131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Útflutningur hrossa.

727. mál
[15:20]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að það verður auðvitað að hafa í huga vernd og velferð hestsins, vaka yfir velferð hans, hvernig um hann er hugsað og hvernig hann er kynntur.

Ég hygg að þetta sé mikið breytt frá fyrstu dögum útflutnings, að nú sé í rauninni enginn hestur seldur úr landi nema frá manni til manns. Þeir sem kaupa hesta, útlendingar, fá Íslendinga, okkar bestu hestamenn til að fara um allar heimsálfur og kynna hestinn og kenna fólki á hestinn og halda utan um hann. Þarna hefur orðið mikil breyting á. Hestar eru ekki lengur fluttir með skipum heldur í flugi og þar er önnur breyting.

Eitt er alveg ljóst að eigendur íslenskra hesta um allan heim eru alveg klárir á því að enginn hestur jafnast á við hesta sem fæddir eru á Íslandi. Þeir eru öðruvísi og þeir eru betri. Það sýnir að útflutningurinn heppnast í flestum tilfellum mjög vel.

Við höfum síðan glímt við þetta sumarexem sem okkar færu dýralæknar hafa verið að rannsaka og lagt mikla vinnu í og vonandi finnst mótefni við því. Yfir því þarf að vaka.

Hitt er svo annað mál að þetta er auðvitað alveg eins með manninn, ef ég fer á sólarströnd reynir það á mig í okkra daga, flug hefur áhrif á mig, jafnvel að fara norður í land, þó að það sé bara Skagafjörðurinn, hefur áhrif á mig svo dæmi sé tekið. (Gripið fram í.) Ja, ekkert alltaf til hins betra, þetta eru löng ferðalög. Það er alveg ljóst í huga hestamanna að kerruflutningar á milli landsfjórðunga geta haft áhrif. Hestamenn fara með hestana sína kannski viku áður en á að keppa á þeim. Þetta vita hestamenn í Evrópu sem þjóta með sína stóru hesta, eða hvers konar hesta sem þeir eiga, landa á milli. Þeir gera það í tíma því að allt reynir þetta á hestinn eins og manninn.

Yfir þessari velferð þarf að vaka eins og kemur fram í umsögnunum og auðvitað þarf að leggja í það bæði peninga og rannsóknir okkar færasta fólks.