131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[11:12]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú verð ég að hæla hæstv. landbúnaðarráðherra sem hinum góða bóndasyni frá Brúnastöðum. Nú þegar ráðherrann hefur áttað sig á mikilvægu gildi íslenska kúakynsins og er vonandi fullkomlega horfinn frá því að leyfa neins konar tilraunir í því að útrýma honum eða að veikja stöðu íslensku kýrinnar með því að fara að flytja inn erlendar mjólkurkýr. Hins vegar er það svo, herra forseti, af því við erum komin í svo mjög tæknilegar umræður um mjólkurkýr, þá er hagkvæmni hvers kúakyns einmitt háð því hvað það skilar mikilli mjólk og verðmætum fyrir hverja einingu sem lögð er á móti. Það er alls ekkert víst að stóru kýrnar, sem mjólka allmiklu meira, séu hagkvæmari og skili meiri mjólk fyrir hverja einingu fóðurs eða kostnað í húsum eða öðru því um líku, alls ekki. Þannig að það sem ég er m.a. að vitna til er að íslenska kýrin er fyllilega samkeppnisfær við mjólkurkýr annars staðar í heiminum, þó að þær séu miklu stærri og mjólki jafnvel meira, miðað við þann kostnað sem lagður er til og stendur að baki hvers mjólkurlítra, því að ef þetta er stór kýr krefst hún meira viðhaldsfóðurs o.s.frv. Íslenska kýrin hefur því sýnt sig að vera fyllilega samkeppnisfær þegar metinn er kostnaður, framleiðslukostnaður á hvern lítra mjólkur, að ég tali nú ekki um gæðin sem hafa líka sýnt sig að vera sértæk og skipta máli bæði í heilbrigði og læknavísindum.