131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Útflutningur hrossa.

727. mál
[14:42]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður og formaður landbúnaðarnefndar, Drífa Hjartardóttir, hefur mælt fyrir nefndaráliti landbúnaðarnefndar um frumvarp það sem hér liggur fyrir, um breytingu á lögum um útflutning hrossa. Þessi breyting felur í sér að verið er að heimila að flytja út eldri hross en áður hefur verið heimilt, þó með þeirri breytingu, áréttingu sem landbúnaðarnefnd gerir, um að hnykkja á með dýralæknisskoðun áður en þau fara úr landi.

Eins og þessi grein hljóðar fyrir þessa breytingu, frú forseti, ég ætla að lesa hér úr lögunum eins og þau standa nú áður en þessi breyting kemur inn, með leyfi forseta:

„Útflutningur á hrossum er heimill án sérstakra leyfa. Útflutningshross skulu vera á aldrinum fjögurra mánaða til fimmtán vetra. Þó má flytja úr landi eldri kynbótahross en þá einungis með flugvélum. Óheimilt er að flytja úr landi fylfullar hryssur sem gengnar eru með sjö mánuði eða lengur.“

Svona hljóða lögin eins og þau eru núna en verið er að rýmka þau þannig að flytja megi líka út eldri hross en 15 vetra þó að ekki sé um kynbótahross að ræða, en landbúnaðarnefnd hnykkir á með dýralæknisskoðun áður en það er gert.

Landbúnaðarnefnd stendur öll að þessu nefndaráliti. Hins vegar held ég að rétt sé að fara aðeins í gegnum hvers vegna verið er að setja svona varúðarreglur í lög varðandi útflutning á eldri hrossum.

Útflutningur á hrossum og aðbúnaður hrossa í flutningi og erlendis hefur oft mjög verið til umræðu og sem betur fer er stöðugt verið að bæta flutningsmöguleikana hvort sem það er með flugi eða skipi. Aðbúnaður hrossanna í flutningi hefur því stöðugt orðið betri. Þetta eru önnur þau rök sem nefndin hefur til þess að heimila að þetta sé gert.

Hins vegar hefur það líka verið mjög rík tilfinningaleg afstaða meðal hrossaeigenda að ekki eigi almennt að þvæla eldri hrossum um langar vegalengdir kaupum og sölum, t.d. til útlanda. Hross sem eru orðin eldri en 15 vetra eru jú komin á seinni hluta æviskeiðs síns og þess vegna er ekki við því að búast að þau geti verið svo mikið til reiðar mörg ár í viðbót. Hesturinn hefur sem betur fer þá stöðu meðal hrossaeigenda að það er ríkt tilfinningasamband milli manns og hests og speglast það m.a. í þessum varúðarlögum sem sett eru.

Ég tel mig tala fyrir hönd nefndarinnar allrar þegar ég segi — alla vega er ég persónulega þeirrar skoðunar — að það er alls ekki ætlunin á nokkurn hátt að gera lítið úr þessari tilfinningalegu afstöðu til hrossa, því tilfinningasambandi sem er á milli manns og hests. Það er einmitt þetta tilfinningasamband sem er þá hin rökin sem nefndin færir fyrir því að heimila þetta með ströngum skilyrðum eða eins og kom fram í gögnum til nefndarinnar, að einstaklingar sem byggju hér á Íslandi eða hefðu verið hér um langan tíma og ættu fullorðin hross og flyttu svo utan langaði þá til þess að taka hrossin sín með sér. Á þessi tilfinningalegu rök er svo sem hægt að hlýða upp að vissu marki. Hér er ekki verið að gera því skóna að það eigi að verða sérstakur atvinnuvegur eða að styrkja eigi atvinnuveginn, verslun með hross, sem slíkan með því að stunda útflutning á eldri hrossum.

Ég held að það sé rétt að gera grein fyrir umsögnum sem koma frá aðilum um þetta því þetta er greinilega heitt mál og getur verið. Þess vegna er eins gott að brýna framkvæmdarvaldið sem fylgir lögunum eftir um að sýna mikla aðgát og varúð. Á það hefur verið bent líka að ekki hefur verið leitað almennrar umsagnar Dýraverndarfélags Íslands í þessu máli, sem hefði svo sem verið eðlilegt.

Ég ætla að rekja örstutt þau viðhorf sem komu fram gagnvart þessu máli. Í umsögn Katrínar Andrésdóttur, héraðsdýralæknis á Suðurlandi, segir t.d., með leyfi forseta:

„Undirrituð leggst gegn umræddri breytingu.

Ekki hefur verið sýnt fram á að eldri hross þoli flutninga og umhverfisbreytingar sem af þeim stafa jafn vel og yngri hross.

Ýmsar vísbendingar eru hins vegar til þess að flutningar á erlenda grund valdi talsverðu álagi á öll hross. T.d. berast fregnir frá Bandaríkjunum um að blóðstatus nýinnfluttra íslenskra hrossa bendi til álags.

Leiða má líkur að því að eldri hross séu að jafnaði verr í stakk búin til að þola mikla flutninga og hafi minni aðlögunarhæfni gagnvart nýjum umhverfisaðstæðum, enda minnkar aðlögunarhæfni ónæmiskerfisins með aldrinum.

Hættan á sumarexemi er mikil sem og hætta á alvarlegum smitsjúkdómum.“

Katrín segir áfram, með leyfi forseta:

„Ég vil því leyfa eldri hrossum að njóta vafans, legg til að felld verði niður undanþága sú sem er í núgildandi lögum varðandi kynbótahross.“

Katrín Andrésdóttir, héraðsdýralæknir á Suðurlandi, vill heldur ganga í hina áttina og þrengja heimild til þess að flytja út eldri hross. Hún bendir á að nauðsynlegt sé að rannsaka vísindalega hvernig hrossum reiðir af við komu á erlenda grund og sýni rannsóknir að aldur skipti þar litlu eða engu máli, sé tímabært að taka lög þessi til endurskoðunar.

Þetta er alveg tímabær og réttmæt ábending. Vert er að hafa í huga að umræðan um aðbúnað og heilsufar íslenskra hrossa sem hafa verið flutt út hefur mikla þýðingu fyrir markaðsmál íslenskra hrossa. Þess vegna ber okkur skylda til að sýna mikla varúð til að ganga ekki á það þanþol sem er gagnvart þessari stöðu því að það er einmitt það sem gagnrýnendur okkar eða samkeppnisaðilar erlendis tína til, að íslensk hross þoli illa þennan flutning og meðferð þegar erlendis kemur. Því megum við alls ekki ganga á það þanþol með því að leyfa útflutning á hrossum sem gæti skaðað útflutningsímyndina. Enda tekur Sigríður Björnsdóttir, embættisdýralæknir hrossasjúkdóma, í sama streng og héraðsdýralæknirinn á Suðurlandi Katrín Andrésdóttir og segir, með leyfi forseta:

„Ég tel að frekar þurfi að skerpa á ákvæðum um dýravernd í lögum um útflutning hrossa en slá af þeim. Hugmyndin sem liggur að baki þessum efri mörkum er sú að það sé mikið álag fyrir hrossin að koma í nýtt umhverfi og það sé því vafasamt að leggja þær breytingar á fullorðin hross, það taki því varla. Það er vitað að flutningurinn hefur mikil áhrif á hrossin, þó svo þau séu flutt með flugvélum. Þau eru líka flutt lengra en áður í sumum tilfellum. Leiða má líkur að því að eldri hross séu að jafnaði verr í stakk búin til að þola mikla flutninga og hafi minni aðlögunarhæfni gagnvart nýjum umhverfisaðstæðum. Hættan á sumarexemi er mikil sem og hætta á alvarlegum smitsjúkdómum og þó svo ekki hafi verið sýnt fram á að aldur við útflutning sé þar beinn orsakavaldur er það almennt svo að aðlögunarhæfni ónæmiskerfisins minnkar með aldrinum.“

Embættisdýralæknir hrossasjúkdóma bendir enn fremur á að komið hafi fram vísbendingar frá Bandaríkjunum um óeðlilegan blóðstatus í hrossum sem við óttumst að séu stressáhrif vegna langra flutninga. Svo segir í umsögn Sigríðar. Hún leggur til að frekar sé skerpt á undanþágunni varðandi eldri kynbótahross en að vera að auka heimildir.

Í sama streng tekur líka dýralæknirinn hjá embætti yfirdýralæknis, Björn Steinbjörnsson. Hann varar einnig við því að rýmka þessi ákvæði.

Frú forseti. Ég vildi bara geta þess hér að um þetta eru skiptar skoðanir út frá dýraverndarsjónarmiðum eins og ég hef hér rakið en einnig út frá markaðsmálum, þ.e. að ekki sé verið að flytja út hross að ástæðulausu sem geti á einhvern hátt skaðað markaðsímynd íslenskra hross á erlendri grundu. Hross sem eru 15 ára og eldri eiga ekki svo mikið eftir að leggja til eigenda sinna í reiðmennsku og því er alveg sjálfsagt að fara þarna að með gát.

Frú forseti. Ég tek mikið mark á þessum athugasemdum sem hafa komið frá þeim dýralæknum sem þarna þekkja gerst til af þeim sem rannsaka og koma að þessum málum. Bæði héraðsdýralæknirinn á Suðurlandi, Katrín Andrésdóttir, og embættissdýralæknir hrossasjúkdóma, Sigríður Björnsdóttir, slá mikla varnagla við þessu. Þess vegna vil ég í lokin ítreka afstöðu mína. Ég styð í sjálfu sér þetta frumvarp með þeirri breytingu sem var hér lögð fram og hv. formaður landbúnaðarnefndar gerði grein fyrir um að skerpa enn frekar á dýralæknisskoðun á eldri hrossum. En mín skoðun er sú að þarna sé einungis verið að koma til móts við afmörkuð, takmörkuð tilvik fyrst og fremst t.d. þar sem íslenskur eigandi hefur lifað með hrossunum sínum og finnst mikið sáluhjálparatriði að taka þau með sér út ef hann er að flytja úr landi og þá með þeim annmörkum og með þeim takmörkunum og með því eftirliti sem ég hef hér rakið af hálfu íslenskra heilbrigðisyfirvalda, þ.e. að það sé fyrst og fremst verið að horfa til þessa mjög afmarkað en alls ekki að það eigi að opna fyrir útflutning á eldri hrossum í atvinnuskyni. Ég vil bara láta það alveg koma skýrt fram í mínu máli að með stuðningi mínum við þetta mál er ég ekki að lýsa stuðningi við að þetta eigi að vera ráðandi viðhorf gagnvart eldri hrossum í almennum útflutningi og markaðsmálum, síður en svo.

Þetta vildi ég láta koma fram, frú forseti, um þetta mál.