að leggja á mjólkurframleiðsluna á félagslegan hátt, 1,7% af afurðastöðvaverði mjólkur, tryggði að verkefnið væri með félagslegum hætti á ábyrgð og í framkvæmd bænda. Núna er verið að breyta þessu þannig að þetta verði hluti af samningum við mjólkurframleiðendur um starfsskilyrði, veitt ákveðnu óskiptu fé til kynbóta og þróunarverkefna í nautgriparækt. Því verður engan veginn séð hvernig einstök bú koma út úr þeim kostnaði verði honum deilt ójafnt niður.

Þetta vildi ég láta koma fram, herra forseti, að þetta félagslega átak bænda í afurðastöðvum, í ræktunarstarfi, hvort sem það er í nautgriparækt, sauðfjárrækt, hrossarækt eða öðru, þessi félagslega samstaða og félagslegi styrkur, hefur verið burðarás og drifið þessar framfarir áfram. Þess vegna er varhugavert að gera nokkuð sem veikir þá félagslegu samstöðu, sem felur m.a. í sér að búin og bændur hafa jafnan rétt til þeirrar félagslegu þjónustu sem þeir eru aðilar að, óháð búsetu og öðrum skilyrðum. Ég vil því slá varnagla við því sem hér gæti opnast fyrir.

Ég vil einnig vekja athygli á því að þessu máli þarf að fylgja eftir. Ef þetta gengur eftir þarf að gera breytingar á öðrum lögum sem ekki fylgja með í frumvarpinu. Skoða þarf lög um virðisaukaskatt þannig að greiðslur samkvæmt hinum nýja samningi um mjólkurframleiðslu rýri ekki möguleika búnaðarsambanda og sæðingarstöðva til endurgreiðslu innskatts í rekstri sínum. Búnaðarsamband Skagfirðinga sendi einmitt landbúnaðarnefnd ábendingar um að breyta þyrfti þessum lögum til að innleiða þar ekki misrétti eða aukna skattlagningu, eingöngu vegna þessara breytinga.

Með þessu, eins og segir í ályktun Búnaðarsambands Skagfirðinga, er verið að færa ríkisstuðning milli hólfa, úr hólfinu beingreiðslur, sem eru einstaklingstengdar greiðslur undanþegnar virðisaukaskatti, yfir í almennar niðurgreiðslur á sæðingum sem njóta ekki sérstakra niðurgreiðslna. Að þessu hefði þurft að huga um leið og verið er að breyta þessum lögum og vil ég hér með nota tækifærið og vekja athygli hæstv. landbúnaðarráðherra á því að þessar breytingar þurfa að gerast jafnframt til að ekki verði um mismunun að ræða.

Herra forseti. Þessi atriði vildi ég láta koma fram. Seint verður lögð nóg áhersla á hversu gríðarlegt átak íslenskir bændur hafa gert í kynbótum á búfé sínu, nautgripum og mjólkurkúm. Það hefur verið unnið með félagslegu átaki, allir eru með og allir njóta afrakstursins af góðu starfi. Þar er það ekki þannig að einn fleyti rjómann og hinir leggi hann til. Þetta hefur m.a. leitt til þess að íslenska mjólkurkúakynið er fyllilega samkeppnisfært við það besta sem gerist í öðrum löndum. Í upphafi ferils hæstv. landbúnaðarráðherra núverandi, Guðna Ágústssonar, var einmitt tekist á um hvort flytja ætti inn erlendar mjólkurkýr og hann var á vissan hátt að hluta til hallur undir það þá, lét a.m.k. umræðuna fara býsna langt. Síðan (Gripið fram í.) voru bæði bændur og öll þjóðin sem lét sig málið varða á þeirri skoðun að við ættum að búa að okkar íslenska kúakyni og hafna innflutningi á erlendum mjólkurkúakynum. Það var ekki síst vegna þess góða starfs sem unnið hefur verið. Ég vona að sú breyting sem við erum nú að gera verði ekki til þess að veikja þetta kynbótastarf, því það þarf að halda áfram því að íslenski mjólkurkúastofninn þarf náttúrlega að vera samkeppnisfær á alþjóðavettvangi eins og hann hefur nú unnið sig upp í.

Ég vona að það komi aldrei til að sú umræða fari aftur í gang að opnað verði á innflutning á erlendum mjólkurkúm sem mundi ef leyft yrði og út í það væri farið innan tíðar útrýma íslenska mjólkurkúakyninu, sem þjóðin sýndi í umræðunni sem varð á sínum tíma að hún var algjörlega andvíg og vildi halda í okkar góða íslenska mjólkurkúakyn.

Þó að ég styðji þessa breytingu dreg ég í efa að hún sé til bóta hvað það varðar að standa vörð um félagslegan samtakamátt bænda, landbúnaðarins og kúabænda í að stunda öflugt kynbótastarf í nautgriparæktinni þar sem engin mismunun er gerð á bændum eða búum hvar sem þau eru á landinu og allt gert á félagslegum grunni. Við megum á engan hátt leggja hér til aðgerðir sem veikja það, herra forseti, heldur frekar styrkja og efla og standa bak við hinn félagslega þátt og hið félagslega starf sem landbúnaðurinn byggir einmitt styrk sinn á.