131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[11:44]

Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagði einmitt áðan að nú væru sauðfjárbændur að vinna að nýjum búvörusamningi við ríkið. Auðvitað vitum við að það eru ekki allir sem hafa það gott en flestir hafa það ágætt. Staða sauðfjárbænda er mjög misjöfn. Sem betur fer hafa flestir sauðfjárbændur sem eru með fátt fé vinnu við annað. Staðan er því misjöfn eftir því á hvern er litið.

Þar sem ég var að ræða um mjólkurframleiðendur þá er staða þeirra góð. Þar hefur orðið töluverð nýliðun, en ég tek undir að auðvitað er það áhyggjuefni ef kvótaverðið er allt of hátt, ég get hjartanlega tekið undir það. Það er gríðarlega mikil nýliðun. Það er mikil uppbygging og þessi þróun hefur verið til góðs. Menn eru að stækka bú sín og þau eru þá lífvænlegri á eftir. Ég er alveg viss um að hv. þingmaður er mér sammála um það. Þegar hann lítur á þessi myndarlegu kúabú í kjördæmi okkar á Suðurlandi getur hann örugglega ekki annað en glaðst.

Gerður var í fyrsta skipti samningur við grænmetisbændur, gengið hefur verið til samninga við þá um lækkun á raforkuverðinu, en eins og fram kom hér í vetur greiða þeir mjög hátt raforkuverð. Síðan er mjög margt gott að gerast, t.d. hafa bara breytingarnar sem gerðar voru á jarða- og ábúðarlögunum í fyrra orðið til þess að mjög margir eru að kaupa jarðir, setjast að úti í sveit og vinna við eitthvað annað en borga sína skatta og skyldur til samfélagsins. Ég tel að sú þróun sé mjög góð og það er mikið fagnaðarefni að fá nýtt blóð í sveitirnar sem kemur í staðinn fyrir og meðfram hefðbundinni framleiðslu.